21.03.1973
Neðri deild: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2645 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

206. mál, kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Það mál, sem hér er hafin umr. um, er vissulega mjög alvarlegt mál. En þó held ég, að að það sé það einfalt í sniðum og hv. þm. svo kunnugt meginefni þess, að ekki sé ástæða til að hafa um það langa eða ítarlega framsögu. Ég mun þó auðvitað skýra aðdraganda málsins og aðalatriði þess.

Mjög í sama mund og eldgosin byrjuðu í Vestmannaeyjum, hófst hásetaverkfall hér á landi á togaraflotanum. Lausn þessa verkfalls dróst á langinn og virtist hvorki ganga né reka í því alllengi. Þá taldi ríkisstj. það vera komið á svo alvarlegt stig, að hún skipaði sáttanefnd til aðstoðar sáttasemjara ríkisins, og tók sáttanefndin til starfa að lausn málsins. Í sáttanefndina voru skipaðir Ragnar Ólafsson hrl. og Guðlaugur Þorvaldsson prófessor ásamt Torfa Hjartarsyni ríkissáttasemjara. Unnu þeir að málinu allt til loka þess.

Þar kom, að ég var sannfærður um það, og ég hygg, að það hafi verið almennt álitið, að það væri orðið vonlaust um, að sú deila leystist af aðilum, jafnvel ekki með milligöngu sáttanefndarinnar. Þá var það, að ríkisstj. hafði afskipti af málinu og komst að þeirri niðurstöðu, að það bæri ekki svo ýkjamikið á milli aðilanna, en stífni væri mikil í málinu og viðkvæmnisatriði. Ríkisstj. ræddi það, sem á milli bar, við báða aðila og gerði þeim síðan það tilboð, að hún skyldi reyna að brúa bilið með því að láta ríkissjóð koma þar til, og á það sættust báðir aðilar í hásetadeilunni. Á fundum með sáttanefndinni leystust málin á þann hátt, sem rætt hafði verið um við ríkisstj., og báðir aðilar undirrituðu samninga með fyrirvara um staðfestingu og samþykki félaganna á hak við sig og þannig leystist sú deila. Á fundum í félögunum voru þeir samningar, sem samninganefndirnar höfðu undirritað með fyrirvara, samþykktir og deilan leyst.

En nokkru áður en hásetaverkfallið á togurunum leystist, hófst verkfall hjá yfirmönnum á togaraflotanum. Sú deila var milli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands fyrir hönd Vélstjórafélags Íslands, Félags ísl. loftskeytamanna, Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Öldunnar, Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Kára og Skipstjórafélags Norðlendinga annars vegar gegn Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda. Menn voru að vona, að þessi deila stæði ekki lengi, hún fengi skjótan endi eftir svo langa stöðvun togaraflotans, sem á undan var gengin. En þær vonir brugðust. Deilan hélt áfram, og sáttasemjara og sáttanefnd tókst ekki að koma á sáttum með aðilum. Þannig stóð málið til 16. þ. m. Þá átti ríkisstj. fundi með aðilum að deilunni og gekk úr skugga um, hvað á milli bæri, á hverju samkomulagsmöguleikar strönduðu, og bauðst til þess að reyna að brúa bilið á árinu 1973 með líkum hætti og þeim, sem leiddi til lausnar hásetaverkfallsins nokkru áður. Í þetta tóku fulltrúar yfirmanna líklega, en útgerðarmenn töldu sig fyrst verða að fá örugga vissu fyrir rekstrargrundvelli og höfðu uppi kröfur um háar greiðslur upp í hallarekstur liðins árs. Var af ríkisstj. hendi vísað til þess, að það mál væri í skoðun og starfið í fullum gangi í höndum þeirra manna, sem ríkisstj. hafði tilnefnt til þess að grandskoða rekstrargrundvöll togaraútgerðarinnar ásamt með fulltrúum frá togaraútgerðarmönnum sjálfum. Sú starfsemi var sett í gang í sambandi við loforð, sem ríkisstj, hafði gefið togaraútgerðarmönnum í sambandi við lausn hásetaverkfallsins. Á það var bent, að það væri ekki rétt að blanda því máli saman við lausn verkfallsins nú. Það hafði þá líka verið upplýst, að sú könnun á rekstrargrundvelli togaranna hlyti að taka nokkurn tíma og væri því rangt að halda skipunum bundnum á meðan, ef launadeilan yrði á annað borð leyst. En samt sem áður fór svo, að undirtektir togaraútgerðarmanna voru neikvæðar, og fóru þeir þannig af fundi ríkisstj. 16. marz, að ég hygg.

