21.03.1973
Neðri deild: 67. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2680 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

206. mál, kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum

Frsm. 3. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Ég verð því miður að segja, að það hefur ekki oft komið fyrir á undanförnum árum, að Alþ. hafi verið ætlað að greiða atkv. um mál, sem jafnlitlar upplýsingar hafa fengizt um og þetta frv. Það var ekki við því að búast, að fyrir lægi síðdegis í dag rækilegar upplýsingar við 1. umr. um frv., sem ríkisstj. afgreiðir í gærmorgun, formenn stjórnarandstöðuflokkanna fá kl. 6 í gær og þm. almennt að sjá kl. 2 í dag. En við því mátti sannarlega búast, að ríkisstj. væri kleift að gefa þn. sæmilega ítarlegar upplýsingar um, hvað í frv. raunverulega fælist, og þá fyrst og fremst það, hvaða kjör yfirmanna á togurum væri verið að lögfesta, ef frv. þetta væri afgreitt.

Ég skal taka skýrt fram, að ég ætlaðist ekki til þess, að hæstv. félmrh. þyldi á þingfundi í dag yfir þingheimi öllum og þar með þjóðinni langar og ítarlegar skýrslur um, hvað raunverulega fælist í frv. Slíkt er í raun og veru verk þn. að kanna út í æsar. Ég var í góðri trú um, að þn., sem störfuðu síðdegis í dag og kvöld, fengju ítarlegar upplýsingar um, hvað raunverulega fælist í frv., þ. e. hver yrðu kjör yfirmanna á togurunum, ef frv. næði fram að ganga, og þá ekki síður, hvert yrði hlutfallið á milli þeirra kjarabóta, sem hér er verið að lögfesta, annars vegar og kjarabóta þeirra, sem undirmenn á togurunum hafa nýlega samið um í frjálsum samningum, hins vegar. Það er satt að segja algert lágmark varðandi upplýsingaskyldu ríkisstj., þegar hún flytur frv. eins og þetta, að hún skýri ítarlega frá því, hvað í frv. felst, hvaða kjör er verið að lögfesta, ekki hvað sízt hjá ákveðnum hluta af skipverjum togara og ekki hvað sízt þegar annar hluti af skipverjum á togara er nýbúinn að gera samninga um bætt kjör með frjálsu samkomulag! við atvinnuveitendur. Menn hafa að sjálfsögðu haft tækifæri til að kynna sér, hvað í þeim samningum fólst, á þeim tíma, sem liðinn er, síðan þeir samningar voru gerðir. En hér er um að ræða kjarasamninga fyrir annan hluta skipverja á togurum, sem varð til, að því er mér skilst, í gærmorgun, og málið er ekki flóknara en svo, að það hefði átt að vera búið að reikna það nákvæmlega út ekki síðar en um kvöldmatarleytið í kvöld, hvert yrði kaup þeirra, sem frv. fjallar um, þ. e. hinna einstöku flokka yfirmanna á skipunum. En það hefur ekki verið gert.

Það var óskað mjög rækilega á fundunum í félmn. eftir upplýsingum um, hvað fælist raunverulega í þessum samningum. Þær upplýsingar lágu ekki fyrir, og það ber vissulega að harma, að Alþ. skuli ætlað að samþykkja kaup yfir manna á togurum, sem Alþ. fær engar upplýsingar um, hvert raunverulega verður í krónum og aurum reiknað. Mönnum fannst við fljótan yfirlestur í gærkvöld og í morgun, að það kynni svo að vera, að í þeim umfangsmiklu breytingum, sem gerðar eru í þessu frv. á samningum yfirmanna á togurunum og togaraeigenda, að það gæti verið, að raskað væri því hlutfalli, sem gilti fyrir síðustu kjarasamninga milli kjara undirmanna og yfirmanna á skipunum. Vegna þess, hve málið er flókið og yfirgripsmikið, vildi ég ekkert um þetta fullyrða í dag, en tók skýrt fram, að það hlyti að vera verkefni n. að kanna það til hlítar.

Ég benti á það í dag, skal aðeins endurtaka það með örfáum orðum, að í kjarasamningunum við undirmenn voru ákvæði um, að fækki hásetum, skiptist fastakaupið á hina hásetana, en aflaverðlaun þeirra manna, sem fækkað er um, skiptist á alla undirmennina. Við þessi samningsákvæði hefur, að því er mér er bezt kunnugt um, enginn neitt að athuga. Í þeim samningum, sem nú er gert ráð fyrir að lögfesta hér á hinu háa Alþ., eru hins vegar ákvæði og þau ný, ef fækkað er í áhöfn, ef t. d. hásetum er fækkað á þilfari, þá eiga aflaverðlaun yfirmanna að hækka um 0.075%. Þetta eru nýmæli. M. ö. o.: er hásetar á þilfari leggja á sig meiri vinnu, eiga ekki aðeins Þeir að fá hækkað kaup og aukinn hlut, heldur einnig yfirmenn. Ég sagði, að það væri nauðsynlegt, að n. kynnti sér rökin fyrir þessu og þá m. a., hvaða rök lægju til einmitt tölunnar 0.075, en ekki tölunnar 0.1 eða 0.005 eða einhverrar annarrar tölu. Um þetta var spurt í félmn., en engin svör fengust. Það er augljóst misrétti að láta yfirmenn njóta þess, ef hásetum á þilfari fækkar, en aftur á móti háseta ú þilfari ekki njóta þess í neinu, ef yfirmönnum kynni að fækka.

