22.03.1973
Efri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2725 í B-deild Alþingistíðinda. (2071)

206. mál, kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég tek undir þá skoðun manna, sem fram hefur komið, að stöðvun togaraútgerðarinnar hafi staðið lengur en forsvaranlegt sé, og þegar slíkt ástand hefur skapazt, sem nú á sér stað, þá verði Alþ. að láta málið til sín taka og finna þá lausn, sem aðilar geta eftir atvikum sætt sig við.

Það liggur fyrir, að útgerðarmenn töldu sig ekki geta gengið frá samningum við yfirmenn, fyrr en fyrir lægi, hvers konar stuðnings væri að vænta af hálfu hins opinbera. Og ástæðan fyrir því er sú, að ríkisstj. hafði gefið óljós fyrirheit um aðstoð til að fá grundvöll fyrir útgerðina. Það segir sig sjálft, að eftir því sem meira vantar á það hjá togaraútgerðinni, að tekjur hennar í beinu sambandi við útgerðarkostnaðinn nægi til þess að standa undir honum, þá er útgerðarmönnum meiri vandi á höndum í sambandi við gerð nýrra kjarasamninga, sem fela í sér stóraukin útgjöld. Hins vegar er öllum fyrir löngu orðið ljóst, að kjaradeila sú, sem þetta lagafrv. á að leysa, hefur staðið lengur en svo, að við verði unað frá þjóðhagslegu sjónarmiði.

Hitt er svo annað mál með hvaða hætti mál þetta ber að, og þau vinnubrögð, sem hæstv. ríkisstj. hefur við lausn deilunnar. Það mun algert einsdæmi, að löggjafinn hafi blandað sér í vinnudeilu á þann hátt, sem hér er gert. Það er lögfest tilboð annars aðilans eins og það lá fyrir á síðasta samningsfundi, eins ag sagt er í grg. fyrir frv. Þegar það er haft í huga, að ríkisstj, hafi áður haft þau afskipti af kjaradeilunni að skipa sáttanefnd í málið, þá virðist vera augljóst mál, eins og jafnan áður, þegar eins hefur staðið á, og útséð hefur verið um, að frjálsir samningar tækjust, þá hafi að lokum verið borin fram sáttatill. eða málamiðlunartill., og nái slík till. ekki samþykki, er að sjálfsögðu eðlilegra að lögfesta þá till. og ljúka málinu á þeim grundvelli.

Nú hefur það komið fram í umr. um þetta mál, að ríkisstj. hafi ekki getað fengið af hendi sáttasemjara neina slíka till. í þessu máli. Það kann vel að vera. Ég skal ekki rengja hæstv. félmrh. um það, að málið hafi verið þannig vaxið í augum sáttasemjara eða sáttanefndar, að hún hafi ekki getað fengið till. frá n. í þessu máli. En til þess að bregða þá ekki út af venjulegum vinnubrögðum átti ríkisstj. vitanlega að velja hinn kostinn, sem hafður hefur verið við lausn slíkra mála, en það er að setja málið í gerð dómbærra manna með oddamanni frá hæstarétti til þess að skera úr um það. Það er algengt, að slíkt sé gert og þess er skemmst að minnast, þegar deila átti sér stað nú um áramótin við vélstjóra í frystihúsunum, þá var sú deila leyst með samkomulagi um gerðardóm. Það er ýmist, að samkomulag milli deiluaðila um að skipa slíkan gerðardóm, eða þá að hið opinbera hlutast til um, að slíkur gerðardómur sé settur. Það er sú till„ sem sjálfstæðismenn flytja við lausn þessa máls.

Ég vil segja að slíka yfirlýsingu sem hér hefur komið fram af hendi ríkisstj. og stjórnaraðila sé alveg ástæðulaust að taka alvarlega því að ef það er rétt, sem hér hefur verið haldið fram, að slík miðlunartill. hafi ekki fengizt, þá átti vitanlega að fara hina leiðina, sem ég hef minnzt á. Ef það er haft í huga, að það eigi að reyna að miðla málum þannig, að báðir aðilar geti eftir atvikum sætt sig við niðurstöðuna, þá er það vitanlega alveg út í bláinn að taka till. annars aðilans og lögfesta hana, en fara ekki millileið, sem metin væri af dómkvöddum mönnum.

Um það, hvort þau kjör, sem yfirmenn á togurunum hljóta samkvæmt þessum samningum, eru sanngjörn eða ekki, tel ég mig ekki geta dæmt. Mér hefur alla tíð verið það ljóst, að sjómenn þurfa og eiga að búa við góð kjör miðað við það, sem á sér stað í landi. En því miður hefur sá grundvöllur, sem þessi höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar hefur átt við að búa, verið of þröngur, — það hefur ekki verið á færi sjávarútvegsins að keppa um vinnuafl það, sem hinar ýmsu þjónustugreinar í landi hafa boðið í og vinnuaflið sækir nú til í æ ríkara mæli.

