22.03.1973
Efri deild: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2695 í B-deild Alþingistíðinda. (2061)

206. mál, kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Á fundi í Sþ. 20. febr. s. l. kvaddi ég mér hljóðs utan dagskrár til þessa að spyrja hæstv. sjútvrh. um, hvað liði lausn togaraverkfallsins og afskiptum sjútvrh. og ríkisstj. af lausn verkfallsins. Hæstv. sjútvrh. svaraði þeirri fsp. minni og gat þess m. a., að ríkisstj. hefði skipað n. þriggja manna, sem þannig væri skipuð, að í henni ættu sæti fulltrúi frá sjútvrn., fulltrúi frá hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar og fulltrúi frá Fiskifélagi Íslanda, til þess að kanna hag og stöðu togaraútgerðarinnar í landinu með tilliti til þess að auðvelda lausn þessa verkfalls. Hann komst svo að orði, með leyfi forseta: „Nú næstu daga, þegar fyrir liggur álitsgerð þeirrar þriggja manna n., sem ég hef skýrt hér frá, hlýtur að verða tekin afstaða til þess, hvort ríkisvaldið verður að skerast í að leysa þessa deilu eða samningsaðilar finna leið út úr vandanum á þeim grundvelli, sem þá liggur fyrir hjá þessari sérstöku athugananefnd.“

Hann sagði, hæstv. ráðherra: Nú næstu daga, þegar fyrir liggur álitsgerð þessara þriggja manna, hlýtur að vera tekin afstaða. — Ég hef hér gögn í höndum, sem greina frá því, að þessir menn skrifuðu þegar daginn eftir álitsgerð um málið, 21. febr., þar sem öll höfuðatriðin koma fram um rekstrargrundvöll togaraútgerðarinnar á landinu. Bæði er þar greint frá hag útgerðarinnar 1972 og spá um hag togaraútgerðarinnar 1973.

Þótt verkfallið hefði staðið í 4 vikur 20. febr., þegar þetta mál var tekið til umr. utan dagskrár, hafa enn aðrar rúmar 4 — eða reyndar nær 5 vikur liðið, án þess að hæstv. ríkisstj., hæstv. sjútvrh., hæstv. félmrh. eða nokkur annar ráðherra hafi gert sitt til, að þessu verkfalli slotaði. Það er ekki fyrr en með flutningi þessa frv., að litur er sýndur til þessa.

Ég skal játa, að í umr. á Alþ. fyrir mánuði kom fram ákveðinn málefnalegur ágreiningur milli hæstv. sjútvrh. og mín. Ráðherrann sagði: fyrst þarf að semja, svo er hægt að ákveða, hvaða rekstrargrundvöll er hægt að skapa togaraútgerðinni í landinu. — Ég sagði: Það verður fyrst og fremst að skapa rekstrargrundvöllinn og síðan að semja um kaup og kjör. Alla vega lagði ég áherzlu á, að allt þetta færi saman, það væri lágmarkskrafa. Vandamálið væri ekki leyst, nema um leið væri gengið frá samningum um kaup og kjör áhafna á togurum og rekstrargrundvöllur skapaður fyrir togaraútgerðina í landinu.

Það er svo, að þessi deila og þetta vandamál, sem við erum hér um að ræða, er þríþætt: 1) Samningar við undirmenn á togurum. 2) Samningar við yfirmenn á togurum. 3) Vandamálið um rekstrargrundvöll togara.

