21.03.1973
Neðri deild: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2654 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

206. mál, kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Segja má, að með hverri viku fjölgi nú þeim stefnuyfirlýsingum, sem núverandi stjórnarflokkar bregðast. Ég skal nefna nokkur dæmi um þetta.

Hversu oft hafa ekki málsvarar núv. ríkisstj. sagt á undanförnum áratugum, að aldrei skuli lækka gengi íslenzku krónunnar? Núv. ríkisstj. hefur á rúmlega tveimur árum lækkað gengi krónunnar þrívegis, einu sinni, — það var mesta gengislækkunin, — augljóslega eingöngu af innanlandsástæðum, vegna þróunar efnahagsmála innanlands, en í önnur tvö skipti, þar sem um minni gengislækkun var að ræða, í sambandi við þróun mála á alþjóðagjaldeyrismörkuðum. En þó lækkaði krónan meira heldur en segja má að ástæða hafi verið til. Þær stefnuyfirlýsingar, sem áður var lögð sérstök áherzla á, að ekki ætti að beita gengisbreytingu sem hagstjórnartæki, hafa verið grafnar algjörlega. Þeim hefur verið brugðizt.

Hversu oft hafa ekki málsvarar núv. ríkisstj. sagt, að aldrei megi breyta kjarasamningum stéttafélaga með lögum? Hefur verið staðið við þetta? Með brbl., sem út voru gefin í fyrrasumar, var samningum beinlínis breytt. Það var ekki með lögum samþykktum á Alþingi, heldur með brbl., þar sem um frestun nokkurra kaupgjaldsvísitölustiga var að ræða um ákveðið tímabil í sambandi við aukningu fjölskyldubóta og hækkun á niðurgreiðslum. Þá var greiðslu 2½ vísitölustigs frestað með brbl. í tiltekinn tíma, og þar var augljóslega um að ræða breytingu á samningum með brbl.

En stjórnin hefur brugðizt fyrri yfirlýsingum sínum um þetta mikilvæga stefnuatriði miklu oftar en þetta. Hún hefur viljað bregðast fyrri stefnuyfirlýsingum sínum miklu oftar en hún gerði í reynd með brbl. frá því í fyrra. Hún hefur lagt fyrir þingnefnd tillögur í frumvarpsformi um að fresta grunnkaupshækkunum um ákveðinn tíma. Ríkisstj. vildi fresta grunnkaupshækkuninni 1. marz fram eftir ári, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar, um, að aldrei mætti breyta kjarasamningum með lögum. Og enn er því haldið fram, a. m. k. af hálfu eins stjórnarflokksins, að það hefði átt að gera, það hefði átt að fresta grunnkaupshækkuninni 1. marz fram eftir árinu og þar með augljóslega rjúfa gerða kjarasamninga með löggjöf. Úr þessu varð ekki, fyrst og fremst vegna þess, að einn stjórnarflokkanna SF, snerist gegn þessari ráðstöfun og fékk því ráðið, að til hennar varð ekki gripið, heldur til annarra ráðstafana. Í því frv., sem þn. var afhent um viðlagasjóð, voru ákvæði um, að kaupgjald nokkurs hóps launþega í landinu skyldi beinlínis lækkað, þ. e. a. s. kaupgjald þeirra launþegasamtaka, sem þegar voru búin að fá væntanlega kauphækkun 1. marz inn í sína kjarasamninga. Átti þetta fyrst og fremst við starfsmenn Álversins í Straumsvík. Í frv. ríkisstj., sem við margir hverjir geymum enn og geymum vel, — ætlum okkur að geyma reglulega vel til þess að hafa það til minningar um núv. ríkisstj., — er ákvæði um það, að kaup skyldi beinlínis lækka sem þessu svarar. Í þessu frv. voru ákvæði um bann gegn grunnkaupshækkunum fram eftir þessu ári. Og rækilegar er nú ekki hægt að blanda sér inn í samninga stéttarfélaga en að leggja til, að grunnkaupshækkanir skulu bannaðar. Allt var svo kórónað með því, að hafa í frv. ákvæði um bann gegn verkföllum. Er það ekki allra róttækasta skerðingin á samningsrétti stéttarfélaga að banna verkföll? Öll þessi ákvæði voru í frv., sem hæstv. ríkisstj. afhenti þingnefnd og enn er til og a. m. k. einn flokkurinn telur enn, að hefði átt að koma til framkvæmda og þá væntanlega að öllu leyti. Sá flokkur, sem hér er um að ræða, Alþb., hefur því ekki getað gengið á bak fyrri orða og yfirlýsinga öllu rækilegar en hann hefur gert með háttalagi sínu undanfarnar vikur.

