21.03.1973
Neðri deild: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2659 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

206. mál, kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. 7. þm. Reykjav., að við 1. umr. um þetta mál er e. t. v. ekki ástæða til málalenginga, af því fyrst og fremst skortir allar upplýsingar, sem þm. hljóta að vera nauðsynlegar til þess að geta gert sér fyllilega grein fyrir, hvaða mál hér er á ferðinni. Með þessu frv. til l. fylgja engar upplýsingar, sem máli skipta, engir útreikningar og enginn samanburður við þá kjarasamninga, sem hafa gilt fram til þessa. Og fyrir því er það, að ég hygg, að svo sé ástatt með svo til alla þm., að þeir eigi þess engan kost að gera sér neina heildargrein fyrir því, hvað hér um ræðir.

Hæstv. félmrh. lét þess getið, að hér væri mjög alvarlegt mál á ferðinni, og vitnaði til þess, að verkfall á togurum hefði hafizt um það leyti, sem Vestmanneyjagos hófst, og mikið rétt er það. Þá var hann sem jafnan skjótur til orða sinna og sagði, að nú væri ekki tími verkfalla. Eftir sem áður er svo komið, að liðnir eru 2 mánuðir síðan þessi verkföll skullu á, án þess að þeir, sem í hendi sinni hafa allan tímann haft að leysa það, hæstv. ríkisstj., hafi hreyft hönd eða fót til þess, að svo mætti verða. Hann er jafnan skjótari til orða sinna en athafna, hæstv. félmrh., og vil ég finna þessum orðum mínum nokkurn stað.

Ég ætla ekki nú að leggja dóm á innihald þeirra samninga, sem gerðir hafa verið við undirmenn. Ég ætla ekki að leggja dóm á það, að þeir séu á annan veg úr garði gerðir heldur en frambærilegt sé þeim launamönnum til handa, né heldur ætla ég sérstaklega að leggja nú dóm á gerð þess samnings eða þess óskalista, sem yfirmenn hafa sett fram og nú á að lögfesta. Það kann að vera, að flestallt af því, sem þar er að finna, sé réttlætanlegt og ekki um of þeim til handa En ég vil benda á það, að það mun vera algerlega einsdæmi, að samningstilboð annars á tveim deiluaðilum sé tekið og lögfest, og þá verður þá leiðrétt, ef ég fer þar með rangt mál. Það mun vera algert einsdæmi, og því verðu hæstv. ríkisstj. að svara umbúðalaust, hvernig það má vera, að ekki var til þess ráðs gripið, að starfsmaður hennar, sáttasemjari ríkisins bæri fram miðlunartillögu, sem var þá miklu eðlilegra að ríkisstj. kæmi með til lögfestingar Þessu þarf að svara, hvernig stóð á því, að það var tekin upp till. frá öðrum aðilanum og lögð fram til lögfestingar.