Samningar við undirmenn á togurunum, tókust fyrir u. þ. b. tveimur vikum. Undanfari þeirra samninga var yfirlýsing af hálfu hæstv. forsrh. og að því er mér skildist hæstv. sjútvrh. og jafnvel hæstv. félmrh., að ef frá samningum yrði gengið á tilteknum grundvelli, mundi annars vegar verða séð fyrir því, að togaraútgerðin gæti gengið og staðið við skuldbindingar sínar, og hins vegar yrði settur gerðardómur í deilur yfirmanna. Alla vega yrði séð fyrir hvoru tveggja. Í trausti þessa tókust samningar. Samt sem áður heldur verkfallið áfram í 2–3 vikur enn og samningar takast ekki við yfirmenn. Það er ekki sett löggjöf, fyrr en hún er sett á grundvelli till. annars deiluaðilans, sem er algerlega án fordæmis um lausn kjaradeilna, eins og hv. síðasti ræðumaður greindi frá. Það er athyglisvert, að hinir lægra launuðu í áhöfn togaranna eru látnir standa í verkfalli í 6 vikur til þess að ná fram kjarabótum sínum, án þess að hæstv. ríkisstj. geri tilraun til þess að koma til móts við togaraútgerðina í landinu til að skapa togurunum rekstrargrundvöll. Eftir að hinir lægra launuðu í áhöfnum togaranna hafa þannig staðið í fórnum og langvinnu verkfalli, er að vísu verkfalli haldið áfram af hálfu yfirmanna, en því lokið með því, að hæstv. ríkisstj. réttir hinum hærra launuðu löggildingu á þeirra síðustu kröfum. Hæstv. ráðherrar eru fremstir í flokki þeirra manna, sem segja, að keppa beri að launajöfnuði. Hæstv. ráðherrar, sem standa að þessum vinnubrögðum, eru fremstir í flokki þeirra manna, sem telja sig vernda hag hinna lægst launuðu. En vinnubrögðin eru allt önnur. Hinir lægst launuðu eru látnir standa í langvinnu verkfalli. Hinir hærra launuðu eru í þessu tilfelli verðlaunaðir með því, að síðustu kröfu þeirra er fengið lagagildi. Í þessum orðum mínum felst ekki dómur um það, hvort hér er um óeðlilegan launamun að ræða eða ekki. Hér er um flókið mál að ræða, og ég get ekki með tilliti til þeirra gagna, sem við höfum á borðunum, gert mér grein fyrir því, hvort um aukið launabil er að ræða eða ekki. Mér er nær að halda, að svo geti verið í ákveðnum tilvikum, eins og kom fram hjá hæstv. félmrh. En það er ekki aðalatriði málsins. Aðalatriði málsins er það, að þarna er verið að löggilda kauphækkun til hinna hærra launuðu, meðan hinir lægra launuðu hafa þurft að standa í langvinnu verkfalli til að fá kröfum sínum framfylgt. Það hefur verið staðið þannig að þessu vandamáli af hálfu hæstv. ríkisstj. að með eindæmum er.

Við skulum láta það liggja milli hluta, hvor okkar hæstv. sjútvrh. hefur rétt fyrir sér, hvort ganga beri frá samningum við áhafnir skipanna fyrst og sjá síðan fyrir rekstrargrundvelli togaranna eða hvort nauðsynleg forsenda fyrir samningum við áhafnir sé rekstrargrundvöllur togaranna. Skoðun hæstv. sjútvrh. minnir óneitanlega á það, sem haft er eftir hæstv. forsrh. við kjarasamningana 1971, þegar atvinnuveitendur og fulltrúar atvinnuveganna í landinu komu til hans og sögðu, að atvinnuvegirnir gætu ekki borið þá kjarasamninga, sem í boði var að undirrita. Þá sagði hæstv. forsrh., eftir því sem hermt er: „Þið verðið að kasta ykkur til sunds, þótt þið sjáið ekki til lands.“ Þessi vinnubrögð, hæstv. ráðherra, að það verði að semja um kaup og kjör, án þess að séð sé fyrir endann á því, að atvinnuvegirnir geti borið það kaup og þau kjör, hafa leitt til þess, sem við öll þekkjum, verðbólguþróunarinnar, gengisfellinga og þess úrræðaleysis í efnahagsmálum landsmanna, sem við blasir. En eins og ég sagði, látum vera, hvor okkar hefur rétt fyrir sér að þessu leyti, hvort nauðsynlegt er, áður en gengið er frá kjarasamningum, að rekstrargrundvöllur atvinnuveganna sé fyrir hendi eða ekki. Það ættum við þó að geta verið sammála um, að nauðsynlegt er að ganga frá kjarasamningum bæði við undirmenn og yfirmenn um leið og svíkjast ekki að vissu leyti, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, aftan að undirmönnum með því að veita yfirmönnum samningskjör, þannig að undirmenn telja ástæðu til fyrir sig að fara fram á meira, a. m. k. næst þegar þeir ganga til samninga. Hér er nefnilega stofnað til þess, að undirmenn muni væntanlega, þegar þeirra samningar losna, gera kröfur um jöfnuð á við þau kjör, sem fyrirliggjandi lagafrv. færir yfirmönnum. Þetta getur orðið til þess, að togaraútgerð í landinu. hafi ekki rekstrargrundvöll til frambúðar. Með þessum vinnubrögðum er hæstv. ríkisstj. að stefna framtíð togaraútgerðar á Íslandi í voða, jafnvel þótt hagur hennar vænkist með batnandi aflabrögðum, sem við skulum öll vona.