Sáttanefndin hóf svo fundi að nýju með aðilum og kannaði enn möguleika til lausnar á deilunni. Í bókunum hjá sáttanefnd segir um þetta m. a. frá fundinum 16. marz, með leyfi hæstv. forseta :

„Var rætt um ýmsa þætti málsins, og kom fram á seinni fundinum, að ríkisstj. mundi vilja greiða úr ríkissjóði hluta af hækkun á aflaverðlaunum yfirmanna á þessu ári, ef málið leysist á einhvern þann hátt, sem ríkisstj. teldi viðunandi.“

Laugardaginn 17. marz hafði sáttanefndin enn fund með aðilum og kannaði möguleika á lausn deilunnar. Í bókun á þessum síðasta fundi segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Sáttanefndin ræddi við samninganefnd yfirmanna, og gerði hún tilboð, sem skráð var og lagt fram sem nr. 23. Sáttanefndin lagði þetta tilboð fyrir samninganefnd útvegsmanna ásamt bréfi fjmrh. og sjútvrh., dags. 16. marz s. l., þar sem heitið er greiðslu á nokkrum hluta af væntanlegri hækkun aflahlutar yfirmanna á þessu ári:

Fulltrúar útgerðarmanna höfnuðu tilboðinu, og tókust þannig ekki sættir á þeim fundi. Lokabókunin hjá sáttanefndinni varðandi þetta mál er í stuttu máli á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta :

„Samninganefnd yfirmanna ræddi síðan málið og lagði síðan fram sem lokaboð frá sér till. um breytingar og framlengingu á kjarasamningum vélstjóra, loftskeytamanna og annarra stýrimanna. Auðkennast skjölin nr. 25–27.“

En það eru fskj. þau, sem fylgja þessu frv. og eru þar merkt I–III.

Ég vil þessu næst fara með örfáum orðum yfir aðalefni þess frv., sem hér er lagt fram til lausnar þessari hvimleiðu og langdregnu deilu. Í 1. gr. er skýrt frá því, til hverra frv. taki, þ. e. a. s. það tekur til þeirra aðila, sem samningar frá 1. marz 1971 taka til, en þeir eru milli Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda og annarra eigenda slíkra skipa annars vegar og Vélstjórafélags Íslands, Félags ísl. loftskeytamanna, Skipstjóra- og stýrimannafélags Öldunnar, Skipstjóra- og stýrimannafélags Kára og Skipstjórafélags Norðlendinga hins vegar.

Í 2. gr. segir svo, að samningar þeir, sem um ræði í 1. gr., ásamt breytingum þeim, sem um getur á fskj. með frv., I–III, en það eru samningsuppköst fyrir Vélstjórafélag Íslands á fskj. I. á fskj. II fyrir Félag ísl. loftskeytamanna annars vegar, en Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda hins vegar og þriðja fskj. er breytingar á samningi Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda annars vegar og Skipstjóra- og stýrimannafélags Öldunnar, Skipstjóra- og stýrimannafélags Kára og Skipstjórafélags Norðlendinga hins vegar. Er efni þessarar gr. það, að framlenging þessara samninga samkv. þessum fskj. skuli gilda sem samningur milli aðila frá gildistöku þessara laga og til 31. des. 1973.

3. gr. var talið, að væri öruggara að hafa í þessu frv., en þó mundi þess varla þörf vegna ákvæða í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, þar sem segir, að óheimilt sé að grípa inn í með verkföllum á nein þau svið, sem heyra undir félagsdóm. þ. e. a. s. að því er snertir verkbönn eða verkföll, en þó var talið rétt að hafa gr. með í frv., en vísa jafnframt til 17. gr. laga nr. 80 frá 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. En nokkurn veginn sama efni og í þessari gr. felst er að finna í þeirri gr. vinnulöggjafarinnar.

Þá hef ég gert grein fyrir efni frv., en 4. gr. fjallar um, hvernig með skuli fara brot á lögum þessum, og fer það eftir hætti opinberra mála, og varða brot sektum. Lög þessi öðlast þegar gildi, en gilda til 31. des. 1973.

