21.03.1973
Neðri deild: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2676 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

206. mál, kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Að sjálfsögðu, eins og ég tók fram í minni fyrri ræðu, verður orðið við óskum ekki aðeins hæstv. ráðh., heldur og forustumanna stjórnarandstöðunnar, um að flýta umr. nú, svo að málið komist til n. til nánari skoðunar. Ég gat þó ekki varizt því af gefnu tilefni að standa hér upp nú og gera örfáar aths.

Auðvitað er það hárrétt farið með þau orð mín af hæstv. félmrh., að ég teldi tímabært að gera allt, sem hægt væri, til að leysa þessa deilu. En gjarnan hefði hann mátt hafa með niðurlag þeirrar hugsunar, sem kom fram í mínu tali, að við ættum ekki, um leið og við leysum þessa deilu, að gera leik að þm. kannske að skapa stórt vandamál, sem gæti hlaðið upp á sig á allra næstu vikum, mánuðum, að ég tali ekki um í lok samninga þess aðilans, sem samninga gerði. Ef það væri hægt að komast hjá því, þegar þetta mál er leyst, deilan við yfirmennina, þá væri það auðvitað mjög æskilegt.

Hæstv. sjútvrh. tók réttilega fram, að það væri ekki verið að gera neina breytingu á samningum undirmanna, og hann hélt áfram og sagði, að réttlæti væri ekki til umr. hér. Ég veit, að það hugtak er afskaplega fjarri hæstv. ráðh., þegar hann þarf að ná málum fram eða koma fram þeirri túlkun á þeim, sem hann telur hina einu réttu. En hann sagði líka réttilega, að þegar annar aðili hefði samið fyrst og hinn samið síðar, þá gætu og hefðu hlutföll milli aðila oft raskazt. Þetta er hárrétt. Við þessu er auðvitað ekkert hægt að segja fyrir þann aðila, sem fyrst samdi. Hér er nokkuð annað á ferðinni. Annar aðilinn semur. Svo er komið til okkar á hv. Alþ. og við beðnir um að lögfesta á móti. Það er ekki verið að gera samning, það er verið að lögbinda síðasta boð yfirmanna, sem kom fram í samningunum, og ég tel, eins og ég áður taldi, að það sé harla óskemmtilegt að horfa upp á það, að það sé jafnframt verið að lögfesta fríðindi til yfirmanna, sem ég tel persónulega, að eigi ekki heima hjá þeim vegna þess, hvernig þau eru til komin, nema þá máske að sú breyting verði gerð á, að jafnframt gangi til allrar skipshafnarinnar það, sem sparast, ef yfirmönnum fækkar. Auk þess er auðvitað ekkert réttlæti í því, að það skuli vera einungis 3–4 undirmenn afskiptir þessum hlunnindum, þegar horft er á þau frá sama sjónarhól og hæstv. sjútvrh. gerir. Það kom fram í ræðu hv. 7. þm. Reykv. í dag, að það væri mjög óeðlilegt, að ef hásetum fækkaði frá samningsbundinni tölu og þeir bættu við sig vinnu, þá ættu yfirmenn að fá jafnmikið fyrir það, sem skiptist á milli hásetanna, eins og þeir. Þá er auðvitað ákaflega óeðlilegt, að ef t. d. fækkar svo um einn vélstjóra í ferð, þá skuli það aðeins skiptast á milli vélstjóranna, en ekki ganga til hásetanna líka, að ég tali ekki um hina, sem voru ekki með í dæminu.

Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann veitti okkur varðandi fsp. mína um niðurlag ráðherrayfirlýsingarinnar. Ég verð að segja það, að ég geri ráð fyrir, að svo sé um fleiri en mig, enda sá ég furðusvip á andliti margra þm., að flestir geri sér ekki enn þá grein fyrir því, hvað við er átt. Enda veit ég, að það er til þess stofnað með þessari setningu, að það eigi sem fæstir að skilja hana.

Herra forseti. Ég skal láta máli mínu lokið að þessu sinni. En auk þeirra spurninga, sem ég hef beðið hv. n. að leita svara við, vil ég gjarnan, að hún svari okkur á kvöldfundi, þegar við komum saman aftur, og líka í framhaldi af þeim miklu umr. og löggjöf, sem við settum hér fyrir jólin, hvort sé þá líka verið að ætlast til þess af okkur, að við lögfestum hærri tryggingar fyrir yfirmenn heldur en nú gilda fyrir undirmenn.