Ég sagði, að ég ætlaði ekki að leggja dóm á innihald samninga við undirmenn, sem undirritaðir hafa verið, né heldur það innihald, sem er í þeim fskj., sem með frv. þessu fylgja. Það kom fram í umr. hér á hæstv. Alþ. utan dagskrár eigi alls fyrir löngu, að meginástæðan fyrir hinni illvígu kjaradeilu og togaraverkfalli væri ekki ágreiningur milli deiluaðila, og hæstv. sjútvrh. staðfesti þetta. Vandamálið var það, að fyrir hendi væri enginn rekstrargrundvöllur þessa atvinnuvegar. Það álit hafði verið sett fram af Framkvæmdastofnun ríkisins, þar sem hún hafði með útreikningum sínum spáð því, að afkomuhorfur á árinu 1973 væru þær, að halli yrði á rekstri togaranna, sem næmi 176 millj. kr. Að vísu er þar ekki tekið tillit til þess, sem hefur verið greitt úr Aflatryggingasjóði. Vandamálið, sem allan tímann hefur verið við að glíma, er það, að ekki er grundvöllur fyrir rekstri þessa atvinnuvegar, — alls enginn grundvöllur. Ástæðurnar fyrir því, að útvegsmenn þráuðust svo lengi við að undirskrifa samninga, voru þær, að þeim var ekki heitið neinum úrbótum í þessu efni lengi vel. Ég verð að biðja hæstv. forsrh. um það allra vinsamlegast að upplýsa, hvað það var, sem hann lofaði og lýsti yfir við samninganefnd útvegsmanna, þegar að því dró, að þeir undirrituðu samninga við undirmenn. Þeir gerðu það í trausti þess, að innihald upplýsinganna væri með þeim hætti, að það mætti byggja á yfirlýsingum hans, að úrbætur yrðu fundnar, grundvöllur yrði fundinn. Ég fer fram á það eindregið að fá að vita, með hvaða hætti þær yfirlýsingar voru, af því að í trausti þeirra voru þessir samningar við undirmenn undirritaðir. En svo mikið er víst, hvernig svo sem þessar yfirlýsingar hafa hljóðað, að fulltrúar útvegsmanna telja, að það hafi í engu verið við þær yfirlýsingar staðið. Fyrir því var það, að þegar til þess kom, að ríkisstj. knúði fast á um undirskrift og samningsgerð við yfirmenn, þótti fulltrúum útgerðarinnar einsýnt, að það ætti ekki að standa við þessar yfirlýsingar, sem gefnar voru við undirskrift samninga við undirmenn. Fyrir því var það, að þeir neituðu að ganga til nokkurra samninga.

Þess var getið af hæstv. félmrh., að það væri starfandi n., sem ætti að rannsaka þessi mál. Rannsókn á þessum málum, hag og stöðu togaraútgerðarinnar, hefur staðið yfir miklu lengur en meðan verkfallið hefur staðið. Það eru búnar að standa yfir viðræður, er mér kunnugt um, allt frá því í júlí í sumar milli sjútvrh. í og fulltrúa útgerðarinnar, þannig að nægur tími hefur unnizt. En hvað hefur komið fram frá þeirri undirnefnd, sem að þessu hefur starfað? Það er ákaflega magurt, að ekki sé meira sagt. Tapið á rekstri togaranna á s. 1. ári nam 99 millj. kr. Hefur verið farið fram á það við ríkisstj., að hún reyndi að koma til móts við útgerðina varðandi þennan mikla skuldahala. Það hefur verið sett fram af hálfu þeirra manna, sem í þessari n. hafa starfað, að að þessu leyti yrði alls ekkert komið til móts við útgerðina, liðið væri liðið. Samkv. spám Framkvæmdastofnunar ríkisins má gera ráð fyrir taprekstri útgerðarinnar upp á 176 millj. kr. á næsta ári, og hefur verið látið í það skína, að eftir mitt ár yrði athugað að koma til móts við útgerðina með svipuðum hætti og var s. l. ár og á árinu 1974 yrðu breytingar gerðar í átt við það, sem gert var s. l. ár. Sjá þá allir, hversu skammt þetta hlýtur að hrökkva.