Hæstv. sjútvrh. sagði að vísu í umr. 20. febr. s. l., þrátt fyrir það, sem ég hef hér greint frá, að hafi verið meginmálsvörn hans og málflutningur, með leyfi hæstv. forseta, orðrétt: „Það má vel segja, að það sé rétt að reyna að leysa þessi atriði nokkuð jafnhliða, að útgerðarmenn fái vitneskju um, hvað á að styrkja rekstur þeirra mikið umfram annan skiparekstur í landinu, og samið sé um launakjörin. Ég hef ekkert á móti því fyrir mitt leyti, að það sé reynt að hnýta þetta saman og reyna að standa þannig að lausn málsins. En þá er það vitanlega aðilanna, sem hér deila, að segja til um það, hvort þeir óska eftir, að þannig sé að málunum staðið.“ Ég held að það fari ekki á milli mála, að það hafi komið fram, að það hafi verið ósk aðilanna, að þannig væri að málunum staðið, að það væri af hálfu hæstv. ríkisstj. gerð grein fyrir því, hvað hún treysti sér til að gera til að tryggja rekstrargrundvöll togaranna í landinu.

Það hefur líka verið óbein viðurkenning á þessu sjónarmiði af hálfu hæstv. sjútvrh. og hæstv. ríkisstj. að hafa ekki eina, heldur tvær n. á rökstólum til þess að kanna, með hvaða hætti væri unnt að skapa togurunum rekstrargrundvöll. Hin fyrri n. var sú, er ég greindi frá fyrr í ræðu minni og hefur skilað áliti og sagt þar að nauðsynlegt væri að styrkja togaraútgerðina í landinu umfram aðra útgerð. Hin síðari n. mun hafa verið nefnd a. m. k. tveggja manna, ráðuneytisstjórans í sjútvrn. og Jóhannesar Elíassonar bankastjóra, ef ég fer rétt með, sem ég vona, og var fengið það verkefni að kanna, hvaða till. væri hægt að gera af hálfu ríkisstj. til þess, að rekstrargrundvöllur fengist fyrir togarana í landinu. Það kemur að vísu fram í plöggum frá Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda, að þessir menn hafi lítil svör getað gefið og jafnvel sagt, að ekki yrði litið á 100 millj. kr. tap. togaranna á síðasta ári, ekki yrði litið á styrk til eða stuðning við hina nýju skuttogara á þessu ári. Þessu hvoru tveggja mótmælti hæstv. sjútvrh., hygg ég, í umr. í Nd. í gær, þótt ég hefði ekki aðstöðu til þess að fylgjast með þeim umr. nákvæmlega, og hann leiðréttir mig þá, ef ég fer með rangt mál. En um leið og hann leiðréttir það, sem hann aftók alls ekki í þeim orðum, sem ég heyrði hann flytja í Nd. í gær, að til mála gæti komið, að ríkið veitti einhvern stuðning til togaranna vegna taprekstrar þeirra á síðasta ári og vel gæti komið til greina að styðja einnig togarana á þessu ári, þá er það ekki nóg á þessu stigi. Það þarf meira en orðin tóm af hálfu hæstv. sjútvrh. og hæstv. ríkisstj. Það þarf að leggja til ákveðið framlag fyrir þeim stuðningi, sem ríkisstj. og ríkissjóður treystir sér til að veita togaraútgerðinni í landinu.

