20.03.1973
Sameinað þing: 61. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2618 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

157. mál, milliþinganefnd í byggðamálum

Tómas Árnason:

Herra forseti. Þetta málefni um mörkun almennrar stefnu í byggðamálum er mjög umfangsmikið mál og ástæða til þess, að það sé rætt hér á hv. Alþ. Það hefur komið í ljós, að hér hafa verið lögð fram nokkur þingmál, sem snerta þetta mikla mál. Ég mun ekki hefja almennar deilur við hv. 5. þm. Norðurl. e. um almenna stefnu stjórnmálaflokkanna varðandi landsbyggðina. Ég vil þó taka það fram, sem alkunna er, að einn gildasti þátturinn í stefnuskrá Framsfl. hefur verið og er stuðningur við landsbyggðina. Það þarf í raun og veru ekki annað en vísa til fylgis flokksins til að sjá, hvernig fólkið hefur metið þennan þátt í stefnu hans.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. kom dálítið inn á starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins. Það er gert ráð fyrir því í lögum um hana, að ríkisstj. gefi Alþ, árlega skýrslu um störf hennar, þannig að ég mun ekki í máli mínu hér á eftir ræða sérstaklega um hana, en víkja þó nokkuð að þeim þætti starfs Framkvæmdastofnunarinnar, sem fjallar um áætlanagerð.

Uppbygging landsbyggðarinnar er eitt brýnasta og stærsta mál þjóðarinnar. Um það eru áreiðanlega fleiri og fleiri sammála. Sú þróun, sem átt hefur sér stað á undanförnum áratugum, að byggðirnar úti um landið hafa verið að veikjast margar hverjar svo mjög, að við landauðn liggur, er auðvitað mjög alvarlegs eðlis. Þetta mál varðar marga þætti í okkar þjóðarbúskap og snertir mjög áætlanagerð, fjárlagagerð og auk þess almenna lagasetningu. Við umr. um þetta mál á dögunum var hv. 2, þm. Vestf., — hann er því miður ekki staddur hér í þd. núna, að ræða um muninn á afstöðu þeirra, sem nú eru fylgjandi hæstv. ríkisstj, að málum, og afstöðu þeirra til sömu mála, þegar þessir sömu hv. þm voru í stjórnarandstöðu, og þm. sagði: Tímarnir breytast og mennirnir með. Svo hittist á að ég var í þeirri andrá að lesa þingmál, sem hér hefur verið lagt fram af nokkrum þm. Sjálfstfl., till, til þál. um stofnun verðjöfnunarsjóðs vöruflutninga. Og ég verð að segja það, að ég var í einni svipan sammála hv. þm. um það, að tímarnir breytast og mennirnir með, því að við 12–13 ára setu í ríkisstj., þar sem Sjálfstfl. réð mestu, lá þetta mál í láginni að hans hálfu. Hins vegar var því oft hreyft, þótt í öðru formi væri, af þm. stjórnarandstöðunnar þá. Sérstaklega mun þó hv. 5. þm. Austf, hafa hreyft þessu máli nokkrum sinnum á þessu tímabili án þess að fá nokkrar undirtektir stjórnarliða. Síðan þessar umr. fóru fram fyrir nokkrum dögum, hefur verið lagt hér fram nýtt þingmál á þskj. 383, till. til þál. um skipulag byggðamála og auknar ráðstafanir til hagkvæmrar byggðaþróunar. Þar eru gerðar ítarlegar till. um skipulag byggðamála og margt fleira, og þar er lagt til alveg sérstaklega, að tekjur byggðasjóðs verði auknar og stefnt að því, að þær verði ekki lægri í heild en sem svarar 2% af árlegum tekjum ríkissjóðs. Þetta mundi svara til um 440–450 millj, kr., miðað við tekjur ríkissjóðs samkv. fjárl. fyrir árið 1973. Ég vil enn taka undir með hv. 2. þm. Vestf., að tímarnir breytast og mennirnir með, því að í 12–13 ára ríkisstjórnartíð Sjálfstfl. var till. um þetta efni flutt hér á Alþ. nokkrum sinnum án þess að fá nokkra áheyrn hjá þáv. stuðningsmönnum ríkisstj. En þessi till, er að mínum dómi athyglisverð og ástæða til að taka eftir henni, en þá ætla ég að vonast til þess, að þegar til framkvæmda kemur, verðum við, ég og hv. 2. þm. Vestfj., sammála um það, að þótt tímarnir breytist, þá breytist mennirnir ekki og menn geti tekið höndum saman um að gera það að veruleika, að a. m. k. 2% af tekjum ríkissjóðs verði varið til byggðasjóðs, sem á að stuðla samkv lögum að jafnvægi í byggð landsins.