Þriðja grundvallarstefnuyfirlýsingin, sem núv. stjórnarflokkar viðhöfðu oft á ári undanfarinn áratug, var, að með engu móti mætti breyta vísitölugrundvellinum með löggjöf. Hefur verið staðið við þessa stefnuyfirlýsingu? Ekki aldeilis. Fyrir nokkrum vikum lagði hæstv. ríkisstj. fram hér á Alþingi frv. um að breyta vísitöluútreikningnum með þeim hætti að hætta að taka tillit til verðhækkunar á áfengi og tóbaki við útreikning vísitölunnar. Stjórnin sýndi frv. um þetta, sem breytti vísitölugrundvellinum og var auðvitað jafnframt breyting á kjarasamningum, þar sem eru ákvæði um þennan ákveðna vísitölugrundvöll. Það frv. liggur í nefnd. Ég á sæti í þeirri nefnd, sem þetta frv. er í, og hefur ekki verið kallað eftir neinni afgreiðslu á frv. En viljinn er augljós. Viljinn hefur verið fyrir hendi, þó að þingmeirihluti sé auðsjáanlega ekki fyrir samþykkt þessa frv. Og í því frv., sem ég nefndi áðan um viðlagasjóðinn, voru enn fremur ákvæði um, að vísitalan skyldi skert, að kaup skyldi ekki greitt eftir rétt reiknaðri kaupgjaldsvísitölu, heldur eftir lægri vísitölu, m. ö. o. að kaupgjald skyldi skert. Þetta var tilraun til þess að hafa áhrif á, hvernig vísitalan skyldi reiknuð og þar með hvert kaup gjald launþega skyldi vera. Þar voru enn fremur ákvæði um, að ráðgerð hækkun á söluskatti skyldi ekki leiða til hækkunar á kaupgreiðsluvísitölu, m. ö. o. bein lagaákvæði um breytingu á vísitölunni og þar með ákvæði um, að launþegar skyldu ekki fá kaup sitt mælt eftir rétt reiknaðri kaupgjaldsvísitölu.

