30.10.1972
Neðri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

27. mál, Tæknistofnun sjávarútvegsins

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, að Alþingi þyrfti að skoða það vel, þegar lagt er til, að stofnuð verði ný ríkisstofnun, ef það hefur í för með sér útþenslu ríkisbáknsins. Hins vegar tel ég, að hér sé á ferðinni mál. sem mjög brýn nauðsyn sé á að koma í framkvæmd, og vil ég vissulega veita því stuðning minn hér í þessu hv. deild.

Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, sem hæstv. sjútvrh. sagði, að hann teldi það ekkert höfuðskilyrði, að þessi stofnun væri í Reykjavík, og tilgreindi ýmsa útgerðarstaði, sem hún eins gæti verið á, og þ. á m. Vestmannaeyjar. Ég er honum fyllilega sammála og er það í samræmi við þá skoðun, sem ég hef áður látið hér í ljós, að þær stofnanir, sem með eðlilegum hætti geti verið utan Reykjavíkur, beri að staðsetja úti í dreifbýlinu, því að slíkt er ævinlega til að lyfta upp þeim byggðarlögum, sem slíkar stofnanir eru í.

Í þessu sambandi vil ég sérstaklega geta þess og láta það koma hér fram, að hjá bæjaryfirvöldum í Vestmannaeyjum hefur í 2–3 ár verið til umr. hugmynd, sem þar kom fram, að þar yrði stofnaður, eins og við köllum heima í héraði, skóli sjávarútvegsins. Þetta byggist á því, að við erum komnir þar með skóla og fræðslustarfsemi í flestum greinum í sambandi við sjávarútveginn og útveg almennt, en þetta er hlutað niður í 3–4 stofnanir, og teljum við miklu hagkvæmara rekstrarlega séð og að það mundi gera fyrirtækið sterkara ef þetta væri allt staðsett í einni stofnun. Ég vil benda á, að nú er í Vestmannaeyjum starfandi og búinn að vera þar starfandi í 8–9 ár stýrimannaskóli, þar sem aðsókn fer árlega vaxandi, og nýtur orðið mikils trausts út á við, og tel ég, að mjög vaxandi nemendasókn úr dreifbýlinu til þessa skóla í Vestmannaeyjum sanni þetta. Við höfum einnig verið með þar í nokkur ár vélstjóraskóla, 1. og 2. stigs, og hefur aðsókn að honum verið mjög góð. Þá hefur undanfarin ár einnig verið rekin þar matsveinaskóli í sambandi við matsveinaskólann hér í höfuðstaðnum, og hefur rekstur þess skóla reynzt mjög hagkvæmur fyrir útgerðina, bæði í Eyjum og annars staðar, því að þennan skóla hafa einnig sótt aðilar úr dreifbýlinu. Við treystum því fastlega, að framkvæmd verði sú samþykkt Alþ., sem er að finna í lögum um fiskvinnsluskóla, að næsti skóli, sem efnt verður til, verði staðsettur í Vestmannaeyjum, því að svo mælir 6. gr. þessara laga beinlínis fyrir.

Ég tel, að það mundi fara mjög vel á því, að tæknistofnun, eins og frv. þetta gerir ráð fyrir, væri staðsett við hliðina á slíkri stofnun, sem ég hef hér greint frá, og gæti það orðið til styrktar bæði þeirri stofnun, sem þar um ræðir, og eins hinni fyrirhuguðu tæknistofnun. Ég ætla ekki að fara að koma fram með nein sérstök rök fyrir því, að hún skuli staðsett í Vestmannaeyjum frekar en annars staðar. Ég vil aðeins benda á, að alla þá aðstöðu, sem hv. 8. landsk. þm. taldi sem rök fyrir staðsetningu á Akranesi, er einnig að finna í Vestmannaeyjum, og það í enn ríkara mæli, — og sennilega í mörgum fleiri sjávarplássum, — þannig að það ætti ekki að geta orðið til hindrunar, að stofnunin yrði staðsett þar. Þá vil ég einnig geta þess, að í Vestmannaeyjum hefur þegar verið stofnuð og er tekin til starfa rannsóknarstofnun, sem starfar í nánu samráði við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hér í Reykjavík, það hefur verið haft algert samráð við þá stofnun um tækjakaup og uppbyggingu þessarar rannsóknarstofnunar, og sá aðili, sem veitir henni forstöðu, er sendur beint af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hér í Reykjavík, og ég hygg, að hann sé einnig launaður af þeirri stofnun, a.m.k. að nokkru leyti. En fiskiðnaðurinn í Vestmannaeyjum hefur sjálfur byggt upp þessa rannsóknarstofnun og lagt alls af mörkum, að mér er tjáð, um 6 millj. kr. til að koma henni á fót. Ég tel, að það beri einnig að líta til þessa, þegar ákveðið verður um stofnun þessarar tæknistofnunar.

Ég hef ekki flutt brtt. við frv., því að ég reiknaði með, að því yrði vísað til þeirrar n., sjútvn., sem ég á sæti í, og hef ég þar aðstöðu til að koma að rökum um, að tæknistofnunin verði í fyrsta lagi staðsett utan Reykjavíkur, og ég mun að sjálfsögðu, ef ekki koma nein sérstök rök á móti því, halda því fram, að hún skuli ekki síður, heldur jafnvel enn frekar staðsett í Vestmannaeyjum en í öðrum útgerðarplássum hér við Faxaflóa eða á Akranesi.