22.03.1973
Neðri deild: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2736 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

74. mál, vélstjóranám

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil mjög óska eftir því, að sú n., sem hefur haft með mál þetta að gera, taki það til nánari athugunar. Það er atriði, sem ég hef átt viðræður við nokkra þdm. um, að þyrfti nánari athugunar við. Er það 2. mgr. 1. gr. Áður en ég skýrir mál mitt frekar, vil ég taka það strax fram, að ég er mjög hlynntur því, að þetta frv. nái fram að ganga, og ég tel, að það geti hjálpað mjög til að leysa þann vanda, sem búið er við á fiskiskipaflota okkar. Þá á ég við undanþáguvandann, bæði í sambandi við mál vélstjóra og skipstjórnarmanna. En í 2. mgr. segir, að námskeiðin skuli „haldin á sama tíma og kennsla fer fram í Vélskóla Íslands í Reykjavík“. Ég held, að það sé alveg rangt hugsað að hafa þetta ákvæði þarna, því að ég er sannfærður um, að á mörgum þeirra staða, sem eru taldir upp í frv. gr., eru ekki þeir menn, sem hæfastir eru til að kenna á slíkum námskeiðum. Ég hefði talið, að þetta ætti að vera óbundið um tímann, hvenær þessi námskeið eru haldin, enda gæti það líka verið hagsmunaatriði fyrir þá, sem við eiga að búa, að þau verði t. d. ekki haldin á hávertíðinni.

Þá má enn fremur geta þess, að mér finnst ærin ástæða til þess að lagfæra nokkuð orðalagið á 1. mgr., meðfram vegna náttúruhamfaranna í Vestmannaeyjum, en hér er ætlað, að þar verði slík námskeið haldin. Nú vitum við, að allmargir eða flestir þeirra sjómanna, sem þaðan stunda sjó, stunda nú fiskveiðar frá höfnum á Suðurnesjum, og tel ég ástæðu til að kanna það, hvort ekki ætti að setja þarna inn í ákvæði um annaðhvort Grindavík eða Keflavík.

Ég vil óska þess, herra forseti, að málinu verði frestað og n. athugi þessar ábendingar mínar.