Vandamál byggðaþróunar eru ekki bundin við okkur Íslendinga eina eða Ísland, heldur er þetta vandamál, sem hefur verið mjög ríkur þáttur í stjórnmálum nágrannaríkja, eins og t. d. Skotlands, Noregs og Svíþjóðar. Á sínum tíma var saminn smábæklingur um vandamál byggðaþróunar í Noregi og Svíþjóð. Það var atvinnujöfnunarsjóður, sem lét taka þennan bækling saman árið 1967, og þar er gerð grein fyrir því, hvernig t, d. Norðmenn hafa unnið að þessum málefnum. Með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að lesa örfáar tilvitnanir úr þessu riti: „Norsk stjórnvöld hafa á síðustu 30 árum unnið að því að draga úr þeirri miklu efnahags- og þjóðfélagslegu röskun, sem of hraðir búferlaflutningar valda og hafa beitt ýmsum aðgerðum í því skyni, og verður hér gerð stuttlega grein fyrir þessum aðgerðum yfirleitt og síðar nánari grein fyrir starfsemi Distriktenes utbygningsfond, sem er byggðasjóður þeirra Norðmanna, en starfsemi hans hefur mesta þýðingu á þessu sviði. Þessi sjóður veitir lán, ábyrgð fyrir lánum, bæði fyrir stofnlánum og rekstrarlánum, og styrki til arðbærra framleiðslufyrirtækja á landssvæðum, sem eiga við sérstaka erfiðleika að stríða. Auk þess lætur sjóðurinn gera eða gerir sjálfur áætlanir um uppbyggingu ákveðinna landssvæða eða atvinnugreina. Og í þriðja lagi beinist starfsemi sjóðsins að því að stuðla að myndun byggðakjarna.“

Það má því segja, að þessi sjóður hafi svipuðu hlutverki að gegna í Noregi og byggðasjóður hefur hér hjá okkur, nema þá öllu víðtækara. En hjá okkur starfar byggðasjóður í nánu samstarfi við áætlanadeild Framkvæmdastofnunarinnar.

Starfsemi sjóðsins er mjög víðtæk og víðtækari en að fjalla aðeins um umsóknir um lánveitingar og lánastarfsemi. Það er bæði verkefni hans að kanna skilyrði til atvinnuuppbyggingar á einstökum landssvæðum og benda á verkefni, sem hinar ýmsu opinberu stofnanir skulu vinna að til þess að styrkja uppbyggingu landssvæðanna og koma á samstarfi þeirra í milli. Stofnun þessa sjóðs í Noregi hefur gert það kleift að hvetja og aðstoða við uppbyggingu stærri atvinnufyrirtækja í landshlutum, sem eiga við erfiðleika að stríða. Mælikvarðar þess, hvaða landssvæði skuli njóta stuðnings úr sjóðnum, eru eftirfarandi:

1. Lágar meðaltekjur á íbúa. 2. Atvinnuleysi. 3. Brottflutningur fólks. 4. Of einhliða atvinnulíf. Stjórn þessa sjóðs tekur á hverjum tíma ákvörðun um, hvort tiltekin landssvæði falla undir starfssvið sjóðsins. Það má segja, eins og ég sagði áður, að þessi sjóður starfi á mjög svipaðan hátt og byggðasjóður gerir hér, sérstaklega þegar það er haft í huga, að Framkvæmdastofnun ríkisins sér um rekstur byggðasjóðs og stjórn þeirrar stofnunar ákveður útlánastarfsemi sjóðsins, en einn af þremur meginþáttum í þeirri starfsemi, sem þar fer fram, er áætlanagerð, sem er í nánum tengslum við byggðasjóðinn.