Ég tek þetta sem dæmi um, hversu rækilega gerðir og vilji núv. ríkisstj, hafa gengið gegn margítrekuðum yfirlýsingum allra stuðningsflokka ríkisstj. undanfarinn áratug. Í þessu felst ekki efnisdómur um þau atriði, sem hér er um að ræða, heldur er ég að benda á og leggja áherzlu á muninn á yfirlýsingum — meira en áratugs yfirlýsingum þriggja þingflokka og gerðum þeirra á tæplega tveimur árum, sem þeir hafa setið við völd. Þeir hafa beinlínis fellt gengi krónunnar, það má nefna dæmi um, að þeir hafi með brbl. beinlínis breytt samningum, og Það má nefna dæmi um, að þeir hafi flutt frv. um að breyta vísitölugrundvellinum. Til viðbótar því, sem þeir hafa þegar gert, hefur komið fram vilji og meira segja í frv. formi, þó að ekki hafi orðið að lögum, þá hefur komið fram vilji til þess að fresta grunnkaupshækkunum, til þess beinlínis að lækka kaup vissra launþega, til þess að banna grunnkaupshækkanir, til þess að banna verkföll og til þess að skerða vísitöluna og koma í veg fyrir, að hækkun á verðlagi komi inn í vísitöluna. Öllu rækilegar hygg ég, að ekki sé hægt að ganga á bak orða sinna en í þeim gerðum og í viljayfirlýsingum, sem ég hef nú vitnað til. (Gripið fram í.) Ég skal koma nánar að þessu hérna á eftir. Í þessu frv., sem hér er um að ræða, er lagt til, að kjarasamningar séu lögfestir. Þetta er auðvitað líka í algjörri andstöðu við allt, sem formælendur núv. stjórnarflokka hafa sagt í meira en áratug, að láta Alþingi með lögum ákveða, hvert skuli vera kaup tiltekinna launþega. Það hefur verið trúaratriði a. m. k. sumra af eldheitustu stuðningsmönnum núv. ríkisstj., að til slíks mætti aldrei koma. Nú skal ég segja það sem mína skoðun, og það er líka fyrsti hluti svars til hv. þm., sem greip fram í fyrir mér, að ég tel, að löggjafasamkoman eigi að forðast í lengstu lög að hafa afskipti af kjarasamningum, í lengstu lög eigi hún að reyna að stuðla að því, að aðilar vinnumarkaðsins geti komið sér saman um, hver skuli vera kaup og kjör á vinnumarkaðinum. Ég hef aldrei sagt og segi ekki, að það sé undir öllum kringumstæðum útilokað, að það geti undir engum kringumstæðum komið til greina, að það sé óhjákvæmilegt, að þjóðarnauðsyn krefjist þess, að Alþingi hafi afskipti af því, hvera konar samningar takist á vinnumarkaðinum. Að því leyti hefur afstaða mín verið og er enn í dag gerólík afstöðu þess hv. þm., sem greip fram í fyrir mér áðan. Hann hefur aldrei áður, síðan hann kom hér á þing og meðan hann hefur gegnt forustuhlutverki í verkalýðahreyfingunni, viðurkennt nauðsyn þess, að Alþingi ákveði kjör launþega með lagasetningu. Þvert á móti hefur hann hvað eftir annað staðið upp hér á hinu háa Alþingi og andmælt því, að Alþingi hefði afskipti af kjarasamningum með löggjöf. Þá var hann í stjórnarandstöðu. Ég er í stjórnarandstöðu núna, en það hvarflar ekki að mér að standa í þessum ræðustól og halda því fram, að undir engum kringumstæðum geti komið til mála, að Alþingi ákveði kjör launþega með lögum. Ég og minn flokkur erum sjálfum okkur samkvæmir í því, að slíkt geti verið nauðsynlegt, enda hvarflar ekki að mér að taka við 1. umr. afstöðu gegn þessu frv. Eins og ég mun koma að á eftir, tel ég, að athuga þurfi ýmsar hliðar þess mjög vandlega og fá vissar upplýsingar. Við í Alþýðuflokknum erum reiðubúnir til að stuðla að samþykkt frv., ef vissar breytingar eru gerðar á því eða vissar upplýsingar gefnar í sambandi við afgreiðslu þess, sem tryggja, svo sem ég mun koma að á eftir, að ekki sé raskað réttlátu samræmi á milli kjara yfirmanna og undirmanna. Það er þetta sem er munurinn á afstöðu Alþfl. annars vegar og afstöðu Alþb. hins vegar. Afstaða er hin sama í grundvallaratriðum, hvort við erum í stjórnarandstöðu eða í stjórn. Við viljum komast hjá því, að Alþingi blandi sér í kjarasamninga, en ef þjóðarnauðsyn krefst, þá samþykkjum við það. Tel ég, að sé heiðarlegri, drengilegri, heilbrigðari og þjóðhollari afstaða en sú, sem Alþb. hefur fylgt á undanförnum áratugum, að beita sér alltaf gegn því, að Alþingi hafi afskipti af kjaramálum, jafnvel þó að þjóðarnauðsyn krefjist, en um leið og þeir eru komnir í valdastóla og um leið og þeir styðja ríkisstj., þá má gera það. Það eru þeir, sem hegða sér með ólíkum hætti eftir því, hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, við í Alþfl. ekki.

Ég legg til, og geri það að undangengnum fundi í þingflokki Alþfl., að þessari 1. umr. ljúki sem fyrst og að ekki fari fram verulegar efnisumr. um málið við 1. umr., vegna þess, hve málið virðist vera flókið og hversu nauðsynlegt er að fá ýmis atriði í sambandi við það upplýst, en til þess er sameiginlegur fundur félmn., eins og hæstv. félmrh. hefur stungið upp á, hinn rétti vettvangur, en ekki 1. umr. í hv. þd.

Það, sem við í Alþfl. leggjum höfuðáherzlu á, er, að með þessari lagasetningu sé ekki skekkt réttmætt kjarahlutfall, réttmætt kauphlutfall milli undirmanna og yfirmanna. Mér hefur verið tjáð af hæstv. félmrh., að það hefði ekki verið tilætlunin, að slíkt væri gert, og þeim orðum skal ég með ánægju og fúslega trúa. En lausleg athugun á frv. virðist samt sem áður leiða í ljós, að ákvæði frv., ef að lögum yrðu óbreytt, raski kauphlutfallinu, sem gilt hefur, raski því yfirmönnum í hag og þar með undirmönnum í óhag. Ég vil ekki fullyrða þetta, því að á þeim stutta tíma, sem liðið hefur síðan við fengum frv. í hendur, um sexleytið í gærkvöld, hefur ekki gefizt tækifæri eða tóm til að kanna það til hlítar. Með örfáum orðum skal ég þó láta koma fram, við hvað ég á, þegar ég segi þetta eftir lauslega athugun á málinu af hálfu okkar þm. Alþfl.

