22.03.1973
Neðri deild: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2729 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

Umræður utan dagskrár

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Í upphafi þingfundar í gær kvaddi hv. 1. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, sér hljóðs utan dagskrár og gerði að umtalsefni, að frv. um breyt. á l. um Landhelgisgæzlu Íslands hefði ekki verið afgreitt úr hv. allshn. Af svörum formanns allshn., hv. 4. landsk., mátti ráða, að ástæðan væri sú, að ekki hefði borizt svar frá forstjóra Landhelgisgæzlunnar, Pétri Sigurðssyni, við fyrirspurnum sem til hans hafði verið beint og óskað eftir skriflegum svörum. Nú ætla ég ekki að deila á hv. formann. Ég veit, að formaðurinn sagði þetta eftir beztu vitund. En það kom fram í ræðu formannsins í gær að hann var fjarverandi þingstörf fyrir jólin. Ég vildi ekki taka þátt í þessum umr. í gær vegna þess að ég var ekki alveg viss um, að ég myndi gang mála rétt, en nú hef ég kynnt mér málið og tel nauðsynlegt að koma hér að leiðréttingum.

Mál þetta hefur verið tekið fyrir á 4 fundum allshn., fyrst þann 7. nóv., og þá var ákveðið að fá til viðtals við n. ráðuneytisstjórann í dómsmrn., Baldur Möller, og forstjóra Landhelgisgæzlunnar, Pétur Sigurðsson. Þeir komu á fund nefndarinnar 14. nóv. og þá, er gerð svo hljóðandi bókun: „Gestir sátu fyrir svörum.“ Síðan er bókun 12. des., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Stefán Valgeirsson skýrði frá því, að hann hefði ítrekað beiðni n. til forstjóra Landhelgisgæzlunnar um kostnaðaráætlun fyrir nýtt varðskip og fyrir endurbætur í landi. Ólafur G. Einarsson og Halldór Blöndal óskuðu eftir því, að afgreiðslu málsins væri hraðað, þannig að það kæmi fyrir Alþingi fyrir afgreiðslu fjárlaga.“ Síðan er engin bókun um þetta mál fyrr en á 14. fundi, nú fyrir rúmri viku, að ég spurðist fyrir um afgreiðslu málsins. Var þá ákveðið að fresta umræðum um það til næsta fundar, eins og kom fram í gær hjá hv. 4. landsk. þm. Það, sem aftur á móti gerðist, var það, að forstjóri Landhelgisgæzlunnar sendi, — ég veit ekki, hvort hann sendi n. eða varaformanni n., hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, bréf frá danska fyrirtækinu Alborg Værft, sem smíðaði Ægi, og í því bréfi, sem dags er 30. ágúst 1971, þá kemur fram, að byggingarkostnaður skips, sem er systurskip Ægis, yrði þá 22 millj. danskra króna, en Ægir kostaði á sínum tíma rúmlega 13.8 millj. danskrá króna. Hækkunin hafði þá orðið tæp 59%.

Þetta voru þær upplýsingar, sem forstjóri Landhelgisgæzlunnar lét í té. Það getur svo verið matsatriði, hvort þessar upplýsingar hafi þótt nægjanlegar eða ekki. Ég vil þó geta þess, að þetta sama bréf fékk hv. fjvn. í hendur frá forstjóra Landhelgisgæzlunnar, þegar í þeirri n. var til afgreiðslu till. til þál. um eflingu Landhelgisgæzlunnar, till. frá ríkisstj., sem var samþ. hér á sínum tíma, skömmu fyrir jól.

Ég held, að ég verði að segja það alveg eins og er, að það, sem olli því, að þetta frv. var ekki afgreitt fyrir afgreiðslu fjárlaga var það, að hv. stjórnarliðar töldu ekki liggja fyrir nægilega ítarlegar upplýsingar um það, hvað varðskip kostaði. En það verður líka að segja það, að þetta verður að metast sem fyrirsláttur einn. Það, sem þarna var um að ræða, var það, að í frv. var gert ráð fyrir, að farið væri að safna í sjóð til þess m. a. að byggja varðskip og til þess að kaupa tækjabúnað fyrir Landhelgisgæzluna til gæzlu fiskveiðilandhelginnar og björgunarstarfa, svo og til þess að byggja yfir Landhelgisgæzluna í landi. Frv. gerði ráð fyrir að árlegt framlag ríkissjóðs yrði 75 millj. kr. Það gat ekki skipt höfuðmáli í þessu sambandi, hvað nýtt varðskip mundi kosta. Það lá alveg ljóst fyrir, að slík upphæð yrði ekki veitt á fjárl. ársins 1973.

Ég taldi nauðsynlegt að koma þessari leiðréttingu hér að, vegna þess að af því, sem fram kom hér í gær og í fréttum Ríkisútvarpsins, bæði hljóðvarps og sjónvarps, mátti ráða, að það, sem væri því valdandi, að frv. hefði ekki fengið afgreiðslu, væri, að beðið væri eftir umsögn eða upplýsingum frá forstjóra Landhelgisgæzlunnar.