Sem sagt, fulltrúar útvegsmanna hafa orðið fyrir stórkostlegum vonbrigðum og telja sig svikna af þeim yfirlýsingum, sem þeir treystu á, Þegar þeir undirrituðu samningana við undirmennina. Ég vil spyrja, og hæstv. bankamálaráðherra gæti e. t. v. upplýst það: Nú verður þetta frv. sjálfsagt að lögum með meirihlutavaldi hæstv. ríkisstj. á hinu háa Alþ., og nú er það alveg víst, að enginn ætlar sér að brjóta lögin, og er það einnig alveg víst, að allir munu þrá þann dag, útvegsmenn sem aðrir, að skipin haldi úr höfn, en er hann viss um það, að þau muni gera það þrátt fyrir þessa lagasetningu? Ég vil a. m. k. fá upplýsingar, og það væru hæg heimatök hjá honum að fá það upplýst, hvort svo kunni að fara, þó að þessi lög verði sett. Heimatökin eru hjá honum að því leyti, sem hann ætti að geta leitað sér um það upplýsinga hjá viðskiptabönkunum, hvort þeir muni taka það í mál, að skipin leysi landfestar, þegar fyrir liggur slíkt bullandi tap eins og raun ber vitni um. Mér er nær að halda, að svo verði ekki. Og það er ekkert undarlegt við það, að viðskiptabankarnir ætli sér ekki að standa undir augljósu tapi, þegar ekkert liggur fyrir um það, með hvaða hætti ríkisstj. sjálf ætlar að finna þessum atvinnuvegi rekstrargrundvöll. Ég hef hér í höndum upplýsingar og þótt hæstv. ríkisstj. hafi e. t. v. ekki gert það, þá hef ég lagt drög að því, að þær n., sem fá þetta mál til meðferðar, fái nokkrar gleggri upplýsingar um stöðu alls málsins, því að þær er ekki að finna í þeirri frv. ómynd, sem hér liggur fyrir. Ég hef upplýsingar um afkomu togaranna árið 1972 og spá hagrannsóknadeilda Framkvæmdastofnunarinnar um reksturinn 1973. Þess skal getið, að 1971 varð halli á rekstri togaranna 38 millj. kr. Árið 1972 nam hallareksturinn brúttó 18 millj. og 500 þús. kr., frá því dragast bætur úr Aflatryggingasjóði, 37.5 millj., og framlög ríkissjóðs 45 millj., eða 82.5 millj. kr., þannig að það er nettó tap og skuldahali útgerðarinnar eftir árið 1972 nemur 99 millj. kr. Síðan kemur afkomuspá hagrannsóknadeildar fyrir árið 1973. Og hún er, eins og ég hef tekið fram, eftir þeim reikningum, sem ekki hafa verið véfengdir, og mun hún nema samtals á 20 skipum 176 millj. kr.

Það hafa starfað fleiri n. en þær, sem nefndar hafa verið hér. Það starfaði n. mikið á vegum sjútvrh., þriggja manna, Hauks Helgasonar o. fl., að athugun á þessu, og það kom skýrt fram í áliti þeirrar n., að það virtist alveg ljóst, að þörf væri á verulegum opinberum stuðningi við togaraútgerðina á þessu ári.

Meginvandinn — ég endurtek það — í þessu máli frá upphafi hefur ekki verið deilan milli launþega og vinnuveitenda. Það hefur verið deilan milli útgerðarinnar og ríkisvaldsins. Þar hefur hnífurinn staðið í kúnni. Útvegsmenn hafa engin ráð séð til þess að halda þessum skipum úti hjálparlaust, og það verður að vera ákvörðun ríkisvaldsins sjálfs, hvort svo skuli verða gert eða ekki. Eru engar ýkjur, þó að menn hafi þessar fullyrðingar í frammi.