Ég hygg, að menn séu velflestir sammála um, að vinna verði að jafnvægi í byggð landsins með skipulögðu áætlanastarfi. Landsbyggðin hefur sjálf skilið þessa þörf, því að allir landshlutar hafa nú stofnsett samtök, sem yfirleitt eru nefnd samtök sveitarfélaga í viðkomandi landshluta. Þessi samtök, sem eru að eflast, hafa fengið vissa viðurkenningu í löggjöf nýlega, og það eru uppi till. um að setja sérstaka löggjöf um starfsemi landshlutasamtakanna. Eitt meginverkefni þeirra er einmitt að fjalla um áætlanagerðir í viðkomandi landshluta, og með setningu löggjafarinnar um Framkvæmdastofnun ríkisins var lögfest heimildarákvæði um, að stjórn byggðasjóðs væri heimilt að greiða landshlutasamtökum sveitarfélaga af fé sjóðsins, sem svarar 3/4 hlutum af árslaunum starfsmanns, að því tilskildu, að hann ynni að undirbúningi og gerð áætlana fyrir viðkomandi landshluta í samvinnu við áætlanadeild Framkvæmdastofnunarinnar. Þessa heimild hefur Framkvæmdastofnunin notað. Hún notaði hana á þann hátt á síðasta ári, að það voru veittir styrkir til þessarar starfsemi landshlutasamtakanna, sem námu 500 þús. kr. á hvert þeirra miðað við heils árs starf. Það munu aðeins hafa verið tvenn samtök, sem fengu fullan styrk á síðasta ári til þessa starfs, en það væru Fjórðungssamband Norðlendinga og Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi. Landshlutasamtökin sækja um þennan styrk, og hefur verið ákveðið að veita þeim á þessu ári til þessarar starfsemi 640 þús. kr. hverju, til að vinna sérstaklega að áætlanagerð.

Það má vinna að áætlanagerð með ýmsu móti. Hún er mjög vandasöm, og það er umfangsmikið starf að gera áætlanir um uppbyggingu landshluta. Ég hygg, að tvær aðferðir komi aðallega til greina í þessum efnum. Annars vegar er það, sem ég vildi kalla bundna áætlanagerð, bundnar áætlanir, sem felst hreinlega í því að kortleggja vissan ramma í einstökum atriðum og framkvæma síðan lið fyrir lið, og svo á hinn bóginn það, sem mætti nefna frjálsa áætlanagerð eða frjálst áætlanastarf, sem grundvallast á setningu rammaáætlana, sem byggja m. a. á því að skapa skilyrði fyrir æskilegri þróun. Það er ekki bæði hægt að leiða hestinn að vatnsbóli og láta hann drekka. Hann verður að drekka sjálfur. Ef þessi hugsun er lögð til grundvallar við áætlanastarf að verulegu leyti, þá byggist hún á því að skapa skilyrði til þróunar og laða þá krafta, sem búa í fólkinu úti um landsbyggðina, til þess að hagnýta sér þessar aðstæður til að örva uppbyggingu viðkomandi landshluta. Markmið almennra byggðaáætlana er að viðhalda og þróa byggðina að því marki, sem raunhæft þykir. Er þetta gert m. a. með því að örva og styðja uppbyggingu atvinnulífs og jafnframt tekjumyndun. Það mætti skipta þessu starfi í tvo þætti: Annars vegar eru áætlanir, sem fólgnar eru í því að varðveita lágmarksjafnvægi í byggðinni, og hins vegar þróunaráætlanir, sem stefna að því hámarki, sem grundvallarskilyrði setja um auðlindir og önnur hagræn efni, svo og félagslega aðstöðu miðað við aðrar byggðir.

