26.03.1973
Neðri deild: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2762 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að fara að halda hér neina æsingaræðu. Enda þótt nú sé margt af gestum á svölum Alþ., mun það ekki breyta því, sem ég mun segja.

Ég vil í fyrsta lagi segja það, hvað sem hv. 1. þm. Sunnl. segir, þá er kaupmáttur launa meiri nú en hann hefur verið. Miðað við 100 1970 er hann 137.3 á þessu ári. Þetta eru staðreyndir, sem ekki verður á móti mælt með orðaglamri eða hávaða. Þegar þetta er metið af Framkvæmdastofnuninni, er tillit tekið til þeirra verðhækkana, sem þegar eru orðnar, og spáð um það, sem verður. Ég vil einnig minna á það, að á s. l. ári var afkoma þjóðarinnar góð. Þá var atvinna betri en nokkru sinni fyrr, svo hver vinnandi hönd hafði verk að vinna. Ég vil einnig minna á það, að sem betur fer var afkoma sveitafólksins þá einnig góð. Þessu eiga hv. þm. að gleðjast yfir, og ég treysti þeim til að gera það.

Ég vil minna á, að það sem liðið er af þessu ári hefur íslenzka þjóðin orðið fyrir stórfelldasta óhappi, sem hana hefur hent á síðari árum, eldgosið í Vestmannaeyjum. Þjóðin hefur sameinazt til átaka þar um. Það var till. stjórnarliða að reyna að mæta því átaki, sem þá þurfti að gera, með því að draga úr verðbólgu, en láta hana ekki vaxa. Það náðist hins vegar ekki samstaða um það hér á hv. Alþ., að slíkt yrði gert. Þess vegna var ekki hægt að fara fram á það við eina stétt öðrum fremur, að hún tæki á sig fjárhagslegar skuldbindingar vegna þessa áfalls, en mér skilst, að sumum hafi dottið í hug, að það ætti bændastéttin að gera. Launakjör hennar eru ákvörðuð af aðilum, sem eru ekki bændur einir, heldur einnig fulltrúar neytenda, og þau voru ákvörðuð með sameiginlegu áliti allra þeirra, sem að unnu. Það er því ekki um neitt að ræða annað en það að greiða í hlutfalli við þá verðlagsvísitölu, sem er, í hlutfalli við þann kaupmátt, sem er í landinu og er nú sem betur fer meiri en áður þrátt fyrir þessa hækkun.

Íslenzka þjóðin, hvort sem það eru húsmæður eða aðrir þegnar, hefur annað að gera þessa stundina heldur en að etja stétt gegn stétt. Þar þýðir ekkert orðagjálfur um, að sé til flokkur allra stétta. Þar er það raunveruleikinn einn, sem sannar, hvað er. Íslenzka þjóðin berst nú sameiginlega, að ég vona, á tveim vígstöðvum: Annars vegar við erlent ofurefli, þar sem eru átökin um landgrunnið í kringum land okkar. Við vitum allir, hvort sem við eigum heima í sveit eða við sjávarsíðu, að ef ekki tekst að vernda landgrunnið, ef ekki tekst að efla fiskstofninn og auka tekjur af fiskveiðum í landinu, þá hafa bændur ekki heldur góða afkomu. Þetta vita þeir einnig. Ef ekki tekst að efla gróðurinn í landinu, eins og nú er stefnt að, það lífbelti, sem er landið sjálft, þá hefur íslenzka þjóðin, hvorki til sjávar né sveita, góða afkomu. Einmitt á þessum tíma, þegar slíkir atburðir gerast, að við eigum í stórátökum við erlendar þjóðir vegna lífstilveru okkar, og þegar við eigum á sama tíma að berjast við náttúruhamfarirnar í beztu veiðistöð landsins, þá höfum við öðru að sinna heldur en reyna að egna stétt gegn stétt, ekki sízt þegar á það er litið, að kaupmáttur launanna er meiri, þegar mjólk er keypt eða smjör, heldur en áður hefur verið. Þess vegna finnst mér, að við eigum ekki að vera að stofna hér til neinna æsinga.

Við eigum að skoða þessi mál rólega, og við skulum gera okkur grein fyrir því, að landbúnaðarvörur hafa ekki hækkað meira en aðrar neyzluvörur. Þess vegna eigum við ekki með pólitískum æsingi að fara að reyna að egna til þess, að slíkar vörur verði ekki keyptar. Ég er líka sannfærður um það, að íslenzkar húsmæður, þegar þær hugsa þessi mál rólega, þá meta þær réttilega og vita, að hlutverk þeirra er annað en að taka þátt í æsingafundum. Þess vegna efast ég ekkert um það, þó að í dag sé nokkur hávaði í kringum þetta mál, þá stendur það ekki lengi, því að íslenzkar húsmæður eru þá orðnar á annan veg en þær, sem ég hef kynnzt um dagana, ef þær kunna ekki að meta þjóðarheill öðru fremur, og þjóðarheill krefst þess, að Íslendingar standi saman. Þeir hafa enga ástæðu til annars en að standa vel saman í erfiðleikunum, og þeir hafa meiri möguleika en nokkru sinni fyrr, vegna þess að almenn afkoma íslenzku þjóðarinnar er nú betri en hún hefur áður verið.