21.03.1973
Neðri deild: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2671 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

206. mál, kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég hef ekki ástæðu til annars en að vera ánægður með þær umr., sem hér hafa farið fram. Þær hafa verið alvarlegar og efnislegar, og í ræðum allra ræðumanna stjórnarandstöðunnar hefur það komið fram, að þeir segjast sjálfir og að þeirra flokkar vilji ganga að því verki af alhug, að þessi deila megi leysast og skipin sigla úr höfn. Ég minnist þess, að hv. 10. þm. Reykv., sem hér tók fyrstur til máls, undirstrikaði afstöðu sína með því að segja, að það sé fyllilega tímabært að gera allt, sem unnt sé, til lausnar þessari deilu. Og hv. 7. þm. Reykv., formaður Alþfl., sagði, að hann og sinn flokkur væru reiðubúnir til að stuðla að samþykkt frv. að fengnum vissum upplýsingum, sem hann svo tilgreindi, og taldi þjóðarnauðsyn, að deilan fengi lausn. Hv. 4. þm. Austf„ Sverrir Hermannsson, lýsti þessari afstöðu sinni á þann hátt, að hann teldi, að allir þráðu þann dag, að skipin sigldu úr höfn, og þótti mér það hans von og vísa að taka slíka afstöðu, og veit ég, að fáir verða glaðari en hann, þegar hann sér skip sín sigla úr höfn. En við gleðjumst líka allir yfir því, þegar það gerist.

Ég þakka hv. 1. Reykv., formanni Sjálfstfl., Jóhanni Hafstein, fyrir þær góðu undirtektir, sem hann lýsti. Hann hafði gefið mér vilyrði í gærkvöldi um, að það yrðu engar tafir af hendi hans flokks lagðar fyrir þetta mál og menn sæju ekki eftir sér í hans flokki að verja deginum í dag og kvöldinu í kvöld, kannske nóttinni með, til þess að málið yrði að fullu leyst. Hann hafði að vísu uppi andmæli út af því, að frv. væri ófullkomið og það væri ekki auðskilið, hvað í því fælist. Ég fæ nú ekki skilið þetta. Það er að vísu rétt, að í frv. eru engar málalengingar, enda tel ég, að þær ættu alls ekki við í slíku máli sem þessu. En í frv. er allt fram tekið, sem taka þarf fram að minni hyggju til þess að binda enda á deiluna með þeim hætti, sem hér er lagt til, þ. e. a. s. með því að lögfesta síðustu fáanleg tilboð yfirmanna á togurunum, þegar búið var að fá þá til þess að þrýsta sínum kröfum niður eins og nokkur möguleiki var til, en það er efni frv að lögfesta lokakröfur þeirra um kjarabætur. Fyrir þeim er öllum gerð grein skýrt og skorinort í fskj. með frv. og til þeirra vitnað, að þau eigi að lögfesta. Það verður með engu móti sagt, að það sé níðzt á yfirmönnum togaranna með því að ganga að þeirra lokakröfum og gefa þeim samningsgildi, en það verður heldur ekki sagt, að það sé níðzt á útgerðarmönnum togaranna, þegar lögð eru til grundvallar í þessari lagasetningu síðustu tilboð þeirra og síðan ákveðið, að ríkið borgi það, sem krefst fjármuna umfram þeirra eigin lokakröfur. Svona einfalt er málið. En að fara að kafa ofan í ýmis atriði fyrir gildandi samninga milli aðilanna, það held ég, að þjóni engum tilgangi, því að um þau atriði, sem ekki eru tekin fram í fskj. með þessu frv., er enginn ágreiningur. Ég tel því að það sé ekki rétt af mér að fara út í að svara öðrum aukaatriðum, sem fram komu í þeim ræðum, sem hér hafa verið haldnar, því að það gæti vakið meiri umr., og ég ætti sízt að verða til þess. Ég fagna því, að nú getur málið farið til n., væntanlega sameiginlegrar skoðunar í n. beggja d., og við þannig tekið til við atgreiðslu málsins á eðlilegan hátt að kvöldverði loknum.