22.03.1973
Neðri deild: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2741 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Því hefur löngum verið haldið fram, að hæstv. heilbrrh. væri ákaflega samúðarfullur í ræðum sínum, þegar hann ræddi um mál aldraðra, öryrkja og sjúkra, og persónulega er ég þess nær fullviss, að hann er svo samúðarfullur í þessum ræðum sínum að eigin mati, að hann hágrætur, þegar hann les þessar ræður sínar í þingtíðindum. En hins vegar, ef eitthvað er gjóað í frv. hans og mál, þá gægist alltaf hroki embættismannsins og mannsins, sem vit hefur á öllu, í gegnum tal hans um þessi sömu mál. Yfirleitt hefur mátt sjá það á þeim málum, sem hann hefur flutt, að mat hans er, að raunverulega hafi ekki nokkur maður í þessu þjóðfélagi vit á neinu í sambandi við þessi mál nema hann.

Nú vitum við, og það vitum við sérstaklega, ég og hv. þm. Björn Pálsson, að maðurinn er afskaplega vel gefinn, eins og okkur ber báðum saman um, og verður sízt dregið úr því. En nokkuð er það, þegar hann kemur hér fram fyrir hv. þd. og fer að gagnrýna brtt., sem við flytjum við frv., að nm leið og hann hefur lokið aðfinnslum við brtt. okkar við eina gr., þá stangast næsta gr. í hans eigin frv. gersamlega á við þan orð, sem hann er að enda við að segja hér. Má ég aðeins biðja hv. þm. að taka upp frv. og brtt. Hann talar um í 2. gr., að brtt. okkar geti ekki staðizt, og fer þar mörgum orðum um, að við séum að draga úr opinberu eftirliti í sambandi við rekstur, við séum að draga úr eftirliti með heilbrigði og frágangi á stofnunum og daglegum rekstri. Þetta var um 2. gr. En hvað stendur svo í 3. gr.? Þar stendur t. d. í síðustu mgr., með leyfi forseta: „Ráðh. veitir því aðeins leyfið, að stofnunin fullnægi heilbrigðiskröfum og ætla megi, að hún geti leyst verkefni sitt á viðunandi hátt“ o. s. frv. Og í byrjun þessarar sömu gr., 3. gr., segir: „Beiðni til ráðh. til rekstrarleyfis samkv. 2. gr.“ o. s. frv. Við erum ekki að gera neinar brtt. við það, að hæstv. ráðh. Magnús Kjartansson geti gefið þessi leyfi. Við teljum hins vegar, að það andi í gegnum allar gr. frv. of mikilli afskiptasemi hins opinbera af þessum málum, og þrátt fyrir það að ég mæli eindregið með samþykkt frv., hvort sem þessar brtt. mínar verða samþykktar eða ekki, og ég telji jafnframt frv. til bóta, eins og ég hef margtekið fram, þá vil ég benda hæstv, ráðh. á, að það hefur verið unnið að þessum málum, áður en hann tók við þessu embætti í rn., þótt hins vegar forverar hans í sama embætti hafi lítið gert til þess að koma áleiðis þessu máli í sambandi við dvalarheimilin, það skal viðurkennt.

Hann telur alveg ótækt hjá okkur að leggja til, að í 3. gr. verði nokkuð breytt um orðalag, og minnist m. a. á, að út úr þessu frv megi alls ekki taka ákvæði, sem hann vill láta vera í frv., að þegar bygging hefjist, komi fram í grg., með hvaða kjörum menn eigi að búa á heimilinu. Nú hefur þetta áður komið fram í viðskiptum mínum við hæstv. ráðh., þegar ég hef fullyrt við hann og hans embættismenn : Þetta er algerlega útilokað einfaldlega vegna þess, að í flestöllum tilfellum í sambandi við slík ákvæði er það ríkisvaldið, sem hefur langstærstu áhrifin á þetta á hverjum tíma, og þær breytingar, sem verða vegna afskipta ríkisvaldsins á þessum kjörum, eru alltíðar og taka stundum stórbreytingum á mjög skömmum tíma, sbr. þau spor, sem stigin voru í sambandi við bæði vinnutímastyttingu að ráði núv. ríkisstj. og reyndar samningar sem á eftir urðu milli stærsta aðildarfélags þeirra, sem að vinna, og fulltrúa ríkisstj., sem fer með samninga við ríkisspítalanna. Slíkar stofnanir hafa til þessa ekki haft neina fulltrúa í samningum, þannig að þetta stenzt alls ekki hjá ráðh. Ég álít að það sé ekki í einu eða neinu dregið úr þeirri hugsun, sem hæstv. ráðh. ætlast til, að fram komi. En ég vil hins vegar benda á, að við ættum að strika það þegar út, sem er óframkvæmanlegt og hrein vitleysa.

