20.03.1973
Sameinað þing: 61. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2630 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

157. mál, milliþinganefnd í byggðamálum

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. Ég kom hér eiginlega gagngert í ræðustól til að þakka hv. þm. Oddi Ólafssyni fyrir þá athyglisverðu og góðu ræðu, sem hann flutti hér um þessi mál. Ég er honum alveg algerlega sammála um, að það er allt of lítið gert að því að hafa uppi áróður fyrir því, hversu gott er að búa á landsbyggðinni. Við vitum það, sem höfum búið þar og höfum verið hér í Reykjavík, að það eru margir kostir við að búa á landsbyggðinni, sem við getum haft meira á lofti er við höfum oft gert. Hitt er svo annað mál, að það eru auðvitað ýmsir vankantar þar á, og hann kom hér inn á, eitt atriði, sem ég vildi aðeins leiðrétta eða koma að. Hann mun hafa átt við, að ég talaði um það í öðru máli, að það væri svo, að menn þyrftu að bíða eftir spítalaplássi í hálfan mánuð sums staðar á landsbyggðinni. Þá átti ég við, að fólk þyrfti að gera það, hvernig sem á stæði, þótt um væri að ræða bráða sjúkdóma eða slys, þannig að það er auðvitað ástand, sem ég held, að við hv. þm. og allir geti orðið sammála um, að sé neikvætt fyrir fólk að búa við og ástæða sé til að halda því á lofti.

En ég vil endurtaka það, að sú ræða, sem hv. þm. flutti hér, undirstrikar einmitt einn þátt í því, sem við höfum kannske vanrækt, sem eigum að kallast forustumenn landsbyggðarinnar, þ. e. a. s. halda því nægilega mikið á lofti, hve gott er að búa þar. Þetta hefur verið rætt víða úti um land, vegna þess að satt bezt að segja keyrir oft svartsýni og bölsýni úr hófi hjá mönnum, þegar þeir eru að tala um sín mál. Það er eins og gengur, menn eru mannlegir og horfa stundum einhliða á hlutina. En ég vil sérstaklega undirstrika það, sem hv. þm. sagði hér í þessu efni.

Fyrst ég er kominn hér, vil ég einnig þakka hv. þm. Tómasi Árnasyni fyrir ræðu hans hér. Ég gat strikað undir flest af því, sem hann sagði hér um landsbyggðina, sérstaklega varðandi húsnæðismálin og þá ekki sízt um svonefnda byggðaáætlanagerð. Ég hef nokkra reynslu af slíku starfi. En það kom fram, þegar hæstv. núv. ríkisstj. var mynduð, mjög veruleg gagnrýni á það starf, sem áður hafði verið unnið í þessum efnum. En mér virðist hann hafa ákaflega svipaðar skoðanir á þeim hlutum og við, sem unnum að því á þeim árum. Og ég vænti þess, að á meðan hann vinnur í framkvæmdastofnuninni, verði unnið að þessu jafnskynsamlega og hann talaði um.