Áður en ríkisstj. tók þá ákvörðun að lögbinda þau kjör, sem í frv. þessu eru, hafði hún upplýsingar um það frá sinni eigin stofnun, þ. e. hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins, að hallarekstur togaraútgerðarinnar á s. l. ári væri um 181 millj. 500 þús. kr., áður en til kæmu bætur úr aflatryggingasjóði og framlag ríkissjóðs, sem nam samtals á árinu um 82 millj. kr. Nettómismunurinn verður því 99 millj. Samkvæmt niðurstöðum sömu stofnunar er spá hennar sú, að heildartapið á yfirstandandi ári muni nema 176 millj. kr., en þá niðurstöðu fær stofnunin miðað við óbreytta samninga. Hvað hallinn verður mikill, þegar miðað er við tilkomu hinna nýju kjarasamninga, er að sjálfsögðu ekki búið að reikna út. En það eru þessar afkomuhorfur, sem blasa við togaraútgerðinni, þegar gengið er að samningaborðinu við sjómannasamtökin, þar sem nýjar kröfur koma fram um bætt kjör þeim til handa.

Nú hafa forsvarsmenn ríkisstj. og hæstv. félmrh. haldið því fram hér, að útvegsmenn þurfi ekki að kvarta í þessu máli, vegna þess að ríkisstj. hafi boðizt til að greiða það, sem á milli ber, 6–7 millj. kr. Það sjá allir heilvita menn, að ef það, sem um væri að ræða í þessari samningagerð, væri ekki nema 6–7 millj. kr., þá væri fyrir löngu búið að ná endum saman og semja í þessari kjaradeilu. Það er vitanlegt, að þegar útgerðarmenn höfðu boðið sitt lokaboð, þá hafa þeir gefið sér vissar vonir í sambandi við þau fyrirheit, sem hæstv. forsrh. var búinn að gefa um fjárhagslegan stuðning. Ef það hefði verið aðeins um þessar 6–7 millj. að ræða, sem hér hefur verið haldið fram, að ríkisstj. ætli að brúa, og þess vegna hafi verið ástæðulaust fyrir útgerðarmennina annað en að ganga að þessu samningstilboði, sem fyrir lá, þá horfði málið náttúrlega allt öðruvísi við. En dæmið er því miður miklu stærra. Þessi atvinnurekstur er í svo mikilli óvissu um sína afkomu, að honum er vissulega vorkunn, þegar hann þarf að standa í samningum við sjómannasamtökin um kjör þeirra. Að sjálfsögðu þekkja engir frekar en útgerðarmennirnir sjálfir, að þeim er nauðsynlegt að geta greitt starfsmönnum sínum betur en starfsgrundvöllur þeirra hefur leyft, til þess að þeir fái sambærileg laun við það, sem á sér stað hjá öðrum stéttum, þar sem um er að ræða miklu léttari og auðveldari störf en sjómannastörfin eru.

Ég skal ekki tefja afgreiðslu þessa máls með langri ræðu. En ég vil að lokum segja, að eins og nú horfir, er ekkert sýnilegra en að með lögfestingu þessa frv. sé togaraútgerðin skilin eftir í algerri ófæru og það muni fljótlega koma í ljós, að hún á engra kosta völ annarra en að hafa skipin áfram bundin við landfestar um ófyrirsjáanlega framtíð, nema til komi verulega aukinn stuðningur af hendi hins opinbera eða á annan hátt. Munu ráðamenn þjóðarinnar komast að raun um það áður en langt um líður, að ástandið er mjög alvarlegt, og útgerðin er ekki fær um að halda skipunum úti, nema til komi verulega aukin aðstoð frá hinu opinbera og það umfram það, sem þegar hafi verið opinberlega a. m. k. gefin fyrirheit um.

Nú vita allir, að útgerðin verður að sækja undir viðskiptabanka sína um fjármagn til áframhaldandi rekstrar. Og hver láir viðskiptabanka það, þó að hann hiki við að veita mikla fjármuni til þess atvinnuvegar, þegar fyrirsjáanlegt er samkv. gerðum athugunum af hendi opinberrar stofnunar, að um stórfelldan hallarekstur verði að ræða? Hver láir slíkri lánastofnun, þótt hún hugsi sig um, áður en hún veitir miklu fjármagni út í slíkan atvinnurekstur?

Ég endurtek, að það er mín skoðun, að þó að annar málsaðilinn sætti sig við niðurstöðu frv. og það, sem að þeim snýr, þ. e. a. s. yfirmennirnir, þá sé ástandið lítið betra hvað snertir atvinnuveginn í heild, að reksturinn haldi áfram, skipin verði gerð út, heldur en þótt vélstjórarnir og yfirmennirnir hefðu neitað að ganga um borð í skipin. Það er ekkert við skipshafnir að gera á þau skip, sem verða bundin við landfestar og hafa ekki grundvöll til þess að fara á veiðar, vegna þess að ekki er fyrirsjáanlegt, að þeir, sem eru forsvarsmenn fyrir útgerðinni, sjái fram á, að þeir geti staðið í skilum við þá menn, sem þeir eru að semja við eða ráða á skip sín. Ástandið er eins og ég hef lýst. Hæstv. ríkisstj. verður að horfast í augu við það og aðrir þeir, sem hafa haft hönd í bagga að afgreiða þetta mál á þennan hátt.