21.03.1973
Neðri deild: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2676 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

206. mál, kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Það, sem markverðast hefur komið fram í þessum umr. er, að allir ræðumenn eru sammála um nauðsyn þess að leysa þessa deilu. Það er aðalatriðið. Hitt skiptir miklu minna máli að fara út í pex um einstök atriði. En út af því, að hv. 4. þm. Austf. hefur verið að vitna til einhverra yfirlýsinga, sem ég hefði átt að gefa, vil ég segja það, að hugmyndir hans um það efni virðast vera á misskilningi byggðar. Það vill svo vel til, að ég hef ekki verið í neinu einrúmi að tala við menn í þessu sambandi. Það eru fleiri til vitnis um það, hvað ég hef þar sagt. Og af hálfu útgerðarmanna voru mættir Valdimar Indriðason, Þorsteinn Arnalds, Vilhelm Þorsteinsson, Ragnar Þorsteinsson og svo framkvæmdastjóri þeirra, Ingimar Einarsson. Og það, sem ég hef sagt og sagði á þessum fundum, var, að það hefði verið sama, hvaða ríkisstj. hefði setið á Íslandi, það hefði alltaf verið séð svo um, að togarar gætu gengið. Og ég sagði, að það mundi líka í framtíðinni verða sama, hvaða ríkisstj. sem sæti á Íslandi, það mundi verða séð til þess, að togararnir gætu gengið. Ég sagði enn fremur, að því fyrr sem þessi deila leystist og skipin færu í gang, með því meiri velvilja yrði litið á málefni útgerðarinnar, sem eru í könnun, eins og hér hefur verið rakið af þeim ráðh. öðrum, sem hér hafa talað, og ég skal ekki endurtaka.

Þessi lausn, sem hér er lögð til og sjálfsagt má deila um í einstökum atriðum, þar sem ríkið tekur á sig að brúa það bil, sem er á milli þess, sem útgerðarmenn telja sér ítrast fært að ganga, og hins, sem viðsemjendur þeirra telja sig þurfa að fá í sinn hlut, byggist auðvitað á viðurkenningu á því, að það sé taprekstur á þessum atvinnurekstri. Og það er eina réttlætingin fyrir því, að ríkið getur með þessum hætti skorizt hér í leikinn. Annars væri auðvitað engin réttlæting fyrir því.

En ég hef eðlilega mestan áhuga á því, að þetta mál gangi fljótt fram, og vil þess vegna ekki verða til þess að tefja umr. og skal ekki fara lengra út í þetta. En ég vænti, að ég hafi með þessu leiðrétt þann misskilning, sem ég tel vera hjá hv. þm. Ég get að sjálfsögðu ekki sagt um það, hvernig málið hefur verið túlkað fyrir honum, en ef þeir nm., sem fá þetta mál til meðferðar, vilja hafa samband við þá menn, sem ég nefndi og ég hef talað við, vilja fá frá þeim, hvaða yfirlýsingu ég eigi að hafa gefið, þá er það ágætt.