Með flutningi og samþykkt þessa frv. er vandamál það, sem við stöndum frammi fyrir, alls ekki leyst. Vandamálið er þríþætt. Við skulum segja, að lausn á tveim fyrstu vandamálunum, í fyrsta lagi samningum við undirmenn og í öðru lagi samningum við yfirmenn, sé fundin. Það kann vel að vera, en það er illa leyst, eins og ég hef tekið fram. Þá er enn eftir að leysa þriðja vandamálið, sem hefur í raun og veru ávallt legið til grundvallar hinum tveimur, og það er, að ríkisvaldið með einum eða öðrum hætti eigi þátt í því að skapa rekstrargrundvöll fyrir togaraútgerð í landinu. Það er gagnvart þessu vandamáli, sem hæstv. ráðherrar hafa lokað augunum. Þess vegna er ekki að ófyrirsynju, að nú séu ítrekaðar spurningar, sem reyndar hafa komið fram hér áður í umr. um málið: Hvað ætlast ríkisstj. fyrir í þeim efnum? Ætlar ríkisstj. að styðja togaraútgerðina í landinu umfram það, sem gert hefur verið hingað til? Þá á ég við: umfram þær 45 millj., sem togararnir fengu í fyrra, því að taprekstur togaranna var 100 millj. að þeim 45 millj. frádregnum og raunar 37.5 millj. kr. til viðbótar úr aflatryggingasjóði. Vandamálið er þetta 100 millj. kr. tap í fyrra og spá um annað eins tap á þessu ári. Ég hygg, að það þurfi ekki loforð ríkisstj. um að greiða alla þessa upphæð og ég er ekki að gera það að till. minni. En ég tel það skyldu ríkisstj. og ráðherra að horfast í augu við þetta vandamál og gera ásamt útgerðarmönnum sundurliðaðar till. um lausn ákveðinna vandamála í rekstri togaranna, sem útgerðarmenn hafa bent á og gætu stuðlað að því, að togararnir yrðu gerðir út af fullum krafti. Þetta hefur ríkisstj. ekki gert. Þetta hafa hæstv. ráðherrar látið undir höfuð leggjast. Í tvo mánuði hafa togararnir verið bundnir við bryggju, vegna athafnaleysis og úrræðaleysis ráðherranna fyrst og fremst.

Það hefur verið á það bent áður í umr. á Alþ. um togaraverkfallið, að þegar þessir hæstv. ráðh. eru í stjórnarandstöðu, telja þeir skyldu ríkisstj. og sérstaklega hæstv. sjútvrh. að leysa togaraverkfall. Ég er ekki sömu skoðunar og þeir að öllu leyti að verkföllin séu endilega alltaf ráðherrum eða ríkisstj. að kenna. Við verðum að treysta á frjálsa samninga aðila vinnumarkaðarins í lengstu lög. Ég er þess vegna ekki eins fljótur til og þessir menn hafa verið í stjórnarandstöðu að kenna þeim eða ríkisstj. um allt, sem miður fer, eða öll verkföll, sem gerð eru. Ég bendi aðeins á, að þetta er þeirra dómur, þegar þeir eru í stjórnarandstöðu. Slíkur dómur í stjórnarandstöðu skapar skyldur, þegar sömu menn eru sestir í stjórnarstólana. Undan þeirri skyldu hafa þeir vikizt, þeirri ábyrgð hafa þeir brugðizt.

Það er svo athyglisvert, að hæstv. sjútvrh. sagði í umr. um þetta mál á Alþ. fyrir mánuði, með leyfi forseta: „Það er vitanlega alveg út í loftið að segja, að í sambandi við þetta verkfall hafi verið um einhvern seinagang að ræða hjá sjútvrh. Sjútvrh. ræður ekki gangi þessa verkfalls.“ En þessi hæstv. ráðherra og flokksmenn hans fáruðust yfir því fyrir tveimur árum, eftir tveggja vikna verkfall á togaraflotanum, að þáv. sjútvrh. gripi ekki í taumana. Þá sögðu bandamenn þessa hæstv. ráðherra, að það væri refsivert af hálfu stjórnarinnar að leysa ekki verkfallið. Og þá þótti þessum hæstv. ráðherra ekki gott að vera hrósað fyrir það, að á fyrri vinstristjórnarárunum hefði ekkert verkfall verið á fiskiflotanum. Og blaðið sagði, að það hefði ekki verið vegna þess, að ekki hefði verið við vandamál að glíma. Nei, vandamálin voru nóg, en þau voru bara leyst. Og sá hinn reyndi og úrræðagóði lausnari var núv. hæstv. sjútvrh. En nú, eftir tveggja mánaða verkfall á togaraflota landsmanna, kemur hann hvergi nærri, þá er ekkert honum að kenna. Honum þykir lofið gott. En hann vill ekki taka þeirri gagnrýni, sem slíkt lof býður heim.

