26.03.1973
Neðri deild: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2763 í B-deild Alþingistíðinda. (2123)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það er augljóst af því, sem er að gerast hér í þinghúsinu þessa stundina, og því, sem er að gerast utan þinghússins, að hagsmunaandstæður eru mjög að skerpast og aukast milli neytenda annars vegar og framleiðenda hins vegar. Það, sem hér er að gerast, er ekkert tilefni gamanmála eins og þeirra, sem hv. þm. Jónas Arnason lét sér um munn fara hér áðan. Það, sem hér er að gerast, er ekki heldur þess eðlis, að hægt sé að láta eins og ekkert sé að gerast, eins og hv. þm. Ágúst Þorvaldsson og hæstv. landbrh. gerði rétt áðan. Hér er ekki um að ræða neina tilraun til þess að egna stétt gegn stétt. Ef einhver hefur egnt stétt gegn stétt undanfarnar vikur, þá eru það þeir menn, sem hafa tekið að sér að stjórna landinu, en geta það ekki.

Hvað er hér að gerast? Hvert er tilefni þeirra atburða, þeirra nokkuð óvenjulegu atburða, sem eru að gerast í þinghúsinu og utan við þinghúsið? Tilefnið er auðvitað það, og það er augljóst hverju mannsbarni, að íslenzkar landbúnaðarvörur eru nú orðnar óeðlilega dýrar. Þrátt fyrir stórhækkað verð á íslenzkum landbúnaðarvörum, fá bændur samt sem áður ekki meira en rétt dugir þeim til að halda í við aðrar stéttir. Hér er auðsjáanlega eitthvað alvarlegt á ferðinni.

Það eru ekki nema rúmar þrjár vikur síðan mjólk hækkaði um 6.50 kr. hver lítri eða um meira en 40%, og hefur mjólk ekki öðru sinni hækkað jafnmikið í einum áfanga. Rjómi í fjórðungshyrnum hækkaði um 6.10 kr., smjör hækkaði um 53.50 kr., 45% ostur hækkaði um 43 kr., súpukjöt hækkaði um 31.90 kr., og kartöflur hækkuðu um 17.50 kr. Hver getur í alvöru undrazt það, að íslenzkar húsmæður láti slíkt ekki eins og vind um eyrun þjóta? Þessi hækkun, sem varð í einu lagi 1. marz, veldur hækkun á framfærslukostnaði, sem nemur hvorki meira né minna en 3.5 stigum, þessi eina hækkun landbúnaðarafurðanna, og hafa þær ekki í annað sinn hækkað jafnmikið í einu lagi. Þegar tillit er tekið til þess, að launþegar munu aldrei fá bætt annað stig af þessum 3.5 stigum, að þessa hækkun verður að bera bótalaust, þeir fá ekki kauphækkun, sem henni svarar, 1. júní n. k., þá verður enn augljósara, að það er ekki von, að íslenzk heimili, reykvísk heimili, sem eru aðalviðskiptavinir íslenzkrar bændastéttar, láti slíkt algerlega sem vind um eyrun þjóta.

Það, sem hér er á ferðinni, er ekki það, að íslenzkum neytendum sé íþyngt þannig, að bændunum séu búin einhver óhófleg lífskjör, þeir fái í sinn hlut óeðlilega háar tekjur. Það, sem hér er á ferðinni, er það, að skipulag íslenzkra landbúnaðarmála, framleiðslumál landbúnaðarins, sölumál landbúnaðarins, verðlagsmál landbúnaðarins eru í óefni. Þar er um ranga grundvallarstefnu að ræða, og það næst aldrei að sætta neytendastéttina og framleiðendastéttina, nema tekin sé upp skynsamleg stefna og skynsamlegri leið í landbúnaðarmálum en sú, sem nú er fylgt. Greinilegasta sönnunin fyrir þessu er sú, í hvert óefni niðurgreiðslumál íslenzks landbúnaðar eru komin. Ef ekki væri um að ræða niðurgreiðslu neytenda vegna á íslenzkum landbúnaðarvörum, þá væru þær, — ég leyfi mér að segja: svo að segja óseljanlegar á íslenzkum markaði. Hafa menn gert sér grein fyrir því? Of sjaldan hafa menn það í huga, hversu miklu niðurgreiðslurnar nema, hversu mikið við öll, þjóðin í heild, ríkissjóður, leggjum fram til að halda landbúnaðarvörunum þó í ekki hærra verði en á þeim er nú. Það eru greiddar milli 1600 og 1700 millj. kr. á ári til að halda verðlagi íslenzkra landbúnaðarvara niðri, og samt er það jafnóhóflegt og það í raun og veru er. Sagan er ekki öll sögð með þessu. Auk þessa greiðir ríkissjóður 400 millj. kr. til erlendra neytenda fyrir að leggja sér til munns íslenzkar landbúnaðarvörur. Færeyingar, Svíar, Danir og Bretar og enn fleiri þjóðir fá greitt frá íslenzkum almenningi, úr ríkissjóði Íslands um 400 millj, kr. til þess að kaupa íslenzkar landbúnaðarvörur. Þessar 400 millj. eru auðvitað teknar með skattgreiðslu á alla íslenzka launþega og þá bændur um leið.

Það er þetta ástand, sem er óviðunandi til lengdar. Það er þetta ástand, sem veldur því, að nú virðist svo sem stétt stefni gegn stétt, að það sé um að ræða hagsmunaágreining, sem vissulega ber að harma, og það er ein höfuðskylda ríkisstj. að reyna að jafna þann ágreining. En hún getur ekki jafnað hann nema því aðeins að taka upp skynsamlegri og réttmætari stefnu í landbúnaðarmálum en hún hefur fylgt.

Orsök þess vanda, sem nú er við að etja, — og í því felst skýringin á því, sem hér er að gerast í dag, — er sú, að það er ekki bara í landbúnaðarmálum, það er á öllum sviðum, sem ríkisstj. er hætt að geta stjórnað landinu. Hún hefur gefizt upp í baráttunni við verðbólguna. Það er vöxtur verðbólgunnar, sem er meginskýringin á því, sem hefur verið að gerast í íslenzkum landbúnaðarmálum í þessum mánuði. Þess vegna verða það síðustu orð mín, að ekkert er nú jafnbrýnt hagsmunamál — ég segi: jafnbrýnt hagsmunamál fyrir bæði neytendur og framleiðendur og að ríkisstj. játi ósigur sinn í baráttunni við verðbólguna og fari frá.