20.03.1973
Sameinað þing: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2600 í B-deild Alþingistíðinda. (1994)

297. mál, friðuð svæði á Breiðafirði

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er rétt, að umrædd friðun var gerð að frumkvæði sjómanna og útgerðarmanna við Breiðafjörð. Þetta hefur verið svona um nokkurt skeið, að árlega hefur verið birt í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing þetta varðandi. Er það sérstaklega athyglisvert, að því er varðar bann við netaveiði, eins og segir í auglýsingunni: „Enn fremur er netaveiði bönnuð allt árið í Breiðafirði innan línu, sem hugsast dregin úr Skor í Eyrarfjall við Grundarfjörð: Auglýsing þessi er sett samkvæmt ákvæðum í lögum frá árinu 1948 um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að hér er um einstæða friðun að ræða og um hana ríkir einhugur heima fyrir. Það er algjör friður um þessa friðun. Breiðfirzkir sjómenn og útgerðarmenn vilja vinna með fiskifræðingum. Þeir vilja efla hafrannsóknir, gera niðurstöður þeirra traustar og öruggar, svo að á þeim megi byggja. En þeir byggja einnig og ekki síður á eigin reynslu í daglegum störfum og vilja ekki varpa henni fyrir róða. Telja þeir, að árangur af þessari friðun hafi verið góður, og benda á, hvort ekki sé ástæða til þess að gera álíkar friðunarráðstafanir víðar um land.