21.03.1973
Neðri deild: 65. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2643 í B-deild Alþingistíðinda. (2030)

Umræður utan dagskrár

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hinn 17. okt. var útbýtt hér í deildinni frv. til l. um breyt. á lögum nr. 25 22. apríl 1987, um Landhelgisgæzlu Íslands, og daginn eftir eða 18. okt. var þessu máli vísað til allshn. Efni þessa frv., sem ég skal ekki ræða nú, er, að ríkissjóður leggi landhelgissjóði ákveðið framlag árlega. Ég innti eftir afgreiðslu þessa máls í sambandi við afgreiðslu fjárl. og þá hafði ég skilið menn svo, að það mundi verða tekið eitthvað inn á fjárl. til eflingar landhelgissjóði, sem ekki varð nú, að ég hygg, utan heimildar, til lántöku. Þegar frv, var hér til 1. umr., tók hæstv. forsrh. mjög vel í málið og taldi mikilsvert, að landhelgissjóði, svo miklu og vandasömu hlutverki sem hann hefur að gegna, yrði ákveðið árlegt framlag. Og í umr. við fjárlagaafgreiðsluna rétt fyrir jólin kom þessi afstaða hæstv. forsrh. ítrekað fram og að frv. mundi verða afgreitt á þessu þingi. Með hliðsjón af því og einnig von um, að nokkurt tillit yrði tekið til þess við afgreiðslu fjárl., féll ég frá tillöguflutningi við afgreiðslu sjálfra fjárl, um framlag á þessu ári til landhelgissjóðsins.

Það er ekki ætlunin að fara að ræða frv. núna efnislega. En ég tel með öllu óverjandi að frv., sem lagt er fram 17. okt. og strax við 1. umr. lögð áherzla á, að það verði afgreitt fyrir áramót, fyrir afgreiðslu fjárl., þannig að tekið sé tillit til ákvæða þess við afgreiðslu fjárl., sé ekki komið úr n. 5 mánuðum síðar. Ég tel, að n. geti ekki haft nokkra afsökun fyrir slíkri meðferð málsins. Ég vil láta þess getið, að frv. efnislega mjög líkt þessu var flutt á síðasta Alþ. og hlaut þá ekki náð hjá hv. þingmeiri hl. og dagaði uppi. Þá var einnig flutt af mér og hv. 2. þm. Reykv. þáltill. um byggingu varðskips og áætlanagerð fyrir landhelgisgæzluna og uppbyggingu hennar. M. a. var rökstuðningur fyrir þeirri áætlanagerð, að landhelgissjóður yrði að geta byggt á einhverjum árlegum, vissum tekjum, sem hann getur ekki nema hann hafi eitthvert ákveðið framlag frá ríkissjóði. Slík meðferð á málum, sem snerta landhelgisgæzluna, eins og nú háttar, er að mínum dómi alveg óverjandi, og ég mælist eindregið til þess, að hv. allshn. afgreiði þetta mál tafarlaust, þannig að það fái þinglega meðferð. Ef ekki verður af því án tafar, vil ég leyfa mér að beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, að hann hlutist til um, að hv. n. gegni þingskyldu sinni í máli sem þessu.