26.03.1973
Neðri deild: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2773 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðason) :

Herra forseti. Ég skal ekki þreyta hér neinar kappræður. En út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði hér um Hrunadansinn og það, sem núv. ríkisstj. hefur gert, vildi ég segja, að kaupmáttur launa í landinu er nú betri en hann hefur áður verið. Það er staðreynd, sem ekki verður á móti mælt, hvað sem menn vilja segja um þessa hluti almennt, og það er það, sem mestu máli skiptir. Ég vil líka segja það, að það er gott að heyra, að menn vilja, að bændur njóti sömu kjara og aðrar stéttir, en þá á ekki sérstaklega að vera að taka verðlag á þeirra vörum út úr öðru verðlagi í landinu. Ég skal svo ekki fara lengra út í ræðu hv. 1. þm. Reykv., vill þó minna hann á, að árið 1971 var verðstöðvun í gildi allt árið og 1972 varð að taka inn í verðlagið þær verðhækkanir, sem höfðu geymzt vegna verðstöðvunarinnar árið 1971. Þetta veit hv. 1. þm. Reykv. eins vel og ég.

En það, sem ég ætlaði aðallega að segja, var út af ræðu hv. 7. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasonar, og tali hans um landbúnaðarstefnuna hér á landi. Ég held, að það snjallasta, sem hann hafi komið upp með þar, hafi verið að framleiða ull og gærur án þess að framleiða kjöt. Það kom einu sinni fyrir í ræðu þessa hv. þm., en það mun reynast erfið stefna í landbúnaðarmálum í framkvæmd. Hitt vil ég segja hv. þm., að kjötsala úr landi gengur nú mjög vel og er mjög nálægt því að ná framleiðsluverði.

Hv. þm. taldi, að ástæðan fyrir því, að verð á landbúnaðarvörum væri hér svo hátt, væri sú, að dreifing og annað skipulag á sölunni væri ekki með þeim hætti sem skyldi. Ef hann kynnti sér verðlagið t. d. hjá vinum okkar, Dönum, þá kostar mjólkin þar núna um 30 kr. lítrinn, en framleiðandinn, bóndinn, fær 12.63 kr., þetta er miðað við ísl. kr., en í færslum frá bóndanum til neytandans fara 17.37 kr. En ef hann tekur aftur íslenzka bóndann, þá er verð það, — ef ekki væru niðurgreiðslur, — sem um er að ræða, rúmar 30 kr. á lítra, en hér fara ekki nema 9.37 kr. á leiðinni frá framleiðandanum til neytandans. Skipulagið, sem er á afurðasölunni hérlendis, reynist þetta miklu betur en það, sem hv. 7. þm. Reykv. taldi, að við þyrftum að keppa að. Og hvernig yrði verðlagið á okkar framleiðsluvöru, t. d. mjólkinni, ef við byggjum við svipað sölufyrirkomulag og Danir? Danskar húsmæður verða að greiða um 30 kr. ísl. núna fyrir mjólkina, þegar íslenzkar húsmæður þurfa að greiða um 20 kr. Þetta skiptir verulegu máli, og ég vil upplýsa þennan hv. þm. um það og vona, að hann sé því marki brenndur að vilja hafa það, sem sannara reynist.

Ég held, að það, sem mestu skiptir og menn þurfa að hafa hér hugfast, bæði á þingbekkjum og þingpöllum, sé, að afkoma almennings í landinu, kaupgetan, er betri nú en hún hefur verið nokkru sinni fyrr.