Ef frv. yrði samþykkt eins og ákvæði þess eru, mundi það gilda, að fækki hásetum á togara, á fastakaup þeirra, sem fækkar um, að skiptast á hina hásetana, en aflaverðlaun þeirra háseta sem fækkar um, eiga að dreifast jafnt á alla undirmenn. Látum þetta vera öðruvísi er ekki hægt að skilja ákvæði frv. En í framhaldi af þessu, — nú kemur röskunin, — er ákvæði í frv. um, að ef hásetum fækkar, þá eigi aflaverðlaun allra yfirmanna að hækka um 0.075%, m. ö. o.: í kjölfar fækkunar háseta á að koma hækkun á aflaverðlaunum yfirmannanna, þótt ekki verði séð, almennt skoðað a. m. k., að vinnuframlag þeirra aukist við það, að hásetum fækkar. Vinnuframlag hinna hásetanna eykst auðvitað við það, að hásetunum fækkar, og þess vegna er eðlilegt, að þeim komi það til góða. En við sjáum ekki sambandið milli þess, að aflaverðlaun yfirmanna eigi að hækka af þessum sökum, vegna fækkunar hásetanna, um 0.075%, og það er engin skýring gefin á því, hvernig talan 0.075% er fengin. Það fylgir enginn útreikningur á því, hvers vegna hlutur yfirmanna í hækkun er ekki 0.1% eða 0.05% eða eitthvað enn annað. Það er órökstutt. Þetta þarf að upplýsa í nefnd. En sagan er ekki öll sögð með þessu. Það gildir annað um fækkun yfirmanna en um fækkun háseta. Frv. verður ekki skilið öðruvísi en þannig, að vélstjórar, sem gert er ráð fyrir að eigi að vera 4, þó að það sé umdeilt, að nauðsynlegt sé að hafa 4 vélstjóra á nýjustu skipunum, — látum það vera, — en frv. virðist eiga að skilja þannig, að sé vélstjórum fækkað úr 4 í 3, fái hinir 3 eða geti fengið allt kaup 4. vélstjórans, en aðilar að Sjómannasambandinu, þ. e. a. s. undirmennirnir, ekki neitt. M. ö. o.: ef hásetum fækkar, njóta þeir þess ekki aðeins, heldur njóta yfirmennirnir þess líka. En ef yfirmönnunum fækkar, þ. e. a. s. vélstjórunum, þá njóta þeir þess einir, en hásetarnir fá enga umbun í því sambandi. Hér er gerður munur á hásetunum annars vegar og vélstjórunum hins vegar. Vélstjórarnir sitja einir að sparnaðinum í sinni stétt, njóta einir þess sparnaðar, en hásetarnir einskis. Þegar hásetarnir leggja á sig aukavinnu með því að fallast á fækkun, þá njóta þeir ekki hækkunarinnar einir, heldur fá yfirmennirnir, þ. á m. vélstjórarnir viðbótargreiðslu. Við sjáum ekki betur en að hér sé gert upp á milli yfirmanna annars vegar í þessu dæmi vélstjóranna, og hásetanna hins vegar.

Spurningin er því þessi: Hvers vegna njóta aðilar að Sjómannasambandinu, sem eru nýbúnir að semja, þess í engu, ef vélstjórunum fækkar, fyrst að vélstjórarnir njóta þess, ef hásetunum fækkar? Þetta er spurning, sem þarf að fá skýrt svar, við í n., sem um þetta fjallar, og undir svari við þessari spurningu verður afstaða okkar í þingflokki Alþfl. komin til endanlegrar afgreiðslu frv. Ég vil mega trúa því, að hér sé um mistök að ræða, en ekki ásetning.

Ég skal endurtaka það, og það verða síðustu orðin, sem ég segi við 1. umr., að ég hef enga ástæðu til að rengja þau ummæli hæstv. félmrh., sem hann viðhafði um mig og hefur eflaust viðhaft við fleiri í gær, að það væri ekki tilætlunin að láta koma til framkvæmda ójöfnuð á milli yfirmannanna og undirmannanna með þessari lagasetningu. í trausti til þessara ummæla vona ég, að verði samstaða um það í hv. n. að lagfæra þetta. Ef það verður gert, ef gengið verður þannig frá þessu frv., að engin röskun sé gerð á þeim kjarahlutföllum, sem gilt hafa á milli undirmanna og yfirmanna, þá mun þingflokkur Alþfl. stuðla að samþykkt þessa frv., vegna Þess að við erum sannfærðir um, að þjóðarnauðsyn krefjist, að þessi langvinna deila verði leyst og þessi mikilvirku atvinnutæki komist til framleiðslustarfa á sjónum og geti orðið til að efla þjóðarhag með þeim hætti, sem þeim var ætlað.