Í allri áætlanagerð er gagnasöfnunin fyrsta verkefnið, sem ætlað er að leiða menn í sannleika um skilyrði til viðhalds byggðar og möguleika á þróun hennar. Rótin er e. t. v. vandamál hlutaðeigandi byggðar og vandleg athugun á skilyrðum til frekari þróunar. Atvinnuástandið og tækifærin til arðbærs atvinnurekstrar eru þungamiðja þeirra viðfangsefna, sem athuga þarf til undirbúnings áætlanagerðar, þannig að það mætti e. t. v. segja, að þýðingarmesti þátturinn í áætlanagerð, eins og í öllum undirbúningi mála, væri gagnasöfnun, En hún er tímafrek og vandasöm.

Samræmd áætlanagerð spannar yfir mörg svið. Þau helztu eru áætlanastarf, fjárlagagerð og almenn lagasetning. Verkefni, þar sem stefnumörkunin er hjá ríkisvaldinu að mestu leyti, felast mjög í fjárlagagerðinni, í málaflokkum eins og samgöngumálum. Það hefur verið unnið í nokkurn tíma að samgönguáætlunum á vissum sviðum. Á sínum tíma var unnið að samgönguáætlun Vestfjarða, sem að vísu sá aldrei dagsins ljós á þrykki, ef svo mætti að orði komast, vegáætlun fyrir Austurland og samgönguáætlun fyrir Norðurland, sem nú eru í framkvæmd. Síðan eru málaflokkar eins og fræðslumál, heilbrigðismál, orkumál, jafnvel skattamál. Sums staðar er skattamálum eða skattaákvæðum beitt til þess að örva til uppbyggingar úti um landsbyggðina. Í sumum löndum tíðkast það að ívilna fyrirtækjum úti um landsbyggðina í skattamálum til þess að auðvelda uppbyggingu. Það hefur ekki verið gert hér, en það er leið, sem getur komið til greina. Þá eru verkefni, þar sem sveitarfélögin eru ákvarðandi eða ráða mestu um, eins og málefni aldraðs fólks, safnamál, íþróttamál, æskulýðsmál og félagsheimili, gatnagerð, íbúðamál, hitaveitur, vatnsveitur, skipulagsmál, og fleira mætti nefna. Svo er í þriðja lagi atvinnulífið. Þar má fyrst nefna rannsókn á vinnumarkaðinum, skiptingu atvinnugreina og athugun á ýmsum grundvallaratriðum, sem varða vinnumarkaðinn, þróunarmöguleika einstakra atvinnugreina, spá um atvinnuþróun, sem verður að byggjast á margvíslegri gagnasöfnun o. fl. Í þessu efni mætti t. d. benda á atriði í sambandi við uppbyggingu hraðfrystiiðnaðarins, þ. e. a. s. svokallaðar aflaspár, sem eru erfiðar, því að þar róa menn ekki á neitt víst, eins og kunnugt er, en það er dæmi fyrir forsendur um uppbyggingu þessarar atvinnugreinar.

Ef litið er á verkefni, þar sem stefnumörkun er hjá ríkisvaldinu, kemur margt til greina. Landsbyggðina má í grundvallaratriðum e. t. v. styrkja og efla með tvennu móti: Annars vegar með ráðstöfunum hreinlega til eflingar landsbyggðinni. Þar kemur margt til. Ég nefni sem dæmi margháttaða fjárfestingu ríkisins úti á landsbyggðinni, styrki til atvinnufyrirtækja. Mörg af okkar nágrannaríkjum hafa tekið upp það fyrirkomulag að styrkja sérstaklega atvinnugreinar úti á landsbyggðinni. Sums staðar er það t. d. svo, að ríkið hefur heimild til að styrkja byggingarframkvæmdir, sem eru notaðar í atvinnurekstri, allt að 35% byggingarkostnaðar. Þá má nefna framlög til opinberrar þjónustu, skattfríðindi landsbyggðinni til handa, svo og lánastarfsemi, eins og byggðasjóðurinn rekur. Hins vegar er svo sú stefna að hefta vöxt höfuðborgarsvæðisins með ýmsum ráðstöfunum. Hin fyrrnefnda stefna stefnir að því að draga starfsemi til landsbyggðarinnar, en hin síðarnefnda að því að ýta henni frá höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina. Ég álít, að fyrri aðferðin sé bæði jákvæðari og heppilegri í alla staði. Hér koma þó einnig til aðgerðir eins og staðsetning opinberra stofnana eða einstakra greina þeirra úti um landið. Einstaka þætti í starfi opinberra stofnana verður í vaxandi mæli að flytja út á landsbyggðina. Í þessum efnum starfar nú sérstök stjórnskipuð n. Þetta er vandasamt og þýðingarmikið mál, og n. skilar eflaust till. á sínum tíma.