Við 4. till. hafði hann einnig mikið að athuga og leyfði sér að segja, að við værum með þessu að hafa á móti eða vildum ekki fá ákvæði inn í frv. um lágmarksfjölda starfsliðs. Um þetta segir auðvitað ekki neitt í frv. hæstv. ráðh., hvað starfsliðið eigi að vera margt. Það segir ekkert um það, þótt hann tali í ræðu sinni um lágmarksfjölda. Ég segi og við flm. í okkar brtt. og leggjum til, að niður verði látin falla orðin „svo og um starfslið dvalarheimilis“ í 6. gr., vegna þess m. a. að þetta getur breytzt t. d, frá degi til dags, eins og þegar stórbreytingar verða á samningum milli verkalýðsfélags og þeirra, sem reka viðkomandi stofnun. Það mundi í flestum tilfellum verða til fjölgunar, geri ég ráð fyrir, samkv. þróun tímans. Hins vegar er líka hægt að hugsa sér að fækka starfsliði, og ef það er hægt, án þess að það skerði á nokkurn hátt þá þjónustu, sem vistmenn eiga vissulega kröfu á, þá sé ég enga ástæðu til þess að vera að binda það í lögum eða í reglugerð, að það sé ætlazt til einhvers ákveðins fjölda. Auk þess hafa komið fram ýmsar hugmyndir í okkar þjóðfélagi á undanförnum árum, — og m. a. hafa þær komið fram vegna starfs, sem hefur verið unnið á vegum rn. hæstv. ráðh., — um það, að betur mætti nýta sumt af því starfsliði, sem hvað vandfengnast hefur verið til þess að gegna ákveðnum störfum á heilsugæzlusviði.

Og þá getum við farið aftur í 5. brtt. okkar. Þar erum við með brtt. um að fella út, að það sé skylt að ráða sérstakan fastráðinn heimilislækni. Hugmyndir hafa verið uppi um, — og veit ég um einn aðila, sem ætlar að byggja mjög stórt slíkt heimili, — að þar verði til hliðar, jafnvel í sama húsi, læknamiðstöð, sem þjóni fleiri slíkum heimilum og íbúðarhverfum nágrennisins um leið. Ef ekki er um sjúkt fólk á slíku heimili að ræða, er auðvitað í sjálfu sér engin ástæða til þess að vera að borga um 2 millj. kr. á ári til þess að hafa slíkan mann að störfum. Það er vel hægt að hugsa sér, að lausn á þessum vanda megi finna á annan hátt. Ef ekki, þá verða þessi mál ráðin á annan hátt. Það er reginmisskilningur hins vegar að binda þetta í lög.

Hæstv. ráðh. fór mörgum harmþrungnum orðum um þá brtt. okkar, að vistmenn ættu aðeins setu á stjórnarfundum, þegar þeirra mál væru til umr., þeirra hagsmunamál. Hann fór mörgum orðum um það, að við værum að takmarka með þessu rétt vistmanna. Ég vil aðeins segja, eins og ég reyndar gerði, þegar ég mælti með brtt., að það er langt frá því, að það sé verið að þessu. Hins vegar bendi ég hæstv. ráðh. á, að bæði hér á landi og annars staðar finnast heimili þar sem má heita, að 99% af vistfólki séu rúmliggjandi. Kannske væntanleg stjórn á slíku heimili eigi að fá rúm líka og láta leggja sig inn á stofu hjá viðkomandi aðila og hafa fundi þar. Það getur líka komið fyrir agaspursmál á stjórnarfundum, eins og ég gat um. Það getur verið gagnvart vistfólki eða gagnvart starfsfólki. Það getur verið mjög óréttlátt að hafa óviðkomandi aðila, sem eru ekki bundnir neinum sérstökum trúnaði, eins og venjulega er um stjórnarmenn, sem hafa t. d. með stjórn fjármála að gera eða verða að hafa, að vera að leggja það á gamalt fólk að búa við slíkt. Hins vegar er ég alveg á því, að þegar verið er að ræða bæði um félagslegan aðbúnað og annan aðbúnað fólksins á heimilinu og reyndar um fjármál líka, sem það varðar, þá beri því að fá sæti á fundum stjórnar. En ég er því ekki sammála að hafa það skilyrðislaust.

