21.03.1973
Neðri deild: 65. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2645 í B-deild Alþingistíðinda. (2032)

Umræður utan dagskrár

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni allshn. fyrir þær upplýsingar, sem nú eru gefnar, að málið verði tekið fyrir næstu daga í allshn. og þá væntanlega til afgreiðslu. Auðvitað beinist ekki þessi aðfinnsla mín persónulega gagnvart þessum hv. þm., því að þegar þm. er forfallaður vegna annarra starfa í þágu ríkisins, þá er auðvitað einhver annar, sem hlýtur að hafa gegnt formannsstörfum í þessari n. á meðan. Það, sem ég er að finna að, er, að nú er svo langur tími liðinn, 5 mánuðir, í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að það er algerlega óverjandi. Mig furðar á því, ef Landhelgisgæzlan hefur látið standa á einhverjum umsögnum frá sér, sem hún hefur verið beðin um, og þá er það hennar sök að því leyti.

Um n. í þinginu og starfsemi þeirra finnst mér almennt, að við verðum að gera okkur grein fyrir, að sendi n. mál sín til umsagnar, eins og þær gera að jafnaði til tiltekinna aðila, þá væri auðvitað langeðlilegast að hafa jafnan einhvern fyrirvara á því, að svör berist á tilteknum tíma, og ég tala nú ekki um, ef það dregst von úr viti, að þá sé innt eftir svörum.

Eins og mál þetta liggur nú fyrir, vænti ég, að þess verði skammt að bíða, að það hljóti afgreiðslu í n., og við getum þá einnig hert á framgangi málsins hér í d. og í þinginu.