Ég minntist áðan á aðgerðir til að hafa áhrif á staðarval fyrirtækja og tók þá sem dæmi skattfríðindi til fyrirtækja, sem staðsett eru á ákveðnum svæðum, og gat þess, að ýmis lönd beita þessari aðferð, eins og t. d. Noregur, Ítalía, sérstaklega þó Suður-Ítalía og Frakkland og e. t. v. fleiri. Sums staðar er beitt tollfríðindum til innflutnings á vélum fyrir landsbyggðina. Það er nú erfiðara, eftir að efnahagsbandalög og fríverzlunarbandalög fóru að spanna yfir heimsbyggðina, ef svo mætti að orði komast.

Þá er starfsemi eins og byggðasjóðs og efling hans. Á árinu 1972 lánaði byggðasjóður 500 millj. kr. til landsbyggðarinnar. Það hefur verið minnzt á það hér í þessum umr., að sumt af því lánsfé hafi verið lánað annað en út á landsbyggðina, það hafi verið lánað á þéttbýlissvæðin hér við Faxaflóa. Það er alveg rétt, að örlítill hluti af þessu var lánaður á þetta svæði og þá til kaupa á togurum. En gert er ráð fyrir því og hefur alltaf verið, að sérstakt fjármagn verði útvegað byggðasjóði vegna þessarar lánastarfsemi, því að í raun og veru er byggðasjóðurinn ekki það, sem kalla mætti almennur lánasjóður samkv. lögum, heldur sérstakur lánasjóður, sem á að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og þá koma náttúrlega til greina önnur sjónarmið en þau, sem ríkjandi eru hjá almennum lánasjóðum, sem lána með tilteknum kjörum alveg án tillits til þess, hvert lánin eru veitt. Það mætti segja, að þessi lánastarfsemi, 500 millj. kr., á einu ári, sé engin ofrausn, en þó verð ég að leggja áherzlu á það, að þetta er miklum mun meira en gert hefur verið áður í þessum efnum. Með löggjöfinni um Framkvæmdastofnun ríkisins var það lögfest, að byggðasjóður hefur tvo megintekjustofna. Annar er árlegt framlag af fjárl., 100 millj. í 10 ár, eða samtals 1 milljarður, og í öðru lagi sérstakt skattgjald af álbræðslunni í Straumsvík, sem á þessu ári mun sennilega nema, að því er áætlað er, 53 millj. kr. Auk þess hefur byggðasjóður heimild til að taka að láni 300 millj. á ári hverju í 5 ár. Ef þessar heimildir eru notaðar og unnt er að afla lánsfjár til byggðasjóðs, geta umsvif hans orðið allveruleg, ef vel er á haldið. Það er ekki að dylja, að það er vandasamt í verðbólguþjóðfélagi, eins og hægt er að kalla Ísland undanfarin 30 ár a. m. k., vaxandi vandamál að afla lánsfjár með góðum kjörum. Það er víst úr tízku að skamma verðbólguna, menn eru að gefast upp á því. Ég held, að það sé aldrei of mikið af því gert að skamma verðbólguna og aðgerðir, sem hreinlega valda verðbólgu, því að hún hefur í för með sér svo margvíslegar skaðsamlegar verkanir. Ein allra hættulegasta afleiðingin af langvarandi verðbólgu er einmitt sú, að þjóðin gengur á sitt eigið kapítal, sem eðlilegt er. Menn eyða sínu lausafé, menn vilja ekki leggja það um of inn í banka og lánastofnanir, vegna þess að verðgildi þess minnkar sífellt. Þetta hefur í för með sér, að það verður miklu minna fjármagn til ráðstöfunar hjá lánastofnunum og það verðum miklu erfiðara að afla fjár t. d. í fjárfestingarlánasjóðakerfi landsmanna. Þetta er e. t. v. einn allra hættulegasti þátturinn í langvarandi verðbólguþróun, sem getur endað með því, að þjóðina skorti algerlega fjármagn til að byggja upp atvinnulífið.