Það er hér, sem um er að ræða misréttið, sem ég vonaðist eftir skýringum á, en engar skýringar hafa fengizt á.

Það liggja m. ö. o. engar upplýsingar fyrir um það, hver breyting verður á kjörum yfirmanna til samanburðar við þá breytingu, sem kunnugt er, að er orðin á kjörum undirmannanna. Það er gert ráð fyrir 4 vélstjórum á vissum togurum í þessum samningum, sem hér er gert ráð fyrir að lögfesta. Það ákvæði tekur enn til aðeins fárra skipa, en mun taka til fleiri, eftir því sem togaraflotinn vex. Samkv. þeim venjum, sem gilt hafa um yfirmenn á farskipum og togurum, hefur sú regla gilt með tilvísun til siglingalaga, að fækki vélstjórum, þá skiptist kaup þess vélstjóra, sem um er fækkað, á milli hinna vélstjóranna. Aftur á móti verða undirmenn ekki neins aðnjótandi í sambandi við fækkun á vélstjórum. Hins vegar verða vélstjórarnir aðnjótandi hlunninda í framhaldi af því, að hásetum fækkar. Hér er með sérstökum hætti um að ræða dæmi um — það, að tekið er öðruvísi á hagsmunamálum yfirmanna í þessu frv. heldur en tekið var á hagsmunamálum undirmanna í þeim frjálsu — samningum, sem þeir gerðu.

Að sjálfsögðu dettur mér eða mínum flokksbræðrum ekki í hug að breyta hinum frjálsu samningum undirmanna í einu eða neinu. Okkur dettur ekki heldur í hug, að nein sanngirni eða réttlæti væri í því að hafa það af yfirmönnum, sem ríkisstj. vill veita þeim í þessu frv. Við teljum ekki réttmætt og gerum enga till. um að skerða þær bætur, sem yfirmenn hafa tryggt sér með samningum við ríkisstj. í framhaldi af fækkun háseta á þilfari. Fyrst þeir eru búnir að fá samþykki ríkisstj. fyrir þessum kjarabótum, teljum við, að þær eigi að haldast. M. ö. o.: við viljum ekki hafa það af neinum launþega, sem hann er búinn að fá sinn samningsaðila, í þessu tilfelli ríkisstj., til að fallast á. Þess vegna munum við ekki gera till. um breyt. á ákvæðum 2. gr., sem um þetta atriði fjallar. Hitt teljum við augljóst sanngirnismál, alveg ótvírætt sanngirnismál, að þá fái hásetarnir, undirmennirnir, að njóta þess sama, þótt þeim hafi ekki hugkvæmzt að reyna að semja um það á sínum tíma. Þá finnst okkur það vera siðferðisskylda ríkisstj. að láta undirmennina njóta hliðstæðs réttar, þótt þeir hafi ekki fengið hann í frjálsum samningum, eins og hún er nú búin að bjóðast til að láta yfirmennina fá. Þess vegna mun ég fyrir hönd þingflokks Alþfl. flytja brtt. við 2. gr. um það, að hásetar skuli njóta sömu kjarabóta vegna fækkunar á áhöfn og yfirmennirnir hafa fengið vilyrði fyrir í þessu frv. Ég lýsi eftir rökum gegn því, að þetta sé sanngirniskrafa og réttmæt till. Hvers vegna eiga undirmenn ekki rétt á sömu kjarabótum, ef skipverjum fækkar, eins og yfirmönnum er heitið í þessu frv.? Ég hefði gaman af að heyra rökin gegn þessu. Það mætti kannske segja, að það væru einhver rök gegn því að láta yfirmennina fá kjarabót vegna þess, að hásetum á þilfari fækkar. En ég endurtek: Fyrst ríkisstj. er búin að fallast á þetta, leggjum við í Alþfl. ekki til, að þetta verði tekið til baka. En við krefjumst þess, að þá fái undirmennirnir sama rétt og yfirmönnunum hefur verið boðinn eða yrði tryggður með samþykkt þessa frv. Þess vegna leyfi ég mér að lýsa skrifl. brtt., herra forseti, það hefur ekki gefizt tími til að prenta hana, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Aftan við 2. gr. bætist ný mgr., svo hljóðandi: Fækki áhöfn úr 24 á skuttogurum eða 26 á síðutogurum, hækka aflaverðlaun annarra skipverja en um getur í 1. gr.“ — þ. e. a. s. undirmannanna — „um sömu upphæð og tilgreind er í 2. gr. fskj. I-III“ — þ. e. a. s. sömu upphæð og yfirmönnum er heitið vegna fækkunar skipverja í fskj., sem gert er ráð fyrir í 2. gr. frv. að lögfesta.

