30.10.1972
Neðri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

27. mál, Tæknistofnun sjávarútvegsins

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem mig langaði að bæta við það, sem ég hef áður sagt um þetta, og í tilefni af þeirri ræðu, sem hæstv. ráðh. hélt hér áðan. — Ég vil byrja á því að þakka honum fyrir undirtektir hans undir þá hugmynd, sem ég varpaði hér fram áðan í sambandi við breyt. eða viðauka á þeim verkefnum, sem væntanlegri stofnun yrði falið að annast. Hæstv. ráðh. sagði þó, að það væri kannske lítið að marka þessa norsku niðurstöðu, sem ég vék að áðan, af því að hún næði aðeins til eins árs. Þó að ég geti fallizt á það út af fyrir sig, vil ég ítreka það, sem ég sagði raunar í fyrri ræðu minni, og ég þóttist muna það rétt, að niðurstöður ársins 1969 hefðu í öllum aðalatriðum verið þær sömu og árið 1970. Það er þá a.m.k. um meira en eitt ár að ræða, sem gefur ástæðu til þess að athuga betur í framtíðinni, — ég tel það ekki tímabært nú, — hvort við eigum ekki að bæta við okkar fiskiflota a.m.k. einum verksmiðjutogara á réttum tíma.

Hæstv. ráðh. gat þess líka, að verksmiðjutogararnir hefðu ekki veitt á heimamiðum, heldur á fjarlægum miðum. Út af fyrir sig væri það ágætt fyrir okkur, ef við gætum með árangri gert okkar eigin skip út á önnur mið, en þau sem eru hér umhverfis landið, því að vafalaust verður mikil örtröð á þeim næstu árin. Ég hef því miður ekki tölur um, hvað mikið af aflamagni þessara 19 togara, sem ég nefndi, er fengið á heimamiðum og annars staðar. En ég hef heildartölu um afla þessara 19 skipa, hvað mikill hluti hans er fenginn á miðunum við Noreg og þá fyrst og fremst út af Finnmörku, en um 63% af heildaraflamagni þessara 19 togara árið 1970 voru fengin fyrir ströndum Noregs. Ég tel það því augljóst mál. að talsvert af afla verksmiðjutogaranna hefur fengizt þar líka, þó að mér þyki sennilegt, að þeir hafi veitt nokkuð stóran hluta af heildaraflamagni sínu á öðrum miðum.

Ég gat um það áðan, að ég teldi vafasamt að færa veiðarfæratilraunir undir þessa nýju stofnun og þá frá Hafrannsóknastofnuninni. Þessi efi minn byggist á því, að við framkvæmum talsvert mikið af veiðarfæratilraunum á okkar nýju, dýru og mjög svo fullkomnu rannsóknar skipum. Þau eru rekin á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar, og ljóst er, að þau þarf að reka í nánu samráði og samvinnu við fiskifræðinga okkar. Fiskifræðingarnir þurfa að vera um borð í þessum skipum, þegar veiðarfæratilraunir eru framkvæmdar. Það er af þeirri ástæðu, sem ég áskil mér rétt til þess að athuga það betur, hvort veiðarfæratilraunum er betur komið hjá þessari nýju stofnun en á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar, a.m.k. meðan okkar rannsóknarskipum er stjórnað af henni.