20.03.1973
Sameinað þing: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2601 í B-deild Alþingistíðinda. (1996)

297. mál, friðuð svæði á Breiðafirði

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég tel, að það sé merkileg yfirlýsing, sem kemur hér frá forstöðumanni Hafrannsóknastofnunar ríkisins í sambandi við þetta mál. Eins og réttilega hefur verið skýrt frá hefur þessi friðun á Breiðafirði átt sér stað fyrir framtakssemi heimamanna og trú þeirra á því, að friðun Breiðafjarðar hafi verulega þýðingu fyrir uppfæðinginn, sem þar er. Er merkilegt út af fyrir sig, að fiskifræðingurinn eða forstöðumaðurinn skuli segja, að það ekki hafi farið fram nein fiskifræðileg athugun á þessu svæði, sem búið er að friða nú um fjögurra ára skeið, að stofnunin hafi ekki fundið hvöt hjá sér til þess að gera einhverjar rannsóknir undir slíkum kringumstæðum. Hann vísar einnig til þess í því sambandi, að það hafi ekki verið óskað eftir rannsókn. Ég hélt, að ekki þyrfti að koma sérstök beiðni til stofnunarinnar, til þess að hún gerði það, sem henni ber. Ef einhverjar svona ráðstafanir eru gerðar, er sjálfsagt af slíkri stofnun að fylgjast með því, sem um er að ræða í því sambandi. Forstöðumaðurinn fullyrðir, að á innanverðum Faxaflóa og Breiðafirði eigi sér engin hrygning stað. Mér er spurn: Hvað gerist hjá þeim fiski, sem er vitað, að er í stórtorfum fullur af hrognum á hrygningartímanum á þessum svæðum? Heldur hann hrognunum í sér og hrygnir ekki — eða hvað? Ég held, að það væri betra, að það kæmu skýrari og greinarbetri svör frá forstöðumanni Hafrannsóknastofnunarinnar en hann slær hér fram. Það er vitað, að það er mikið af fiski á þessum fiskimiðum í því ásigkomulagi, sem á sér stað, þegar um hrygningu er að ræða. Og það er alveg merkileg fullyrðing, sem fiskifræðingurinn heldur fram.