Þetta er það, sem ég hef til málanna að leggja við þessa 2. umr. Hér er um að ræða í raun og veru mjög einfalt mál, og það er flutt í beinu framhaldi af aths. mínum við 1. umr. málsins. Þá lýsti ég því yfir fyrir hönd þm. Alþfl., og sú yfirlýsing stendur, að ef í þessu frv. fælist engin röskun á hlutfallinu milli kjara yfirmanna og undirmanna, mundi Alþfl. greiða atkv. með þessu frv., vegna þess að hann teldi þjóðhagslega nauðsyn að binda sem allra fyrst endi á togaraverkfallið, sem þegar hefur valdið of miklu tjóni.

Ég minnti á, að í viðtölum við hæstv. félmrh. í gær hefði komið fram, að það væri tilgangur hans og þá að sjálfsögðu tilgangur ríkisstj. líka, að hið sama skyldi ganga yfir yfirmenn og undirmenn, þ. e. a. s. að yfirmenn ættu að fá sams konar kjarabót, kannske ekki mælda í 0.01% eða því um líkt, en í stórum dráttum skyldu þeir fá sams konar kjarabót og undirmenn hefðu fengið, það væri ekki meiningin að ívilna yfirmönnum á kostnað undirmannanna og ekki heldur að láta þá fá minna en undirmennirnir hefðu fengið. Þessum stjórnarmiðum hæstv. félmrh. er ég og við í þingflokki Alþfl. algerlega sammála, og ég endurtek það, að ef frv. væri þess eðlis, þá værum við þm. Alþfl. reiðubúnir til að samþykkja það. Hins vegar er það óbreytt ekki þess eðlis.

Formaður Sjómannasambands Íslands og fulltrúi frá stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur mættu á sameiginlegum fundi félmn. í dag. Þar tóku þessir menn, sem höfðu verið forustumenn í samningum undirmanna við útgerðarmenn nú fyrir skömmu, það fram, að þeir litu þannig á, að með samþykkt frv. óbreytts væri hallað á undirmenn og það mundi koma upp kurr í liði þeirra á togaraflotanum. Á engu slíku höfum við efni. Ekkert slíkt væri réttlátt. Þeir nefndu sem dæmi um misréttið einmitt þetta atriði, sem hér er um að ræða og þessari brtt. er ætlað að ráða bót á.

Ef brtt. okkar verður samþ. og jafnrétti í stórum dráttum þannig tryggt á milli breytinga á kjörum yfirmanna og undirmanna, eða réttara sagt, ef sá vankantur, sem er augljóslega á frv., að yfirmenn fái rétt, sem undirmenn hafa ekki, yrði sniðinn af frv., þá munum við þm. Alþfl. styðja það.

En ef hæstv. ríkisstj. hafnar þeirri sjálfsögðu réttlætis- og jafnréttishugmynd, sem í þessari brtt. felst, munum við ekki styðja frv. Að óreyndu viljum við ekki trúa því, að hæstv. ríkisstj. vilji að þessum upplýsingum fengnum draga taum yfirmanna. Að óreyndu viljum við ekki trúa því, að eftir að henni er kunnugt um, að forustumenn undirmanna, sem nýbúnir eru að gera frjálsa samninga, telja frv. í núverandi mynd halla á sig, þar sé hagsmunum yfirmanna gert hærra undir höfði en hagsmunum undirmanna. — eftir að ríkisstj. veit, að forustumenn undirmanna hafa lýst yfir á sameiginlegum fundi í þn., að þeir líti þannig á málið, vil ég ekki trúa því, að hæstv. ríkisstj. vilji efna til ónauðsynlegrar óeiningar um jafnmikilvægt mál og hér er um að ræða.

Lokaorð mín eru þessi: Ef þessi jafnréttis- og réttlætistill., sem þm. Alþfl. í hv. d. standa að og ég flyt fyrir þeirra hönd, verður samþ., er fylgi Alþfl, við þetta nauðsynjamál tryggt, að öðrum kosti ekki, því að öðrum kosti er ekki um að ræða, að tryggt sé jafnrétti milli allra þeirra manna, sem vinna hin mikilvægu störf á togaraflotanum.