22.03.1973
Neðri deild: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2731 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins drepa á þá athyglisverðu staðreynd, að hæstv. forsrh. virðist þurfa að láta eigin flokksmenn, þ. á m. hv. þm. Stefán Valgeirsson, sem er varaformaður í þeirri n., sem hér hefur komið til umræðu, og gegndi formannsstörfum, þegar málið var til umræðu vita um það, hver sé yfirmaður þessara mála og hvert hann eigi að snúa sér í leit að upplýsingum, og þess vegna sé allt fyrirsláttur, sem hann hafði hér fram að færa í sambandi við þetta mál. Þá ætti auðvitað hæstv. forsrh. að vita í sambandi við þau mál, sem hann flytur, að það er ákaflega auðvelt fyrir hann að leita til eigin stuðningsmanna í téðri nefnd, þar mun vera meiri hl. þeirra, svo að óþarft er að blanda stjórnarandstöðuþingmönnum inn í þetta mál.