26.03.1973
Neðri deild: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2769 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

Umræður utan dagskrár

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda pólitíska ræðu eða hafa neina eldhúsdagsræðu hér. Ráðh. hafa svarað fyrir sig. En það voru örfá atriði, sem mig langar að benda aðeins á. Ég er dálítið kunnugur, hvað vörur kosta. Ég held heimili hér í Reykjavík. Ég hef enn fremur fengið upplýsingar um, hvað mjólk kostar t. d. í nágrannalöndum okkar, og það er í Noregi um 1.90 norskar kr., nálægt 30 ísl., í Danmörku er mjólkin dálítið ódýrari, en í Svíþjóð er hún dýrari, milli 30 og 40 ísl. kr. lítrinn. Við getum ekki miðað við mjólkurverðið, sem var, áður en mjólkin hækkaði í vetur, vegna þess að meginhlutinn af mjólkurverðinu var niðurgreiddur. Það er rétt, að hún hækkaði mikið. Má vera, að það hafi verið um 40%, en hún var óeðlilega lág áður.

Ef þetta er borið saman við aðrar matvörur, þá hygg ég, að það séu fáar vörur nú ódýrari en mjólkin. Hún kostar í hyrnum um 19.50, en aðeins losar 20 kr. í fernunum. Ég hef keypt til heimilis í allan vetur, og það er ódýrara að kaupa dilkakjötið heldur en fiskinn. Ég fékk upp í búð verð á fiski og kjöti. Súpukjötið kostar 173 kr. kg og lærin í heilu lagi 197 kr. kg, en fiskurinn, úrvalsýsa, 238 kr. kg, 40 kr. meira en kjötið í lærunum. En ódýrari fisktegundir, sem eru varla ætar og ég hef ekki keypt í vetur, kosta um 160 kr. kg, eða mjög svipað og súpukjötið. Þess vegna er dálítið spaugilegt með blessaðar húsmæðurnar, að þær skuli endilega þurfa að taka þær vörur, sem ódýrastar eru og minnst hafa hækkað, ætla að fara að hætta kaupa þær. Það væri miklu eðlilegra, að þær hættu að kaupa sykur, hann hefur hækkað um 115%, og gosgutlið kostar nærri 20 kr. flaskan. Það var verið að tala um það í blöðunum, að það væri keypt fyrir eins mikla peninga gos og mjólk í landinu. Ég sagði, að ég tryði því ekki. Ég held, að það sé ólíkt næringargildi í því og hollari mjólkin heldur en gosið.

Ég skil vel, að húsmæðrunum finnist allt hækka í verði. En þá ber að athuga það, að krónan hefur ekki sama verðgildi og hún hafði. Dollarinn hefur lækkað í verði, og þar að auki hefur okkar króna lækkað dálítið meira. Í viðbót við þetta þarf fólkið að athuga það, að kaupið hækkar alveg í samræmi við hækkun á neyzluvörunum. Það er full vísitala í gangi. kauphækkunin kemur eftir á, en það er ekki heldur hægt að reikna hana út fyrir fram. Kauphækkunin kemur líka eftir á handa bændunum.

Ég held nú, að satt að segja, að 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, hefði átt að minnast þess, þegar þeir voru að slíta sambandið á milli vísitölu og verðlags hér á árunum, þegar þeir voru að lækka gengið. Það var ekki ævinlega, að launþegar fengju fulla vísitölu greidda.

Sannleikurinn er sá, að þetta hækkar í krónutölu, það er alveg rétt, og ég skil það, að húsmæður finni til þess í bili. En kaupið á að hækka, svo að ekki ætti að þurfa að þrengja kjör vinnandi fólks. Hitt er svo annað mál, að við höfum allir áhyggjur af dýrtíðinni, og ég fyrir mitt leyti verð að játa það, að ég tel ákaflega óheppilegar þessar gengisbreytingar. Fólkið hættir að hafa traust á gjaldmiðlinum, og eyðslan verður meiri. Það er mál út af fyrir sig. En hitt er að refsa sjálfum sér að ætla að fara að hætta að kaupa þær vörur, sem eru ódýrastar og hollastar.

Ég læt það liggja á milli hluta að tala um kaup bænda sérstaklega. Þeir eru eins og aðrir menn, þeir vilja helzt fá sem mest fyrir sína vinnu, og ekkert óeðlilegt, að þegar kaup annarra stétta hækkar, þá hækki þeirra kaup líka. Ég veit, að frúrnar skilja það, að þessum verkföllum er ekki beint gegn bændum. En það er bara eins og þegar meinlætamenn áður voru að pynta sjálfa sig með því að berja sjálfa sig. Þegar svartidauði gekk, voru þeir að berja sig utan og héldu, að guð mundi þá hlífa þeim við svartadauða. Það er bara sjálfspynting að ætla að hætta að kaupa lambakjöt og mjólk og slíkar vörur, sem eru ódýrustu og beztu vörurnar, sem við fáum. Ég satt að segja tek þetta ekki alvarlega og hef ánægju af þessari heimsókn frúnna. Ég held, að þær fari að borða þessar vörur eins og þær hafa gert, eftir vikutíma a. m. k.