Þó að byggðasjóðurinn geti haft talsverð umsvif, ef þær heimildir til lántöku eru notaðar, sem honum eru ætlaðar í lögum, er að mínum dómi fyllsta ástæða til að efla hann með hærri framlögum og það mun hærri framlögum á fjárl. en nú er gert.

Þá mætti minnast til viðbótar á opinbera þjónustu, sem verður í raun og veru að vera sambærileg úti á landsbyggðinni við það, sem hún er í þéttbýlinu, til þess að menn vilji eiga þar heima. Hvað snertir heilbrigðismál og ýmislegt fleira, er alkunna, að þetta er eitt mesta vandamálið, sem hrjáir dreifbýlið. Ég vil minna hér á mál eins og vöruflutninga út á landsbyggðina. Ég veit, að t. d. austur á landi, þar sem ég er kunnugastur, eru vörur miklu dýrari en þær eru annars staðar á landinu eða a. m. k. hér í Reykjavík, vegna þess að þær eru yfirleitt fluttar inn í gegnum Reykjavík og síðan út á landið. Og þær eru náttúrlega dýrastar þar, sem flutningaleiðirnar eru lengstar. Þetta er málefni, sem oft er rætt um þar eystra, og mönnum finnst ranglæti að þurfa að búa við verðlag, sem er hærra en hér í Reykjavík. Þess vegna er þetta mál um jöfnunarsjóð vöruflutninga málefni, sem sannarlega á erindi inn í þingsali, því að við getum bókað það, að ef slíkt ástand viðgengst mjög lengi, þá hlýtur það að enda á einn veg. Það hlýtur eð enda með því, að flestir flytjast þangað sem vörurnar eru ódýrastar. Þannig er þessi þáttur í landsbyggðamálunum alls ekki þýðingarlítill og þeim mun erfiðari sem fjær dregur Reykjavík. Það er mikið mein, að innflutningsverzlunin skuli mestöll streyma í gegnum einn stað. Varðandi olíu og benzín hefur þetta verið lagfært, þannig að það er sérstakt verðjöfnunargjald á olíu og benzíni, sama verð um allt land. Væri sannarlega ástæða til að taka þetta mál til rækilegrar meðferðar.

Þá er einn þáttur í málefnum landsbyggðarinnar, sem verður alvarlegri með hverju árinu, og það eru húsnæðismálin. Það má segja, að húsnæðisástandið í kauptúnum og kaupstöðum kringum landið standi vexti þessara byggðarlaga mjög fyrir þrifum og það í vaxandi mæli. Ég veit, að t. d. á Austurlandi og víðar er ástandið þannig, að ef húsnæði væri til staðar, mundi vera um að ræða talsverðan innflutning fólks. Þess vegna er efling húsnæðismála á landsbyggðinni stórmál. Ég vil geta þess, að sjálfsagt er í sambandi við Vestmannaeyjamálið, þar sem sótt er um til Viðlagasjóðs að staðsetja tilbúin hús úti á landsbyggðinni, að gengið verði til móts við það fólk. Það er liður í því að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, þótt auðvitað vonist allir til þess í lengstu lög, að Vestmanneyingar geti flutt til Vestmannaeyja á nýjan leik. En um það veit enginn maður. Skortur á hagkvæmum, ódýrum íbúðum í hinum ýmsu sveitarfélögum er geysilega mikill og áhugi sveitarstjórna mjög mikill á þessu máli og vaxandi, en geta minni sveitarfélaga er náttúrlega mjög takmörkuð í þessum efnum. Það ber nauðsyn til þess að setja í lög, að ríkissjóður eða ríkisstj, geti látið byggja hagkvæmar, ódýrar íbúðir í samvinnu við sveitarfélög utan Reykjavíkur. Þetta mætti kalla Breiðholtsframkvæmdir úti um landsbyggðina. Þegar lokið er við Breiðholtsframkvæmdirnar, sem nú er verið að framkvæma hér í Reykjavík og eru þess eðlis, að upp undir 30% af því fé, sem hið almenna húsnæðislánakerfi hefur með höndum, rennur til þeirrar starfsemi, þá er komið að landsbyggðinni að hefja byggingarstarfsemi á svipuðum grundvelli úti um landið. Ég held, að árið 1972 hafi þetta verið um 900 millj., og sennilega hafa upp undir 30% runnið beint til bygginganna í Breiðholti í Reykjavík.

