20.03.1973
Sameinað þing: 61. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2606 í B-deild Alþingistíðinda. (2001)

8. mál, kosningar til Alþingis

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 336 brtt. við þá þáltill., sem hér er til umræðu. Þegar málið var hér fyrst til umræðu s. l. haust, fyrstu dagana í nóvember, gerði ég að umtalsefni ýmis atriði, sem svokölluð kosningalaganefnd hafði fjallað um og ræddi um í grg. sinni frá janúar 1971, sem um er getið í athugasemdum við þessa þáltill. Einnig ræddi ég þá um till. utanrrn. um framkvæmd utankjörstaðakosninga erlendis, sem hv. frsm. allshn. hefur reyndar rifjað upp í ræðu sinni hér áðan. Þegar þessar umr. fóru fram í Sþ., þá hafði kosningalaganefnd ekkert starfað frá því um vorið 1971. Ég reyndi að afla mér nánari upplýsinga um þetta og varð þess áskynja, að eftir að þm. höfðu fengið skrá um ráð og n. á vegum ríkisins, þá sýndi sig, að kosningalaganefndin, sem sett var á laggirnar í júní 1970, var enn til, þó að ýmsar n. hefðu verið leystar upp eða lagðar niður. En kosningalaganefndin sýndi sig sem sé að vera til enn þá, og fulltrúi sveitarstjórnasambandsins í kosningalaganefndinni, einn af þremur fulltrúum, sem í henni áttu sæti, borgarlögmaðurinn í Reykjavík, sem er formaður stjórnar Sambands íslenzkra sveitarfélaga, hann hafði ítrekað óskað eftir, að haldnir væru fundir og gengið eftir því, hvort n. ætti ekki að halda áfram sínum störfum, en hafði aldrei fengið neinar undirtektir undir það og sagði sig svo úr n. í nóv. s. l. Nú er því miður, eins og þegar þetta mál var fyrr til umr. hér í Sþ.,hæstv. dómsmrh. er ekki viðstaddur. Ég hefði gjarnan viljað spyrja hann, hvort í rn. hefði verið eitthvað unnið að endurskoðun kosningalaganna, þó að n. hafi ekki komið þar nærri, og hvort breytingar og endurbætur á þeirri löggjöf hefðu að einhverju leyti verið undirbúnar í ráðuneytinu í hans ráðherratíð. Ég hafði ætlað mér að óska eftir því, ef svo væri, að hæstv. ráðherra gæfi þm. einhverjar upplýsingar um, á hvaða stigi þessi mál væru.

Þegar þetta mál var til umræðu hér fyrst í haust, beindi ég því til þeirrar þn., sem fengi málið til meðferðar, að taka til athugunar annars vegar að leggja til þá breytingu, að till. yrði víðtækari, þ. e. a. s. væri ekki eingöngu bundin við utankjörstaðaatkvgr., og hins vegar, að stefnt yrði að því að leggja frv. fyrir það þing, sem nú situr, en miða ekki við það, að málið bíði næsta þings. Þetta mátti vel takast. Þáltill. var með fyrstu málum, sem fyrir þingað voru lögð, og ég vil nú þessari till. minni til stuðnings vekja athygli á því, sem segir í sjálfri grg. með frv„ en þar segir m. a. svo, með leyfi hæstv. forseta: „Þessi till. er flutt til að knýja á um framhald þessa verks, og telja flm., að ekki megi dragast lengur en fram á næsta þing að koma til móts við sanngjarnar kröfur námsmanna í þessum efnum.“ Þarna er vikið að erfiðleikum námsmanna við að geta notið kosningaréttar, námsmanna erlendis. Nú hefur þetta mál haft ákaflega hægan framgang. Það var í byrjun nóvember, sem málið er fyrst tekið til umræðu í Sþ., síðan kemur nál. frá allshn., sem er dags. 10. febr. 1973, það er sem sé hálfur annar mánuður síðan n. gaf út sitt álit. Þegar það svo sýndi sig, að n. hafði ekki flutt neinar brtt. við frv. eða einstakir nm., þó að menn áskildu sér rétt til slíks, lagði ég fram þessa brtt, mína á þskj. 336. Ég sá fram á, eins og þá var orðið áliðið þings, að það þýddi vart að tala um fleiri atriði en utankjörstaðakosninguna. Hins vegar sýndist þá, ef till. yrði einskorðuð við utankjörstaðaatkvgr., að með sanngirni mætti ætlast til þess, að frv. yrði lagt fyrir það þing, sem nú situr, og það ætti að geta fengið afgreiðslu fyrir þinglok. En síðan nál, var útgefið er sem sé liðinn hálfur annar mánuður og hlýtur að styttast til þingloka, þó að ég viti ekki, hvað hæstv. ríkisstj. ætlast fyrir um þinghaldið. En eigi að síður finnst mér, að það sé þess virði að freista þess að fá samþ. þá brtt., sem ég hef flutt, þar sem eina breytingin er sú, að í stað þess að breytingar verði lagðar fyrir næsta þing, þá orðist till. þannig, að þær verði lagðar fyrir þingið hið allra fyrsta. Ég get alla vega ekki séð, að sú brtt. geti á nokkurn hátt veikt eða dregið úr sjálfri þáltill., eins og hún liggur fyrir, og það er þó allténd tilraun til þess að ýta við hæstv. dómsmrh. um, að gengið verði í það að undirbúa till. um þetta afmarkaða verkefni. Vil ég alveg sérstaklega taka undir það, sem áður hefur komið fram í umr. um þessa þáltill., en það er utankjörstaðaatkvgr. erlendis, en um það efni hafa komið frá utanrrn. till., sem menn virðast nú vera á nokkuð einu máli um, að ættu að geta verið framkvæmanlegar.

Hitt atriðið, sem hv. frsm. allshn. minntist á, heimakosningar, hefur býst ég við, ekki hlotið neina frekari athugun, ekki var það í kosningalaganefndinni, ég fylgdist með störfum hennar, meðan ég hafði með þessi mál að gera í dómsmrn., og ég á varla von á því, að það verði unnt að hrista fram úr erminni till., sem menn geta sætt sig við, um það atriði á mjög skömmum tíma. En ég tel, og vafalaust getum við þm. verið sammála um það, að það sé skylda Alþ. að greiða fyrir því, að menn geti notað þau dýrmætu réttindi, sem kosningarétturinn er. Og ég held, að við Íslendingar höfum verið full íhaldssamir í þeim efnum, þótt ég vitaskuld viðurkenni eins og aðrir, að fara þurfi með gát til þess að fyrirbyggja alla misnotkun.

En hafi á s. l. hausti verið ástæða til að leggja áherzlu á, að till. yrðu lagðar fyrir þetta þing, þá væri ástæða til þess vissulega enn augljósari nú, því að ég held, að þeir séu ekki ýkjamargir orðið, sem hafa trú á því, að hæstv. ríkisstj. muni eiga sér lengri lífdaga en í hæsta lagi til haustsins. Ef þeir kjósendur, sem þessi þáltill. á að greiða fyrir, eiga að fá aukna möguleika til þess að kjósa í næstu alþingiskosningum, er sannarlega að verða hver síðastur til þess að koma slíkri lagabreytingu í kring.