Það væri vissulega ástæða til þess að rekja hér nokkuð, hvað í þessum nýju kjarasamningum felst, t. d. þessu frv., sem hér liggur fyrir. Ég ætla þó að geyma mér það þangað til við síðari umr., vegna þess að ég tel ástæðu til, að frv. gangi sem fyrst til n. Ég nefndi, að útvegsmenn hafa farið fram á að fá upp borið eða fá aðstoð til þess, að klipptur verði frá þeim hinn óbærilegi skuldahali frá síðasta ári, fyrir utan að fá tryggingu fyrir því, með hvaða hætti stutt verði við bakið á þeim á komandi ári. Þar hafa ýmsar leiðir verið nefndar. En ég vil einnig geta þess, að það hefur komið fram í þeirri undirnefnd, sem nú starfar, að skuttogurum yrði í engu mætt, þeim yrði í engu hjálpað, það væri nóg komið af aðstoð við þá. Þess vegna vil ég rifja upp það, sem kom fram við umr. hér utan dagskrár ekki alls fyrir löngu; — það, sem hæstv. sjútvrh. sagði. Ég hafði látið þess getið þá við umr., að mér fyndist koma til greina varðandi skuttogarareksturinn, að einhverju yrði frestað af því, sem við köllum frystingu, þ. e. að tekin eru 20% af brúttóandvirði afla og fryst til greiðslu vaxta og afborgana. Á það skal vitanlega lögð áherzla, að vexti og afborganir þarf að greiða. En þetta var ein leið, sem bent var á, að frestað yrði, þessari miklu frystingu, til þess að útgerðarmenn skuttogaranna gætu með einhverjum hætti e. t. v. rekið þá. Það hefur verið boðið, og síðan yrði á hálfs árs fresti athugað, hvernig afkoman væri, þannig að það mætti þá frysta meira, ef vel gengi. Hæstv. sjútvrh. sagði, með leyfi hæstv. forseta, orðrétt: „Ég vil segja það um vissar hugmyndir, sem hér komu fram hjá hv. 4. þm. Austf. í sambandi við fyrirgreiðsluna við nýju skipin, að ég er á mjög svipaðri skoðun og hann í þeim efnum og er alveg opinn fyrir því að ræða um stuðning af því tagi í sambandi við rekstur þeirra skipa, þegar þar að kemur.“ Það hefur ýmislegt verið rætt og upp á ýmsu fitjað og einnig af honum, en það hefur ekki séð dagsins ljós. Útgerðarmenn hafa enga tryggingu fyrir því, að þeim verði nema að mjög óverulegu leyti hjálpað.

Það má heita með ólíkindum, að hæstv. félmrh., fyrrv. forseti ASÍ, og það má heita með ólíkindum, að núv. forseti ASÍ taki á málum eins og nú virðist horfa. Það má heita með algerum ólíkindum, ef við rifjum það upp, hvernig til þessa er stofnað. Hásetar og undirmenn voru búnir að vera 1½ mánuð í verkfalli, en yfirmenn á kaupi allan tímann. Þegar þeim sýndist blása byrlega fyrir samningum, var boðað verkfall, og nú á að verðlauna þá með þessum vinnubrögðum, að taka upp þeirra till. og gera að lögum frá Alþ. Það er ekki mikil reisn yfir þessu.

Ég endurtek, að ég óska eftir skýrum svörum frá hæstv. forsrh., Í hverju yfirlýsingar hans voru fólgnar, sem hann gaf útgerðarmönnum, þegar þeir létu til leiðast að undirrita samninga við undirmenn.

Þetta vil ég að komi skýlaust fram, og ef nokkur möguleiki á að vera til þess, að þetta mál leysist í heild sinni, þá er lífsspursmál, að stjórnin lýsi því yfir gagngert og skorinort, með hvaða hætti hún ætlar að leysa þetta mikla vandamál. Það er engin lausn, að þetta verði lögfest, — als engin. Það getur enginn útgerðarmaður leyst sína togara, það liggur alveg ljóst fyrir. Þetta verða menn að gera sér fullljóst. Þá er að vita með hvaða hætti nákvæmlega á að taka á þessu máli. Undan því getur ríkisstj. ekki skotizt með nokkru móti. Aðalvandinn og aðalþrætan í þessu efni hefur aldrei verið milli launþegans og útgerðarmannsins.

Ég ætla ekki við þessa umr. að fara yfir ýmsar upplýsingar, sem ég hef aflað mér um þær hækkanir, sem orðið hafa á launakjörum skipverja. Það verður að bíða þess tíma, að málið hafi verið rætt í n. og athugað gaumgæfilega frá fleiri hliðum, upplýsinga aflað, þannig að menn geti gert heildarúttekt á þessu. En ég legg áherzlu á þetta, að eina leiðin til þess, að leystar verði landfestar, er sú, að ríkisvaldið upplýsi, með hvaða hætti á að ráða bót á þessum mikla vanda og finna grundvöll fyrir útgerð þessara skipa.