Það er á allra vitorði, að á undanförnum árum og áratugum hefur það verið svo, að fólk hefur sótzt eftir því að festa sparifé sitt í fasteignum í Reykjavík. Það er ekki nema eðlilegt. Auðvitað reynir fólk að tryggja sparifé sitt, og ein helzta og bezta tryggingin í þeim efnum hefur einmitt verið sú að festa það í fasteignum í Reykjavík. Þannig er það meira en hæpið, til viðbótar við þessa þróun, að Reykjavík sé gert miklu hærra undir höfði en landsbyggðinni með hinum stórkostlegu byggingarframkvæmdum í Breiðholti. Ég vonast til þess, að þegar þeim framkvæmdum er lokið, verði komið að landsbyggðinni og öllum þyki sjálfsagt að halda áfram þeirri starfsemi úti í strjálbýlinu.

Eins og ég gat um áðan, mun ríkisstj. gefa Alþ. skýrslu um starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins á þessu þingi, þ. á m. um störf að áætlanagerð. Ég ætla þó aðeins að koma inn á þessi mál, af því. að ég er þeim kunnugur vegna starfs míns og að gefnu tilefni.

Fyrsta verkefni, sem áætlanadeild Framkvæmdastofnunarinnar vann við, var togaramálið. Þegar Framkvæmdastofnunin tók til starfa, var það mál í fullum gangi, eins og kunnugt er. Verið var að byggja upp togaraflotann. Fyrsta málefnið, sem stofnunin fjallaði um, var að staðsetja togarana úti um landsbyggðina til þess að auka jafnvægi í byggð landsins. Niðurstaðan varð sú, að 27 togarar dreifðust um landsbyggðina. Sumum hafði þegar verið ráðstafað, eins og t. d. togurum til Vestfjarða, eins og kunnugt er, en öðrum var ráðstafað síðar og sumum með sérstökum stuðningi úr byggðasjóði, þegar um var að ræða byggðarlög, sem stóðu höllum fæti.

Annað forgangsverkefnið, sem unnið hefur verið að, er hin svokallaða hraðfrystihúsaáætlun, þ. e. a. s. uppbygging hraðfrystiiðnaðarins í landinu. Á árunum 1971–1973, ef svo fer sem ætlað er, þá er ástæða til að álíta, að fest verði í uppbyggingu í hraðfrystiiðnaðinum líklega um 1800–1900 millj. kr. Og þar er um að ræða bæði lánsfé og eigið fé þeirra fyrirtækja, sem hlut eiga að máli. Hér er um stórkostlega uppbyggingu að ræða á þessu sviði, uppbyggingu, sem hefur verið að mínum dómi vanrækt allt of lengi. Það er hægt að nefna sorgleg dæmi í sambandi við vinnslu sjávarafla. Ég get nefnt eitt dæmi, sem er athyglisvert. Á síðasta ári fékk fyrirtæki aðstoð til þess að kaupa flökunarvélasamstæðu. Það var hraðfrystihús, sem framleiddi verðmæti upp á 100 millj. kr. á árinu. Þegar þessi flökunarvélasamstæða hafði verið notuð, kom í ljós, að nýtingin á hráefninu var um 2–3% meiri en áður hafði verið, og miðað við framleiðslu þessa fyrirtækis þýddi þetta 2–3 millj. kr. til viðbótar í auknum verðmætum. Þetta sama fyrirtæki fékk einnig fyrirgreiðslu til þess að byggja kælda móttöku fyrir fiskinn og einnig til þess að kaupa kassa, sem notaðir eru í skipunum, fiskurinn er settur í kassa, og hann er síðan fluttur í þeim úr skipinu í þessa kæligeymslu, og síðan fer hann beint áfram í vélvinnslu. Það hefur komið í ljós, að nýtingin hefur vaxið um 3–4% við þessa aðgerð. Við þessar tvær aðgerðir hefur framleiðsla þessa fyrirtækis á ársgrundvelli vaxið um líklega 6–7 millj. kr. Þetta er aðeins lítið dæmi, sem gefur þó glögga hugmynd um það, hvað er í húfi, þegar um er að ræða að bæta aðstöðuna í frystiiðnaðinum til þess að vinna hráefnið. Ég held, að við Íslendingar höfum á undanförnum árum, og er þó ekkert að ásaka einn eða annan í því efni, vanrækt stórkostlega þá miklu möguleika, sem við höfum átt og eigum enn ónotaða í sambandi við það að vinna úr okkar hráefni, svo að mannsæmandi verði talið. Auðvitað hefur þetta batnað stórkostlega víða um landið á undanförnum árum. En það eru stór verkefni enn þá óunnin í þessum efnum og mikil og stór tækifæri, sem glatast á ári hverju, vegna þess að við höfum ekki búið nægilega vel að þessari atvinnugrein.