Ráðh. hafði líka allt á hornum sér um till. okkar um það, sem honum hefur augsýnilega láðst að setja inn í frv., um rétt starfafólks, sem auðvitað ætti ekki að vera minni en vistfólks í sambandi við fundarsetu á stjórnarfundum.

Þá hafði hæstv. ráðh. einnig mikið á móti þeirri brtt. okkar, að við teldum ekki upp eða breyttum orðalaginu í sambandi við ráðningu starfsmanna. Ég tel, og ég tel mig geta sagt það af reynslu fleiri heimila hér á landi, að það sé auðvitað alveg útilokað annað en að stjórn, sem ber ábyrgð á fjármálum slíkra stofnana, fylgist með og sjái um ráðningu stjórnenda. Í flestum tilfellum eru stjórnendur ráðnir á sérsamningum, sem ekki falla undir samninga almennra verkalýðsfélaga, og það þarf að gera sérsamninga við slíka menn. Án þess að vera að væna neina, væntanlega forstöðumenn um, að þeir gegni ekki stöðu sinni í þessu efni, vil ég aðeins benda á, að í stjórnunum eru þó a. m. k. alltaf 3 menn og allt að 5. Það hlýtur að vera meira öryggi fyrir þá, sem hagsmuna eiga að gæta í sambandi við gerð slíkra samninga og undirskrift, að þeir séu allir þar til ráða og viðstaddir, þegar slíkir samningar eru gerðir. Að sjálfsögðu dettur engum annað í hug en átt sé fullt samstarf við slíka æðstu stjórnendur um ráðningu alls starfsfólks. Ég held, að stjórnendur deilda í slíkum stofnunum hafi yfirleitt að gera með ráðningu fólks í sína deild, nema um sérstakar ráðningarstofnun sé að ræða eða ráðningarstjóra, sem hafi með þau mál að gera, þannig að það eins og fleira í ræðu hæstv. ráðh. er algerlega út í hött að mínu mati.

