20.03.1973
Sameinað þing: 61. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2610 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

8. mál, kosningar til Alþingis

Auður Auðuns:

Herra forseti. Það liggur við, að ég hefji mál mitt með svo óformlegum hætti sem að segja: Nú er ég aldeilis hissa. Hv. 4. landsk. þm., Svava Jakobsdóttir, er 1. flm. að þessari þáltill., og ég efast ekkert um, að hún eins og aðrir flm. hafi haft á því einlægan vilja í haust að greiða fyrir því, að námsmenn erlendis gætu notið kosningarréttar síns. Þegar er vitað og þrátt fyrir það, sem hv. þm. sagði, veit hún ekki síður en við öll, að líf þessarar hæstv. ríkisstj, okkar hangir á horriminni, og þó getur hún ekki fallizt á svo lítilfjörlega brtt. sem þá, að það skuli leggja hið allra fyrsta fyrir þingið till. til breytinga á kosningal. varðandi utankjörfundaratkvgr., en samþykkt slíkrar brtt. mundi ekki á nokkurn hátt veikja þáltill., eins og hún liggur nú fyrir, heldur mundi hún herða á efni till. Ég þori ekki að fullyrða, að það gæti tekizt að leggja fram og afgreiða á yfirstandandi þingi breytingar á kosningal. um þetta afmarkaða verkefni, og þó, án þess að ég þori að fullyrða það, held ég, að það ætti að mega takast um utankjörfundaratkvgr. erlendis. Um hitt atriðið er alveg ljóst, að um það er ekki hægt að ná samkomulagi, heimakosningarnar. Það er mál, sem áhyggilega þarf langtum meiri undirbúning, En hitt atriðið, sem mér heyrist nú eiginlega, að hv. þm. hafi borið alveg sérstaklega fyrir brjósti, það sýnist mér, að ætti að vera hægt að afgreiða á þinginu.

Hún vitnaði til þess, að þegar ég var dómsmrh. framan af ári 1970, hafi legið fyrir hugmyndir utanrrn., sem hér hafi verið margreifaðar, um framkvæmd, sem mönnum sýnist nú, að væri möguleg og lízt nokkuð vel á, og vitnaði til þess, að þá hefðu ekki verið lagðar fram till. um breytingar á kosningal., og var þó vitað, að kosningar stóðu fyrir dyrum um sumarið. En það var bara allt annað og miklu meira verkefni, sem þá var haft í huga hjá kosningalaganefndinni, og ég held, að ég hafi minnzt á það, þegar þetta mál var fyrst til umr. í haust, að það var aðallega eitt vandamál, sem kosningalaganefndin var að glíma við og var svo leyst með samkomulagi þinaflokkanna. Og það var það, að við kosningar 1970 voru námsmenn, sem voru við nám erlendis, á Norðurlöndunum, nærri því allir fallnir út af kjörskrá, og það kom til af því, að framkvæmd manntalsskráningar í þessum löndum er með öðrum hætti en við eigum að venjast og með öðrum hætti en við höfum búizt við, að hún yrði, þegar við gerðumst aðilar að samnorrænum reglum um manntalsskráningu. Ég minntist á það þá, að ég grennslaðist eftir því hjá hagstofustjóra, hvort leiðréttingar mundi vera að vænta á framkvæmd manntalsskráningar á Norðurlöndum, einmitt með það í huga, að nú mundu væntanlega verða kosningar á árinu 1973. Það eru haldnir fundir, síðast var fundur í haust til þess að fjalla um þetta með fulltrúum frá öllum löndunum, og vonandi tekst að kippa því í lag eða alla vega að afstýra því aftur, að námsmenn falli hrönnum saman út af kjörskrá.

Ég sem sé endurtek það, að mér er alveg óskiljanlegt, hvernig þeir, sem hafa viljað fylgja þessu máli eftir og hafa áhuga á því, geta lagzt á móti þessari brtt. Það væri þá að sjálfsögðu rn. að meta það, hvort hún er framkvæmanleg á þessu þingi, sem er kannske ólíklegra fyrir þær sakir, að það hefur líklega bókstaflega ekkert verið unnið í þessu máli í senn tvö ár. En ég fæ ekki séð, að þessi litla brtt. mín geti á nokkurn hátt torveldað þá framkvæmd, sem þáltill. gerir ráð fyrir.