Það er sjálfsagt engum ánægjuefni og sízt mér að verða að beita ríkisafskiptum til að leysa deilumál, sem að réttu lagi á að fá lausn á við frjálst samningaborð aðila vinnumarkaðarins. En að þessu sinni höfðu samningar verið reyndir til fyllstu þrautar að mínu áliti og fullséð, að aðilar gátu ekki sjálfir fundið sameiginlega lausn deilunnar. Málið var orðið alvarlegt þjóðfélagsvandamál og þá var ekki um neitt annað að ræða en að höggva á þennan herta hnút. Ég hygg, að það muni margir mæla, að það sé sízt gert fyrr en vænta mátti og að ríkisstj. hafi dregið það heldur um of að binda endi á þessa vinnustöðvun. Þó má vera, að einhverjum sýnist svo, að of snemma sé inn í þessa deilu gripið með lagavaldi. En ég vænti, að flestir séu þeirrar skoðunar, að þessi deila verður að fá endi, togarafloti okkar verður að hefja veiðar á ný, og það er ekki forsvaranlegt að binda skipin áfram út af fremur smávægilegum ágreiningsefnum.

Með hvaða hætti gerist það þá, að ríkisvaldið gripur fram í lausn þessarar deilu? Það er gert með þeim hætti, að kannað var, hvað togaraútgerðarmenn gætu lengst teygt sig til samkomulags. Síðan var með sama hætti gengið á fulltrúa yfirmanna á togurunum og þeir fengnir til að slá af kröfum sínum til hins ítrasta, og gerðu þeir nokkra tilslökun á sínum fyrri kröfum fyrir milligöngu ríkisstj. Þegar sýnt var, að ekki varð lengra komizt með þá og vonlaust var um að fá bilið milli aðila mjókkað meira að samkomulagsleiðum, ákvað ríkisstj. að taka á sig að greiða það, sem á milli bar, en það hefur lauslega verið áætlað 6–8 millj. kr.

Niðurstaða málsins er því sú, og það er efni frv. og fylgiskjala þess, að lögfest verði lokatilboð yfirmanna á togurunum og því gefið þannig samningsgildi. Þessari lausn hafa togaraútgerðarmenn hins vegar neitað, þrátt fyrir yfirlýsingu á fylgiskjali IV, sem undirrituð er af sjútvrh. og fjmrh. En sú yfirlýsing er á þessa leið. með leyfi hæstv. forseta:

„Það staðfestist hér með, að ríkisstj. hefur samþykkt að greiða útgerðarfélögum hinna stærri togara sérstakar aukagreiðslur á árinu 1973 vegna nýrra kjarasamninga við yfirmenn, sem hér segir:

1) Ríkissjóður greiði sem nemur 0,10% af kauphækkun yfirmanna af aflahlut, enda verði sú kauphækkun alls 0.20% í aflahlut hvers manns.

2) Ríkissjóður greiði einnig þá kauphækkun, sem yrði vegna ákvæða um fækkun skipshafnar frá 24 á skuttogurum og 26 á síðutogurum og sem næmi 0.075% á mann.

Þetta verði fyrirfram metið fyrir hvert skip á sanngjarnan hátt.

Reykjavík, 16. marz 1973.

Lúðvík Jósepsson.

Halldór E. Sigurðsson.“

Með þessari yfirlýsingu er sem sé lagt til, að deilan verði leyst án annarra fjárhagsbyrða á útgerðina en þeirra, sem útgerðarmenn höfðu áður gert tilboð um að taka á sig, og að hinu leytinu í samræmi við lokatilboð yfirmanna á togurunum. Ríkissjóði er sem sé ætlað að brúa bilið milli aðila með sama hætti og gert var í hásetaverkfallinu og leiddi þá til lausnar þeirrar deilu.

Ég vil vænta þess, að hv. alþm. verði mér sammála um, að með þessari lausn sé á engan hallað, heldur komið báðum til hjálpar með lausn þessarar hvimleiðu vinnudeilu. Málið er ofur einfalt.

Það er ósk mín, herra forseti, að eðli málsins samkvæmt verði afgreiðslu þess flýtt og það afgreitt svo fljótt sem nokkur tök eru á. Það mál hefur verið rætt við stjórnarandstöðuna við jákvæðar undirtektir hennar. Ég held, að það væri gott til þess að flýta málinu, ef n. beggja deilda gætu haft sameiginlegan fund um málið og þannig flýtt afgreiðslu þess.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. félmn.