Um 6. brtt. okkar, við 7. gr., fór hæstv. ráðh. mörgum orðum, að við værum með till. að fella niður ákvæðið um, að sveitarfélagi væri skylt að veita styrk. Þá værum við um leið að gera heimild til annarra að skyldu. Þetta er alrangt hjá ráðh. Það er auðvitað engin skylda, sem fylgir þessari gr., því að það er þegar tekið fram fyrr í frv., í 2. gr., að það megi enginn setja á stofn eða reka dvalarheimili nema með leyfi ráðh. Hitt er annað mál, að það vakir fyrir okkur, og ég held, að það sé nægilega skýrt, að sama rétt og sveitarfélag eigi vissir viðurkenndir aðilar að fá. Viðurkenndir af hverjum? T. d. viðurkenndir af Alþ. með fjárframlögum eða viðurkenndir af ráðh. Hefur hvorki komið fram í máli mínu né í þessum brtt., að þar sé átt við einhvern Jón Jónsson. Ég bendi á ákveðna aðila, sem geti orðið viðurkenndir. Það er t. d. Alþýðusamband Íslands. Ég veit, að það er fjarri hæstv. ráðh. í dag að veita því slíka viðurkenningu. Má vera, að það sé þess vegna, að hann vilji ekki verða við þessari till. okkar. En má ég enn fremur benda á það, eins og ég hef hér gert áður, að stéttarsamtök bænda hafa byggt glæsilegt stórhýsi í Reykjavík, sem að vísu er nýtt til hótelrekstrar. Það er ekki að vita nema þessir aðilar gætu hugsað sér í samráði og samvinnu við önnur samtök bænda að koma upp — ekki einu slíku heimili, heldur fleirum, ekki hér í Reykjavík, heldur út um land. Ég sé enga ástæðu til annars en slíkur aðili ætti sama rétt, skylduréttinn, eins og sveitarfélög, því að þau hafa kannske hvað sízt, fyrir utan Akureyri, Hafnarfjörð og örfá önnur sveitarfélög og nú síðustu árin Reykjavík, verið flokkuð til fyrirmyndar í sambandi við þessi mál. Það eru aðrir aðilar, sem þar hafa verið að verki, og þó allt of fátæklega og of lítið. Í flestum greinum frv. er getið um nauðsyn þess að fá leyfi, annaðhvort heilbrigðisyfirvalda eða ráðh., en það er auðvitað alrangt að tala um, að það sé til nokkuð, sem heitir sjálfvirkt í sambandi við frv. þetta. Hins vegar tók ég það skýrt fram, að það þyrftu að vera ítarlegar áætlanir, sem lægju fyrir, áður en ráðh. veitti leyfi til þess að hefjast handa, og auðvitað verður að fyrirbyggja, að farið sé af stað víðs vegar af bjartsýnum áhugamönnum, sem hafa ekkert annað að byggja á en trúna á, að þeir séu að vinna að góðum málefnum. Það verður að liggja eitthvað meira til grundvallar. Það verður að vera möguleiki til fjármögnunar. Og ég fæ ekki séð, að það sé endilega skylt, að fyrirtæki, sem fái byggingarstyrk að 1/3 úr ríkissjóði, verði um leið skilyrðislaust undir algeru valdi heilbrrh. og falli undir öfl ákvæði um opinberar framkvæmdir. Að vísu má segja, að í flestum tilfellum sé um opinbera framkvæmd að ræða, ef t. d. sveitarfélag á í hlut, og reyndar þó að ekki sé sveitarfélag. Ef það er viðurkenndur aðili, má segja, að svo sé, og sjálfsagt að fylgja þeim reglum. Þær eru góðar og gildar, og eins og hæstv. ráðh, tók fram, hafa þær haslað sér völl á þann veg, að vel má fara eftir þeim. Það má vel vera, að okkar brtt. um ákvæði um ríkisframlagið séu óþarfar, m. a. vegna laga um opinberar framkvæmdir. En ég vil samt benda á það aðhald, sem hlýtur að vera fyrir ráðh. með því að hafa slík ákvæði í lögum. Það mundi máske koma í veg fyrir, að ráðh., sem í flestum tilfellum er pólitískt skipaður, færi að gefa loforð, sem enginn möguleiki væri á að efna.

Það kemur hvergi fram í frv. sú hugsun ráðh., að í því, sem kemur fram í c-lið 6. brtt., t. d. um skreytingu listaverka á lóð og húsakynnum, sé um opinbera framkvæmd að ræða, og þá liggur þessi heimild fyrir. En ég fæ ekki séð, að hægt sé að skikka aðra aðila til að taka þátt í þeim kostnaði, nema slík ákvæði séu í lögum, þá aðilana, sem leggja 2/3 til. Þess vegna tel ég, að það sé nauðsynlegt, að slík ákvæði séu í sjálfri löggjöfinni, vegna þess að þetta er nú almennt viðurkennt og ég viðurkenni, að svo þurfi þetta að vera hjá slíkum stofnunum.

Um önnur atriði í okkar brtt. hafði hæstv. ráðh. ekki neitt að athuga, nema hann fullyrti, að það stæði ekki á Tryggingastofnuninni að greiða fé það, sem óskað væri eftir. Vera má, að fjárhagur Tryggingastofnunar ríkisins sé orðinn slíkur í tíð núv. hæstv. heilbrmrh. að þetta sé alltaf til reiðu, þegar óskað er eftir. Ég man þá tíð, og ekki er mjög langt síðan það stóð mikið á þessum greiðslum. Og eina elzti og virtasti framkvæmdamaður á sviði þessara mála hér á landi bendir m. a. á þetta atriði í umsögn, sem hann sendi þinginu um þetta mál að ósk ráðh. og n. En það er eins með ábendingar hans og annarra aðila. Svarið er í beinu framhaldi af skoðun minni á hæstv. ráðh., ef þm. leyfa sér að gagnrýna frv. hans. Þótt fjöldi aðila hafi komið með ýmsar ábendingar við frv., þá hundzar Magnús kóngur þær allar, eins og þeir félagar yfirleitt gera, þegar þeir þurfa að tala við alþýðu manna eins og þm. og láta okkur skilja það í hverju orði, þegar þeir standa hér upp í ræðustól á Alþ., að vér ráðherrar höfum talað og okkar orð skulu blífa.