21.03.1973
Efri deild: 72. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2637 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

204. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins örfáar athugasemdir vegna ræðu hv. 5. þm. Vestf.

Ég vil fyrst upplýsa, að enginn af okkar ágætu vinum á Flateyri hefur séð ástæðu til þess að bera mér boðskap hv. þm. þar, líklega ekki þótt hann nægilega merkilegur.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að húsnæðismálalöggjöfin, með sérstöku tilliti til framkvæmdar hennar fyrir dreifbýlið, er æðiflókin og satt að segja hefur verið flækt þannig á undanförnum árum, dreifbýlinu í óhag, að furðu sætir.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að verkamannabústaðareglugerðin hefur verið bætt nokkuð, en það er hins vegar rangt, að framkvæmd þessa ákvæðis húsnæðismálalöggjafarinnar hafi versnað í tíð núv. ríkisstj. Við hv. þm. stóðum saman að því á síðasta þingi að bæta þetta nokkuð með því að auka hámarksheimild framlags sveitarfélaga, en það er einmitt þar, sem hnífurinn stendur í kúnni, ef ég má orða það svo, að verkamannabústaðaframkvæmdirnar eru við það miðaðar, að ákveðið framlag þurfi að koma frá viðkomandi sveitarfélagi, og er það bundið við hvern íbúa í því sveitarfélagi. Það er því fjöldi íbúa í sveitarfélaginu, sem ákveður, hve framkvæmdin getur orðið mikil. Ég þarf ekki að fara út í það hér mörgum orðum, við þekkjum það allir, að þetta hefur orðið til þess, að smæstu sveitarfélögin hafa ekki getað notið góðs af verkamannabústaðaheimildinni, eins og til var ætlazt, en það er að sjálfsögðu gert ráð fyrir verulegu framlagi sveitarfélagsins, eins og ég hef rakið. Hitt er svo alveg rétt, að í vissum þáttum er verkamannabústaðalöggjöfin hagkvæmari, eins og t. d. með tilliti til vaxta.

Ekki ætla ég að deila um það, hvers vegna hætt var á Sauðárkróki. Ég hafði þetta eftir heimamanni þar, sem fullyrti, að það hefði ekki verið hægt að ná þeim áfanga, sem krafizt var. Ef hann hefur sagt mér rangt frá, þá er vitanlega sjálfsagt að leiðrétta það, en á meðan ég hef ekki fengið aðrar upplýsingar þaðan, tek ég frásögn hans góða og gilda. Ég vil einnig vekja athygli hv. þm. á því, að við höfum ekki tekið þessa gr. algerlega óbreytta úr l. frá 1965, heldur bætt við einni setningu, sem er þannig: „Stærð áfanga skal miðuð við þarfir og getu viðkomandi sveitarfélags.“ Þetta tel ég satt að segja afar mikilvægt með tilliti til þeirra upplýsinga, sem ég hef fengið. Ég tel, að með því að opna þetta þannig meira en var 1965, verði fremur kleift að veita smærri sveitarfélögum úti um land aðgang að þessum hagkvæmu íbúðabyggingum. Við flm. teljum ástæðu til, að þessi heimild verði tekin upp þannig breytt og á það reynt, hvort sveitarfélögunum er ekki þannig gert auðveldara að ráðast í íbúðabyggingar eins og Breiðholtsbyggingarnar hér hafa verið.

Ég sagði áðan í ræðu minni, að við teljum hér nánast um lágmarksleiðréttingu að ræða. Ég er því sammála því, sem kom fram hjá hv. þm., að fjölmargar fleira þarf að gera, enda hef ég lagt til í þáltill. í Sþ., að það verði gert og gerð á þessu ítarleg athugun. Ég fæ því ekki séð, að þessi leiðrétting þurfi nokkuð að skaða. Það eina, sem hún getur gert, er til bóta, sérstaklega með þeirri breytingu, sem ég hef lýst, þeirri setningu, sem ég las áðan.