Til viðbótar hefur verið samþykkt í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar að fela áætlanadeildinni að vinna sérstaklega að þremur verkefnum í áætlanagerð: landshlutaáætlun fyrir Norðurl. v. og Strandabyggð, landshlutaáætlun, áætlun sérstaklega fyrir Norður-Þingeyjarsýslu og atvinnumálaáætlun fyrir Austurland. Eins og ég sagði frá áðan, hefur Framkvæmdastofnunin tengzt landshlutasamtökunum, eins og heimild er fyrir í lögum, þannig að þar er um að ræða mikið og vaxandi samstarf. Það var minnzt hér á áætlanagerð fyrir Suðurlandskjördæmi í umr. um annað mál. Í sambandi við það mál vildi ég geta þess, að Suðurland hefur fengið styrk til að vinna að þessu starfi. Það hefur haft náið samstarf við Framkvæmdastofnunina, og þó að ekki hafi verið talið fært að hefja áætlanagerð á því svæði vegna þeirra verkefna, sem fyrir hendi eru, þá er þar ágætt samstarf á milli, og ég vona, að það fari vaxandi.

Það er auðvitað álitamál með stofnun eins og áætlanadeild Framkvæmdastofnunarinnar, hvað á að þenja hana mikið út, hvað á að vinna þessi störf hratt. Ég er ekki viss um, að það sé rétt að þenja svona stofnun of mikið út, safna þar saman miklu liði og stækka hana, því að þessi störf eru þannig, að það þarf mikinn mannafla til þess að sinna þeim. Ég held við verðum að reyna að fara bil beggja í þessum efnum og sníða slíkri stofnun sæmilega eðlilegan stakk og ráðast að þessum brýnu verkefnum í þeirri röð, sem menn koma sér saman um, að sé réttlátust.

Það er ástæða til að geta þess, að í sambandi við náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum, þessar hörmulegu náttúruhamfarir, þá gefa þær í raun og veru tilefni til nýrrar sóknar að mínu mati um uppbyggingu landsbyggðarinnar. Í því felst aukið öryggi fyrir þjóðina, þótt ekki sé sérstaklega minnzt á atvinnu- og efnahagsmál í því sambandi. Hygg ég, að margir hafi hugsað þannig í sambandi við þá hörmulegu þróun, sem þar er að gerast, að það sé mjög þýðingarmikið fyrir okkur að huga í vaxandi mæli að uppbyggingu landsbyggðarinnar hreinlega til öryggis fyrir þjóðina. Ef að okkur steðja t. d. náttúruhamfarir, þá er auðvitað stórkostlegt öryggi fólgið í því, að landsbyggðin sé sem mest byggð, og kemur margt fleira til í því sambandi.