20.03.1973
Sameinað þing: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2604 í B-deild Alþingistíðinda. (1999)

194. mál, vetrarsamgöngur um Múlaveg

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svörin. Ég vil lýsa ánægju minni yfir fyrri hluta í svari hæstv. ráðh., þar sem það virðist vera í athugun að undirbúa mannvirkjagerð í þeim giljum á Ólafsfjarðarmúla, sem eru verst vegna snjóflóðahættu. Það hefur að vísu dregizt að gera þessar athuganir. Það er búið að tala um þetta í fjöldamörg ár, og þetta kom ekki fyrst til tals við gerð síðustu vegáætlunar, eins og kemur fram í svari vegamálastjóra, heldur er hér um baráttumál að ræða, sem á sér miklu lengri aðdraganda. En hvað um það, það er gott til þess að vita, að þetta þokast í rétta átt.

Um síðari liðinn verð ég að lýsa algerri og megnri óánægju minni yfir svari vegamálastjóra. Hann telur, að ekki sé á döfinni að auka tækjakost Vegagerðar ríkisins til þess að ryðja snjó af Múlavegi. Hann vill þá sem sagt segja Ólafsfirðingum, að þeir verði að gera ráð fyrir því, að þeir geti búizt við að hafa engar samgöngur um hálfs mánaðar til þriggja vikna skeið eftir því, hvernig viðrar á vetrum, eins og nú er háttað. Ég var að rekja það hér áðan, þegar ég mælti fyrir þessum fsp., hvaða tækjakost er þarna um að ræða. Vegamálastjóri nefndi tvær aðrar jarðýtur, sem eru enn eldri og enn minna megnugar en sú, sem ég minntist á áðan. Þær þurfa auk þess að sjá um miklu meira verkefni en að ryðja snjó af Múlavegi, enda hefur verið þannig stundum, eins og ég sagði áðan, að það tekur 7–10 daga að vinna þetta verk. Á þeim tíma skipast oft veður í lofti, og þá er verkið ónýtt. Þetta er handabaksvinna á árinu 1973, sem er ekki hægt að þola og ekkert réttlæti í. Hvað mundu Reykvíkingar segja, ef þeir kæmust ekki á sjúkrahús, hvernig sem á stæði í hálfan mánuð?