20.03.1973
Sameinað þing: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2603 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

194. mál, vetrarsamgöngur um Múlaveg

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ástand það, sem hv. fyrirspyrjandi lýsti um vetrarsamgöngur við Ólafsfjörð um Múlaveg, á því miður við um mörg byggðarlög á Íslandi að vetrinum til, og væri full þörf á að leggja mikið fé til þess að bæta úr slíku ástandi, einkanlega með tilliti til ástandsins í læknamálum héraðanna. En fsp. er í tveimur liðum og fyrri liður fsp. á þessa leið: „Hyggst vegamálastjóri kanna aðstæður til að byggja yfir gil á Múlavegi, þar sem reynslan sýnir, að mestu snjóflóð falla á vetrum?“ Svar vegamálastjóra um þetta er á þessa leið:

„Þegar vegáætlun fyrir árin 1972–1975 var til athugunar í fjvn. Alþ., komu fram till. um að byggja yfir gil á Múlavegi og Bolungarvíkurvegi, þar sem snjóflóð falla að jafnaði oft á ári. Vegamálastjóri upplýsti um það, að engin leið væri að segja til um kostnað við slíkt nema að undangenginni ítarlegri athugun á staðháttum og í framhaldi af því, hvers konar gerð yfirbyggingar kæmi til greina, en engin reynsla er af slíkum yfirbyggingum til varnar snjóflóðum hér á landi. Hét hann því (þ. e. a. s. þn., sem um þetta fjallaði) að gera slíka athugun, svo að niðurstöður um tæknilega möguleika og kostnað gætu legið fyrir við endurskoðun vegáætlunar fyrir árin 1974 og 1975. Í framhaldi af þessu fyrirheiti vegamálastjóra voru aðstæður skoðaðar og mælingar gerðar við nokkur tiltekin gil á Múlavegi og Bolungarvíkurvegi. Enn fremur var Eymundur Runólfsson verkfræðingur sendur til Noregs s. l. sumar til þess að kynna sér gerð slíkra yfirbygginga vegna snjóskriðuhættu, en þar eru þær nokkuð algengar, einkum í Vestur-Noregi.“

2. liður fsp. er: „Ef svo er, hversu langt er undirbúningur kominn á veg og hvenær geta framkvæmdir hafizt?“ Vegamálastjóri svarar þessu á þennan veg:

„Unnið er nú að frumáætlunum um slíkar yfirbyggingar á Múlavegi og Bolungarvíkurvegi og stefnt að því, að ákveðnar till. og kostnaðaráætlanir geti legið fyrir við endurskoðun vegáætlunar fyrir árin 1974–1975, eins og heitið var. Ljóst er þó þegar af þeim athugunum, sem gerðar hafa verið, að slíkar yfirbyggingar eru mjög kostnaðarsamar, og geta framkvæmdir því ekki hafizt, fyrr en fjárveitingar til þeirra liggja fyrir.“

3. liður fsp. er: „Áformar Vegagerð ríkisins að auka tækjakost við snjóruðning í Múlavegi?“ Svar vegamálastjóra við þessu er svo hljóðandi:

„Í vetur hefur eftirtalinn tækjakostur verið notaður við snjómokstur í Ólafsfjarðarmúla: 1. Ein jarðýta í eigu Ólafsfjarðarkaupstaðar og ein til tvær jarðýtur eftir þörfum frá Dalvík og út Svarfaðardal. Enn fremur hafa verið notaðir tveir vegheflar af stærstu gerð, svo og snjóblásari, en hann hefur einkum verið notaður á Upsaströnd, en á vissum stöðum í sjálfum Múlanum er ekki unnt að beita snjóblásara sökum grjóts, sem berst á veginn í snjóskriðum. Vegagerðin áformar ekki að auka tækjakost við snjóruðning í Ólafsfjarðarmúla umfram það, sem að framan greinir.“