21.03.1973
Efri deild: 72. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2640 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

204. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þess, að það kom hér fram, að íbúar Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis hefðu notið miklu meiri fyrirgreiðslu frá húsnæðismálastjórn á undanförnum árum en aðrir íbúar landsins. Þetta er alveg rétt. En hv. þm. Austf., Tómas Árnason, kom inn á kjarna þessa máls, og kjarninn er ekki Breiðholtsfyrirgreiðsla, því að Breiðholtsfyrirgreiðslunnar gátu allir landsmenn í kauptúnum eða kaupstöðum notið um árafjölda. Það var annað, sem hann sagði, sem er kjarni þessa máls. Það er straumurinn af peningum til Reykjavíkur utan af landi. Fjöldi aðila utan af landi fékk fyrirgreiðslu hjá húsnæðismálastjórn og byggði hús í Reykjavík og gerir enn í dag. Þetta er í raun og veru meginvandinn, sem við er að stríða, að mínu viti. Ég held, að lausn á þessu máli verði ekki fenginn, fyrr en öryggisleysið í endursölu úti á landi er yfirunnið. Ég efast um, að samþykkt þessarar till., þótt hún bæti að vísu nokkuð um, nægi til þess að fá skrið á húsbyggingar víða úti um land, þar sem þeirra er þörf.

Fyrir nokkrum árum aflaði ég mér upplýsinga um það í félmrn., hvernig á því stæði, að þeir í Reykjavík fengu miklu meiri fyrirgreiðslu í húsnæðismálum en aðrir landsmenn. Ég fékk strax það svar, að þetta stæði öllum til boða, sem vildu byggja, þeir gætu fengið fyrirgreiðslu á Breiðholtsgrundvellinum. En það nægði ekki til. Þá kom mér í hug og ræddi um það við þá, að e. t. v. væri raunhæfari leið að breyta verkamannabústaðakerfinu þannig, að bæjarfélögin gætu byggt til leigu og sölu, ef hentara þætti, fleiri íbúðir en þau hafa heimild til skv. núgildandi lögum. Ég held, að þetta yrði stórtækari bót en sú till., sem hér liggur fyrir. En eins og ég minntist á áðan, held ég, að eina leiðin til þess, að raunveruleg breyting verði, sé að tryggja á einhvern hátt, annað hvort á vegum sveitarfélaga eða ríkisins, endursöluverðmæti þeirra íbúðahúsa, sem byggð eru úti á landsbyggðinni.