26.03.1973
Neðri deild: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2770 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

Umræður utan dagskrár

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég held, að þetta hafi verið alfróðlegasti þingfundur, sem ég hef nokkurn tíma setið. Hv. þm. stjórnarandstöðunnar tylltu sér svo hátt á tá, að þeir misstu höfuðið næstum upp á palla. Ég get fullvissað þá, sem heyra mál mitt, um, að þannig haga þeir sér ekki, þegar pallarnir eru fullir af togarasjómönnum.

Tónn hv. 1. þm. Reykv. kom mér ekki heldur á óvart. Eftir að hv. þm. Ágúst Þorvaldsson hafði flutt hér mjög málefnalega ræðu, stökk þessi þm. upp í ræðustól og skammaði hann fyrir að vera að atyrða reykvískar húsmæður. Ég verð að segja það, að þegar konur, húsmæður eða ekki húsmæður, láta í ljós skoðun sína, þá treysti ég þeim fyllilega til að geta tekið rökum. Þær hljóta að búast við málefnalegum umræðum, að annaðhvort sé fallizt á kröfur þeirra, ef mönnum þykja þær sanngjarnar, eða rök þeirra hrakin, ef svo ber undir. Það þarf engan stóra pabba til að rjúka hér upp í ræðustól til þess að skammast fyrir þeirra hönd.

Stétt með stétt, sagði þessi hv. þm. Frakkar spyrja: Hvar er konan? Í því máli, sem hér er til umr., er sannarlega ástæða til að spyrja: Hvar er karlmaðurinn? Hvar er eiginmaðurinn? Er hann verkamaður, er hann atvinnurekandi, er hann bóndi? Hverjar eru tekjur heimilisins o. s. frv.? Ég held, að við höfum sýnikennslu á því, hér uppi á pöllum, að enda þótt húsmæður beri fram kröfur undir fána húsmæðratitils, þá rekast engu að síður á hagsmunir. Þegar farið er að skyggnast dýpra inn í þær ástæður, sem eru fyrir hendi, sem orsakir þessara hækkana landbúnaðarvara, kemur fljótlega í ljós, að húsmóðir á verkamannsheimili hefur annarra hagsmuna að gæta en húsmóðir á forstjóraheimili, eða bóndakonan hefur annarra hagsmuna að gæta en húsmóðir í Reykjavík. Í Morgunblaðinu í gær voru viðtöl, að ég hygg, við þrjár konur, sem ætluðu sér að taka þátt í þessari hreyfingu. Það kom skýrt fram hjá a. m. k. tveimur þeirra, að þær telja aðgerðir þessar ópólitískar. Þær eru þá ósammála þeirri samþykkt Húsmæðrafélags Reykjavíkur, sem liggur til grundvallar þessum aðgerðum. Ég fæ ekki séð, að sú samþykkt geti með nokkru móti talizt ópólitísk. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundurinn telur, að þær launahækkanir, sem komu til framkvæmda frá og með 1. marz s. l., séu engan veginn raunhæfar, heldur sé kaupmáttur launa nú mjög skertur frá því, sem áður var:

Að vísu vantar hér mikilvægan rökstuðning. Ég hefði viljað fá að vita, hvort Húsmæðrafélag Reykjavíkur teldi, að þeir samningar, sem verkafólk og launþegar náðu í des. 1971 hafi verið óraunhæfir, hvort sú hækkun hafi verið ónauðsynleg. Ég vil minna sérstaklega á, að þá náðust í fyrsta skipti sérstakir samningar fyrir hina lægst launuðu, sem voru að langmestum hluta, láglaunakonur úti á vinnumarkaði. Þessi hópur fékk þá strax 20% beina launahækkun. Var þessi launahækkun óraunhæf?

Þá skal ég víkja aðeins að hinu atriðinu í samþykktinni, sem ég las áðan um, að kaupmáttur launa, eins og þar stendur, sé mjög skertur frá því, sem áður var. Að vísu hefur hæstv. viðskrh. talað hér mjög ítarlega á undan mér og hrakið þessa staðhæfingu, en ég vil því til viðbótar benda mönnum á, að það virðist sem forsvarskonur þessara mótmæla trúi ekki sjálfar sinni eigin samþykkt. Ef kaupmáttur hefur rýrnað svona gífurlega, hvernig er þá hægt að ráðleggja heimilum að kaupa aðra hverja viku vörur, sem eru margfalt dýrari en mjólk eða kartöflur eða aðrar landbúnaðarvörur? En það er kannske aðeins verið að tala til þeirra, sem mesta peningana hafa. Það kann að vera, að á efnaheimilum hafi fólk efni því að láta börnin sín drekka eingöngu appelsínusafa eða kóka kóla aðra hverja viku. Það kann að vera, að á efnaheimilum sé unnt að fylla stóra ísskápa og frystikistur af landbúnaðarvörum aðra hverja viku. Húsmæður á þessu heimilum geta með góðri samvizku sagt, að þær hafi ekkert keypt hina vikuna. En hver á að tryggja, að þær dragi ekki fram úr þessum frystikistum þetta góðgæti og beri það fram daglega? Það er kannske helzt mjólkin, sem geymist ekki svo lengi. Ég hefði haldið, ef þessum forustukonum Húsmæðrafélagsins væri alvara, að þá ætti að fara fram á, að allar frystikistur væru löglega innsiglaðar aðra hverja viku. Ég held, að það liggi ljóst fyrir, að efnaminni heimilin geti engan veginn tekið þátt í þessum aðgerðum. Ef þessu væri framfylgt, mundi efnaminna fólkið bera þetta kaupverkfall uppi. Það hefði verið æskilegra, að Húsmæðrafélag Reykjavíkur hefði fundið aðgerðum sínum eitthvert það form, sem krefðist sömu fórna af öllum, en ekki bara þeim, sem minnst mega sín.

Ég vil að lokum segja þetta: Ég fagna því persónulega, að konur skuli láta í ljósi skoðanir á þjóðmálum. Ég hef alltaf verið því fylgjandi, að þær gerðu það í miklu ríkari mæli en nú er. En ég verð að segja það, að mér finnst, eins og nú er ástatt, allmiklu hugnanlegri sú uppástunga, sem kemur frá bændakonum í Árnessýslu, að íslenzkar húsmæður sniðgangi brezkar og vestur-þýzkar vörur, en að þær hætti að kaup mjólk, kartöflur og kindakjöt handa sínu fólki.