30.10.1972
Neðri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

27. mál, Tæknistofnun sjávarútvegsins

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil við 1. umr. um þetta mál segja fáein orð. — Það eru nú ein 6 eða 7 ár, að ég bygg, síðan ég flutti hér á hinu háa Alþingi þáltill., þar sem svo var fyrir mælt, að ríkisstj. skyldi undirbúa löggjöf um tæknistofnun fyrir sjávarútveginn. Ég held, að ég hafi flutt slíka þáltill.

á tveimur eða þremur þingum, auk þess sem ég flutti á sínum tíma brtt. við lög um Hafrannsóknastofnunina í sama augnamiði. Það fer ekki á milli mála, að þörfin fyrir slíka stofnun hefur lengi verið brýn, en skilningurinn á þeirri nauðsyn því miður ekki verið nægi lega mikill. Svo fór a.m.k., þegar ég flutti þetta mál hér á Alþingi, að skilningurinn var ekki nægur til þess, að till. næði fram að ganga, og því síður til þess, að neitt væri gert í málinu. Eins og hæstv. ráðh. lýsti, hafa að vísu nokkrar stofnanir fengizt við ákveðin atriði í sambandi við þau verkefni, sem hljóta að verða verkefni slíkrar tæknistofnunar, en það hefur því miður ekki verið á neinn þann hátt, að viðhlítandi væri.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að íslenzkur landbúnaður nýtur, og hefur um langt skeið notið, margvíslegrar aðstoðar sérfróðra manna um hina ýmsu þætti landbúnaðarmála. Þar er um að ræða, að því er ég hygg, býsna vel skipulagt starf, sem sérfræðingar og ráðunautar vinna á hinum ýmsu sviðum, og er það vissulega vel. En að því er varðar annan höfuðatvinnuveg okkar, þann mesta, sjávarútveginn, hefur þessu verið á allt annan veg farið. Útvegsmenn og sjómenn hafa ekki átt þess kost í neitt nándar nærri eins ríkum milli og til að mynda bændur að leita ráðneytis og tækniaðstoðar aðila, sem sérstaklega væru til þess hæfir og hefðu það hlutverk að veita slíka aðstoð. Það er því vissulega meira en mál til komið, að þessi mikilvægu mál verði tekin föstum tökum og sérstök stofnun, eins og hér er lagt til, verði sett á fót. Það, sem mér þykir helzt skorta á það frv., sem hér liggur fyrir, er, að mér finnst skrefið of skammt stigið. Hér þarf vissulega miklu meira fjármagn til að koma heldur en gert er ráð fyrir að afla skv. þessu frv., og þarf ekki að rökstyðja það í löngu máli.

Meðal þeirra verkefna, sem hljóta að bíða slíkrar tæknistofnunar sjávarútvegsins, er að fara út á fiskimiðin, hafa umráð yfir skipi um lengri eða skemmri tíma og kanna ýmsar gerðir veiðarfæra og annan útbúnað skipa. Þetta kostar að sjálfsögðu mikið fé og er ljóst, að þeir fjármunir, sem tæknistofnuninni eru í upphafi ætlaðir, hrökkva skammt til slíkra meiri háttar starfa. En það er þó betra að byrja, þótt í smáum stíl sé, heldur en láta reka á reiðanum í þessu efni, því að það hefur vissulega orðið okkur dýrt og verður dýrt. Ég er ekki í neinum vafa um það, að vel búin tæknistofnun sjávarútvegsins gæti sparað verulegt fé á hverju ári, jafnvel stórfé. Auk þess, sem hæstv. ráðh. hefur bent á um verkefni slíkrar stofnunar, vil ég aðeins undirstrika, að könnun veiðarfæra er e.t.v. brýnni en margt annað nú, m.a. og e.t.v. ekki sízt könnun á því, hvort ekki er hægt í sambandi við hin ýmsu veiðarfæri okkar, sem notuð eru, að draga með breytingu á tæknibúnaði úr því háskalega drápi á fiskseiðum og ungfiski, sem hefur a.m.k. á sumum tímum og með sumum veiðarfærum átt sér stað í allt of ríkum mæli. Kunnugir útvegsmenn og skipstjórnarmenn telja, að þetta sé hægt. Það hafa verið gerðar nokkrar tilraunir í þessu skyni, bæði í sambandi við vörpu og í sambandi við rækjutroll, en þær hafa að mestu verið á vegum einstaklinga, sem ekki hafa haft bolmagn til að fullkomna þær. Þetta er eitt af hinum stóru og allra brýnustu verkefnum, sem að mínu viti liggja fyrir tæknistofnun, þegar hún verður komin á fót. Að sjálfsögðu yrði slík tæknistofnun að hafa náið og gott samstarf við aðra opinbera aðila, svo sem Hafrannsóknastofnun og fleiri, en út í það er óþarfi að fara.

Ég vil aðeins með þessum orðum leggja áherzlu á, að hér er um stórmál að ræða, og sú n., sem fær það til meðferðar, ætti að mínum dómi að taka það mjög til athugunar, hvort ekki sé ástæða til að efla þetta frv. að því leyti að afla hinni væntanlegu tæknistofnun aukins fjármagns, því að þess mun vissulega þörf.

Að því er varðar brtt. þá, sem hv. 8. landsk. þm. hefur flutt og mælt fyrir, um, að Tæknistofnun sjávarútvegsins verði staðsett á Akranesi, vil ég aðeins segja það, að ég tel sjálfsagt, að n. taki það til athugunar, hvort ekki geti verið hentugt og skynsamlegt að hafa slíka stofnun í öflugu sjávarplássi, svo sem eins og Akranesi eða öðru, sem hentugt þætti. Ég sé ekki nauðsyn þess, að hún þurfi endilega að vera hér í Reykjavík, þó að eitt og annað þurfi sjálfsagt hingað að sækja, en vil að vísu í þessu sambandi benda á það, að hér suður á Reykjanesi eru þrír af öflugustu útgerðarstöðum á landinu á þéttu svæði, þar sem eru Grindavík, Keflavík og Sandgerði. Ég vil aðeins undirstrika í þessu sambandi, að ég tel ástæðu til að kanna, hvort slík stofnun sem þessi ætti ekki að vera í útgerðarbæ utan Reykjavíkur.

Að svo mæltu vil ég endurtaka það, að ég tel. að þetta sé stórt mál og geti orðið íslenzkum sjávarútvegi lyftistöng, ef vel tekst til um stofnun og rekstur slíkrar tæknistofnunar, því að hennar hefur lengi verið þörf.