16.10.1972
Efri deild: 3. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

3. mál, bygging og rekstur dagvistunarheimila

Jón Árnason:

Herra forseti. Það var á s.l. hausti að við nokkrir sjálfstæðismenn höfðum undirbúið frv. til l. um aðstoð ríkisins við byggingu dagvistar- og dvalarheimilis fyrir börn. En þá var upplýst, að ríkisstj. hefði í undirbúningi frv. um sama efni. Ég átti þá tal við menn, sem voru í þeirri n., sem hæstv. ráðh. hafði skipað, og mér skildist, að það væri meiningin, að það frv. mundi koma það tímanlega inn á síðasta Alþingi, að það mundi vera tök á því, að frv. yrði að lögum og næði fram að ganga. Það leið svo fram á þingið, að ekki bólaði á þessu máli af hendi hæstv. ríkisstj. og því kom til þess, að ég ásamt nokkrum öðrum alþm. Sjálfstfl. flutti frumvarp um aðstoð þess opinbera við byggingu dagvistar- og dvalarheimila fyrir börn. Þessu frv. var vísað til n. og það sat þar. En rétt í þinglokin, eins og hér hefur verið bent á, kom svo frv. ríkisstj, um þetta efni og það seint á þinginu, að það var vitanlega engin von til þess, að málið næði fram að ganga.

Sá stuðningur, sem ríkið hefur veitt í þessu skyni að undanförnu, hefur verið sá styrkur, sem veittur hefur verið til rekstrarins sérstaklega í fjárl. og einnig nokkur byggingarstyrkur, sem hefur verið tekinn upp á fjárl. til einstakra bygginga dvalarheimila, en þar hefur aðeins verið um smáupphæðir að ræða, 75–100 þús. kr. í hvert skipti. Ég held, að það sé öllum ljóst, að hér er um mjög mikilsvert mál að ræða, og ég vil vona það, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi, en ef svo verður, þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt, að endurskoðuð verði sú fjárveiting eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, sú fjárveiting, sem ætluð er til þess í fjárl. En eins og fjárlagafrv. liggur núna fyrir, þá er það lítið megnugt til þess að koma þarna nokkuð á móti því, sem ætlað er, að felist í því frv., sem hér er lagt fram. Við skulum vona, að sú endurskoðun eigi sér stað og upphæðin verði hækkuð og frv. nái fram að ganga og lögin verði þá að tilætluðum notum.