30.10.1972
Neðri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

27. mál, Tæknistofnun sjávarútvegsins

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég kem ekki hér upp í stólinn til þess að mæla með því, að þessi stofnun, þegar hún kemst á laggirnar, skuli endilega rísa í Keflavík, eins og sumir kunna að búast við, heldur er ástæðan önnur. Mig langar til þess þegar við 1. umr. að vekja athygli og þá sérstaklega hæstv. sjútvrh., sem mælti hér fyrir þessu frv., á hugmynd, sem ég held að gæti átt erindi inn í frv. Þetta frv. kemur, eins og hér hefur verið lapt til, væntanlega til hv. sjútvn., þar sem ég á sæti, og get ég að vísu reifað þá hugmynd þar, en ég vildi gjarnan, áður en málið er flutt héðan eftir 1. umr. til n., fá að heyra allt hæstv. ráðh. á einu atriði, sem ég skal nú víkja að.

Ég dreg ekki í efa, að stofnun sú, sem frv. gerir ráð fyrir, getur orðið að miklu gagni í okkar þjóðarbúskap, ef vel tekst til um uppbyggingu hennar og til hennar ráðast hæfir menn. Í 6. gr. frv. er getið þeirra verkefna, sem stofnun þessi á að vinna að. Á þessari stundu er ég ekki reiðubúinn að lýsa því yfir, að mér finnist þessum málum endilega bezt komið með því að flytja til þessarar nýju stofnunar öll þau verkefni, sem í 6. gr. er tiltekið, að hverfa skuli til hennar, — hvort það sé réttasta og bezta leiðin. Ég dreg t.d. í efa, að hagkvæmara sé, að sumar tegundir veiðitilrauna verði færðar frá Hafrannsóknastofnuninni til þessarar væntanlegu tæknistofnunar, en ég mun að sjálfsögðu reyna að setja mig meira inn í það, þegar málið kemur til n. En það atriði, sem mig langar sérstaklega að víkja að og varpa fram til hæstv. ráðh., er spurningin um það, hvort ekki þætti gjörlegt og hagkvæmt að auka vissum verkefnum við verksvið þessarar stofnunar. Þá á ég fyrst og fremst við það, hvort ekki væri eðlilegt að fela henni það verkefni að athuga og gera till. og upplýsa menn um, hvaða skipategundir er hagkvæmast hverju sinni að byggja hér og kaupa erlendis frá. Því nefni ég þetta, að ég var fyrir nokkrum dögum að lesa í norska blaðinu „Fiskaren“ niðurstöður á athugunum, sem fara fram árlega á vegum norska sjávarútvegsráðuneytisins um afkomu hinna einstöku skipategunda í Noregi. Þar eru útreikningar gerðir á vegum norska sjávarútvegsráðuneytisins um afkomu hinna einstöku skipategunda. Og þess er mjög vel gætt af hálfu stjórnvalda að láta niðurstöður þeirra athugana ekki liggja niðri í einhverri skrifborðsskúffu, heldur er mikið gert að því að gefa þessar niðurstöður út, svo að þær geti komið fyrir augu alls almennings og þá fyrst og fremst þeirra, sem starfa að sjávarútvegi. Þessi niðurstaða, sem ég var að vitna til. að ég hefði lesið fyrir nokkrum dögum, tók til ársins 1970 og fylgdi í meginatriðum nákvæmlega þeirri niðurstöðu, sem sama stofnun hafði fengið við athugun á rekstrarafkomu norskra fiskiskipa árið 1969. En sérstaka athygli mína vöktu niðurstöður útreikninga, sem gerðir höfðu verið á afkomu hinna einstöku tegunda togara, sem gerðir eru út frá Noregi, og ætla ég að leyfa mér að víkja að þeim nokkrum orðum til athugunar fyrir hv. þdm. og ekki sízt fyrir hæstv. ráðh. sem ber þetta frv. fram, þótt ég þykist raunar vita, að hann þekki þessar niðurstöður.