Ég hygg að það liggi ljóst fyrir, að meðferð þessa máls hafi verið með eindæmum. Það er líka einsdæmi, að löggilt er tilboð annars aðilans í vinnudeilu. Það út af fyrir sig er ámælisvert. Þau fordæmi, sem um er að ræða varðandi afskipti löggjafarvaldsins af vinnudeilum, sem ég játa, að eru yfirleitt neyðarúrræði, en geta engu að síður verið nauðsynleg og ég gagnrýni ekki út af fyrir sig nú eftir tveggja mánaða verkfall, — þau úrræði hafa byggzt annars vegar á því, að lausnin fengist með úrskurði sérstaks gerðardóms eða löggilt væri miðlunartill. sáttasemjara. Hæstv. félmrh. sagði, að hið síðara væri útilokað í þessu tilviki, vegna þess að sáttasemjari hefði ekki treyst sér til að koma fram með miðlunartill., sem báðir aðilar samþykktu. Það kann vel að vera. Ef báðir aðilar hefðu samþ. miðlunartill., hefði ekki verið þörf á lögbindingu hennar. Það hafa hins vegar verið fordæmi fyrir því, að miðlunartill. hafi verið lögfest, ef annar aðilinn hefur hafnað eða jafnvel báðir. Ég kann ekki nákvæm söguleg skil á því. Miðlunartill. sáttasemjara er ákveðin trygging fyrir því, að þeir, sem hafa fylgzt með vinnudeilu í einstökum atriðum, koma fram með samræmda, samhæfða lausn á kaup- og kjaradeilu. Ég tel alveg útilokað fyrir 60 menn á Alþ. að gera sér á einum og hálfum sólarhring, grein fyrir afleiðingum kjarasamninga eins og þeirra, sem nú er verið að löggilda og miða við tilboð annars aðilans. Hins vegar er verjandi að treysta á annars vegar úrskurð gerðardóms, hlutlauss gerðardóms eða miðlunartill. sáttasemjara, sem á að gæta hlutleysis. Þess vegna er reginmunur á þessum vinnuaðferðum og fyrri vinnubrögðum í sambandi við lagasetningu um lausn kjaradeilna.

Ég skal ekki, herra forseti, lengja þessar umr. hér við þessa 1. umr. málsins. Ég geri ráð fyrir því, að við sjálfstæðismenn flytjum sömu till. og flokksbræður okkar í Nd. að lokinni meðferð málsins í n. En mig langar að lokum að spyrja hæstv. ráðh. eftirfarandi spurninga:

Í fyrsta lagi: Eins og kunnugt er, var gengið frá fiskverði um áramótin og rekstrargrundvelli bátaflotans með ákveðnum ráðstöfunum, sem munu hafa a. m. k. 160 millj. kr. útgjöld í för með sér á ársgrundvelli fyrir ríkissjóð eða samsvarandi fjárskuldbindingar. Hvernig ætlar hæstv. ríkisstj. að standa undir fjáröflun til þess að standa við þær skuldbindingar?

Í öðru lagi spyr ég: Að atbeina hæstv. ríkisstj. í sambandi við frágang samninga við undirmenn mun hafa verið lofað fjárstuðningi úr ríkissjóði að upphæð, að því er mér hefur verið tjáð, um 17–18 millj. kr. á ársgrundvelli. Upplýst hefur og verið, að í sambandi við þetta lagafrv., sem hér er um að ræða, og yfirlýsingu hæstv. sjútvrh. og hæstv. fjmrh., sem er fskj. með þessu frv., sé stofnað til um 7–8 millj kr. útgjalda fyrir ríkissjóð, eða samtals um 25 millj. kr. útgjalda fyrir ríkissjóð. Hvernig hugsar ríkisstj. að afla þess fjár, og með hvaða hætti verður það borið undir Alþ?

Í þriðja lagi spyr ég, og það er e. t. v. meginatriði málsins: Með hvaða hætti ætlar hæstv. ríkisstj. að ganga til móts við þær óskir, sem fram hafa komið af hálfu togaraútgerðarinnar í landinu um, að ríkissjóður taki þátt í taprekstri hennar á síðasta ári að upphæð 100 millj. kr. og tryggi togaraútgerðinni með einhverjum hætti fjármagn til að standa undir hluta af því tapi, sem spáð er sömu upphæð, öðrum 100 millj. kr. á þessu ári?

Varðandi síðustu spurninguna ítreka ég og endurtek, að þrátt fyrir það, að togaraútgerðin hafi ekki verið rekin með hagnaði og ekki safnað sjóðum á undanförnum árum eða áratug og sé þess vegna allsendis ómegnug að standa undir þessu tapi síðasta árs og því tapi, sem spáð er á þessu ári, hygg ég, að unnt sé að koma togurunum á flot með lægri fjárhæð en þessum 200 millj., sem vandamálið í rauninni er. Hvað ætlar ríkisstj. að gera í þessu efni? Fyrr en það svar liggur fyrir, er það vandamál, sem við er að etja, að togararnir séu bundnir við bryggju, ekki leyst.