21.03.1973
Neðri deild: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2672 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

206. mál, kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil ekki verða til þess að tefja afgreiðslu þessa máls. En eftirfarandi kemst ég ekki hjá að segja:

Það kemur í ljós enn sem fyrri daginn, að hæstv. sjútvrh. er mjög illa við að vera minntur á það ósamræmi, sem er milli fyrri orða hans sem stjórnarandstöðuleiðtoga og gerða hans sem ráðh. Ég hef setið á þingi í meira en aldarfjórðung og aldrei — ekki í eitt skipti — gefið yfirlýsingu um, að aldrei geti komið til mála að breyta kjarasamningum með löggjöf. Ég hef staðið að slíku, meðan ég hef verið í stjórn, og ég er fús til að standa að slíku, þó að ég sé ekki í stjórn, ef ég tel þjóðarnauðsyn krefjast, ef ég tel það rétt. Hið sama gildir um minn flokk. Hæstv. sjútvrh. hefur setið enn lengur á þingi en ég, ef ég man rétt 4 árum lengur, og það verður ekki komið tölu á þau skipti, sem hann hefur lýst yfir, að það eigi ekki að breyta kjarasamningum með löggjöf. Það verður ekki komið tölu á þær yfirlýsingar, sem hann hefur gefið í þá átt, þegar hann hefur verið í stjórnarandstöðu. En þegar hann situr í stjórn, þá er það rétt, sem var rangt, meðan hann var í stjórnarandstöðu. Þess er skemmst að minnast, að hann var í stjórnarandstöðu í rúm 12 ár, áður en núv. ríkisstj. kom til valda. Þau skipti skipta áreiðanlega hundruðum, sem hann hefur mælt gegn því á þessum 12 árum, að kjarasamningum sé breytt með löggjöf. Nú eru ekki liðin nema tvö ár síðan hann kom í stjórn, og hann er búinn að standa að breytingum á kjarasamningum með löggjöf í nokkur skipti, og í mjög mörg skipti hefur hann gert till. um það, þó að þær hafi ekki náð fram að ganga. Það er þetta, sem er munurinn á okkur tveimur, sem báðir erum búnir að sitja jafnlengi á þingi og raun ber vitni um. Það er enginn munur á orðum mínum og gerðum og flokks míns eftir því, hvort ég er í stjórn eða stjórnarandstöðu, en það á hins vegar við hann í mjög ríkum mæli. Ég er í sjálfu sér ekkert hissa á því, þó að honum sé illa við, að á þetta sé minnt.

Hitt er aftur á móti heldur sjaldgæfara, að maður skuli hafa ástæðu til að koma í ræðustól og segja, að hv. þm. segi satt. Það ber of sjaldan við, því er verr og miður. Hann sagði satt þegar hann skýrði frá því, að þingflokkur Alþfl. hefði verið reiðubúinn til þess, þegar viðlagasjóðsmálið var í undirbúningi, að samþykkja frestun á greiðslu grunnkaupshækkunar í 7 mánuði. Það er rétt. En þetta var í engu ósamræmi við nokkur fyrri ummæli mín eða minna flokksmanna um málið. Við höfum áður staðið að svipuðum aðgerðum undir svipuðum neyðarkringumstæðum og áttu sér stað. Það kostaði því ekki nokkur átök, hvorki innri átök fyrir nokkurn okkar þm. né heldur nokkur átök við okkur sem þingflokk að fallast á þá hugmynd að leysa þann vanda, sem við var að etja, með því einu — og því guldum við samþykki — að fresta kauphækkuninni, en það hefði gefið 2 þús. millj. kr. tekjur í viðlagasjóðinn. Hitt er líka satt, um það þagði hæstv. ráðh., að við andmæltum öðrum ákvæðum í frv., sem okkur var sýnt. Við andmæltum ákvæðunum um vísitöluskerðingu, um bann gegn grunnkaupshækkunum, um bann gegn verkföllum og því, að hækkun söluskatts skyldi koma inn í vísitölu, enda hefði kaupfrestunin ein nægt til að leysa Vestmannaeyjavandann. Við vorum samþykkir því, að vandinn yrði leystur á þann hátt, ef stjórnin kysi þá lausn á málinu. En þannig brá við, eftir að helmingur af þingflokki SF vildi ekki samþykkja kaupfrestunina, að við vorum aldrei spurðir að því eftir það, hvort við vildum hjálpa stjórninni, sem væri orðin í minni hl. í eigin liði, til að fá hugmyndina framkvæmda. Við vorum aldrei spurðir um það, hvorki af þessum hæstv. ráðh. né nokkrum öðrum ráðh., hvort við vildum mynda meiri hl. með stjórninni gegn nokkrum af þeirra eigin mönnum. Þetta er allur sannleikurinn í málinu. Hæstv. ráðh. og hans félagar, ég held allir, drógu fyrri hugmyndir til baka og komu með nýjar hugmyndir, sem þeir síðast náðu samkomulagi um. Hæstv. ráðh. gerði frumtill. sína í algerri andstöðu við fjölmargar yfirlýsingar á undanförnum 12 árum, og síðan, þegar það nær ekki fram að ganga vegna hans eigin manna, snýr hann við blaðinu og gerir allt aðrar till. Sá, sem hér hefur verið að hringsnúast, er hæstv. ráðh. og hans félagar í ríkisstj. en ekki ég eða mínir flokksmenn.