Athugunin fyrir árið 1970 tók til 19 togara. Þar af voru 7 síðutogarar, 4 skuttogarar og 8 verksmiðjutogarar. Meðalstærð þessara togara var um 660 brúttósmálestir og meðaláhöfn þeirra var um 24 menn. Árið 1970 var meðalaflamagn síðutogaranna, og meðalaflaverðmæti þeirra var verðmæti við löndun, áður en var farið að vinna aflann í landi, um tæpar 15 millj. ísl. kr. Meðalaflamagn skuttogaranna fjögurra var á sama tíma 1976 smálestir, eða nærri því helmingi meira en síðutogaranna, og meðalaflaverðmæti þeirra var um 34.7 millj. kr. Meðalaflaverðmæti verksmiðjutogaranna átta var 3880 tonn á skip, sem gerði af flökum, — fiskurinn var að sjálfsögðu unninn um borð í togurunum, — 1613 tonn, en verðmæti þeirra við löndun var 80.6 millj. kr. Meðaláhafnahlutur hvers skipverja á síðutogurum þetta árið var 370 500 kr., á skuttogurunum 579 800 kr. og á verksmiðjutogurunum 639 600 kr. Afkoma útgerðarinnar varð sú, að útgerð hvers síðutogara tapaði á árinu að meðaltali um 1.1 millj., rekstrarafgangur af útgerð hvers skuttogara var rúmar 5 millj. kr. að meðaltali og rekstrarafgangur af útgerð hvers verksmiðjutogara var að meðaltali 20 millj. og 900 þús. eða tæp 21 millj. kr. Þessar tölur vöktu talsvert mikla athygli hjá mér, og koma þær í meginatriðum heim og saman við niðurstöður, sem ég las um að fengizt hefðu fyrir árið 1969, þ.e.a.s. að afkoma verksmiðjutogaranna var langsamlega bezt, ekki einungis fyrir áhafnir þeirra, heldur og fyrir útgerðina og þá væntanlega fyrir þjóðarbúið. Nú hefur uppbygging okkar íslenzka skipastóls verið æði brokkgeng á undanförnum árum, ef svo mætti segja. Það hafa komið fyrir mörg ár í röð, þar sem ekki hefur verið byggt eitt einasta skip af vissum tegundum, en hins vegar smíðaðir tugir skipa af öðrum tegundum. Og eftir því sem ég bezt fæ séð, hafa engar sérstakar rannsóknir verið framkvæmdar, áður en ráðizt hefur verið í byggingu skipa af þessum vissu flokkum. Ég minni á, að fyrir nokkrum árum voru ekki smíðuð hér nema frekar stór skip, sem átti að gera út á síldveiðar. Þá var síldveiði mikil við landið, og allir hugðu að því, en aðrir hlutar fiskiskipaflota okkar voru ekki endurnýjaðir nema að mjög óverulegu leyti. T.d. var mjög lítið um endurnýjun íslenzka togaraflotans á öllum síðasta áratugnum, vafalaust til mikils tjóns fyrir okkur. En nú stöndum við í því að byggja upp togaraflota í svo miklum mæli og með svo miklum hraða, að ég dreg mjög í efa, að skynsamlega sé þar að farið. Þá á ég fyrst og fremst við það, að ég efast mjög um, að fiskistofnar okkar, — miðað við það ástand, sem er í dag, og flestir eru sammála um að sé heldur lélegt, — séu þess megnugir að taka við því aukna veiðiálagi af okkar hálfu, sem hin nýju skip hljóta að skapa.

Ég get ekki annað, með þessa norsku reynslu í huga, en leyft mér að segja, að við Íslendingar hljótum að vera nokkrum hundruðum milljóna fátækari, og sérstaklega þeir, sem í sjávarútvegi starfa, fyrir það, að við höfum oft á tíðum byggt fiskiskipastól okkar upp meira af kappi en forsjá á undauförnum árum. Með því að upplýsa þetta hér er ég ekki að gera till. um það, að rokið verði til að byggja verksmiðjutogara fyrir Íslendinga, af því að ég óttast, eins og ég sagði áðan, að ástand fiskistofnanna sé slíkt, að ekki sé miklu bætandi við íslenzkan fiskiflota næstu árin. Ég get þó ekki varizt þeirri hugsun, að fyrir nokkrum árum var m.a. leitað aðstoðar Alþingis af nokkrum áhugamönnum, sem mikinn áhuga höfðu á að kaupa eða byggja einn verksmiðjutogara og gera hann út. Og ég verð að segja það, eftir því sem ég bezt veit, að menn sýndu, bæði hér á hv. Alþ. og víða í stofnunum þessa lands, sem málið var borið undir, ákaflega lítinn áhuga á að gera þessum aðilum þetta mögulegt. Ég hygg því, að þegar fram í sækir, hljótum við að gefa því meiri gaum en verið hefur til þessa, hvort rétt sé, að okkar fiskiskipafloti skuli vera þannig saman settur, að í honum sé ekki eitt einasta skip hliðstætt þeim, sem beztan árangur gefa hjá frændum okkar Norðmönnum. Ég fæ ekki séð, að aðstæður þar og hér séu svo ósambærilegar, að reynsla okkar Íslendinga af rekstri og útgerð verksmiðjutogara kæmi mjög öðruvísi út en hún hefur gert hjá Norðmönnum. En ég hef getið um, hver þeirra reynsla var.