26.03.1973
Neðri deild: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2774 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. tveir, hæstv. viðskrh. og landbrh., hafa svarað stuttri ræðu minni áðan í ítarlegu máli, sem hefur haft á sér eldhúsdagsblæ. Ég sé ekki ástæðu til þess, að þetta tækifæri sé notað til almennra eldhúsdagsumr. við hæstv. ríkisstj., og mun því ekki gera það, heldur verða við ósk hæstv. forseta um að stytta mál mitt. Hins vegar kemst ég ekki hjá því að segja nokkur orð í tilefni af síðustu ummælum hæstv. landbrh., sem hann raunar byrjaði ræðu sína á líka, að það væri mergur málsins, að kaupmáttur launastétta væri nú meiri en hann var fyrir tveimur árum. Það er rétt. Hver gæti líka búizt við öðru, þegar raunverulegar þjóðartekjur í raunverulegum verðmætum voru í fyrra 18% meiri en þær höfðu verið tveimur árum áður?

Hefði verið hægt að halda svo illa á málum, að kjör launþega bötnuðu ekki eitthvað, þegar þjóðartekjurnar í raunverulegum verðmætum aukast um næstum fimmtung? Það er ekki hægt að stjórna, jafnvel hæstv. landbúnaðarrh. gæti ekki stjórnað svo illa, að almenningur nyti ekki góðs af þessu. Þetta skiptir auðvitað meginmáli. Þessi tekjuauki þjóðarbúsins á fyrst og fremst rót sína að rekja til verðhækkana erlendis. Hæstv. landbrh. dettur þó væntanlega ekki í hug að þakka sér verðhækkanir á Bandaríkjamarkaði? En um þetta er ástæða til þess að tala nánar í öðru sambandi og síðar og leggja þá fram skýrari rök fyrir þeirri staðhæfingu, að þrátt fyrir vonda stjórn, þrátt fyrir óhæfa stjórn, þá hefur það sem betur fer samt sem áður komið íslenzkum almenningi til góða, hve góðæri hefur verið mikið og sérstaklega hvað verðlag hefur verið hátt á erlendum markaði. Þetta er mergurinn málsins í þessu sambandi.

Annars vildi ég svara eldhúsdagsræðum þeirra tveggja með því að minna hæstv. ráðh. á 10 loforð, sem ríkisstj. gaf, og hverjar efndirnar hafa orðið.

Loforð nr. 1 var að efla hag togaraútgerðarinnar. Hvernig hefur það verið efnt? Togararnir eru ekki enn komnir af stað, þó að verkföllin hafi verið leyst, og það er fyrirsjáanlegur taprekstur. Þetta loforð hefur verið svikið.

Loforð nr. 2 var að efla hag bátaútvegsins. Allir, sem honum eru kunnugir, vita að bátarnir eru á mörkum rekstrarhalla. Hefur loforðið verið efnt? Nei, það hefur verið svikið.

Loforð nr. 3 var að tryggja hag frystihúsanna, m. a. til þess að gera þeim kleift að fullnægja nýjum heilbrigðiskröfum í Vesturheimi. Hefur þetta loforð verið efnt? Frystihúsin eru á mörkum rekstrarhalla. Loforðið hefur verið svikið.

Loforð nr. 4 var að tryggja íslenzkum iðnfyrirtækjum vaxtarskilyrði. Hefur þetta verið efnt? Bæði einkaiðnaður og samvinnuiðnaður horfa fram á tap á árinu 1973. Loforðið hefur verið svikið.

Loforð nr. 5 var að halda verðbólgunni í skefjum. Þegar ríkisstj. tók við völdum, var vísitala framfærslukostnaðar 155 stig. Hvað er vísitalan í dag? 194 stig. Hún hefur hækkað um 25%, og það er meiri hækkun en í nokkru nálægu landi á valdatíma ríkisstj. Loforð nr. 5 hefur líka verið svikið.

Loforð nr. 6 var að styðja að stöðugu verðlagi með gætilegri fjármálastjórn. Fjárlög hafa hækkað í tíð núv. hæstv. fjmrh. um 90%, og það er met á tveimur árum. Þetta loforð hefur líka verið svikið.

7. loforðið var að lækka skatta. Bæði fjárlög og skattareikningar sýna, að það hefur ekki verið haldið. 7. loforðið hefur líka verið svikið.

8. loforðið var að hrófla ekki við kaupgjaldsvísitölunni með lögum. Var margyfirlýst og margsvarið, að þetta skyldi aldrei gerast. Kaupgreiðsluvísitölunni hefur verið breytt með lögum, 8. loforðið líka svikið.

9. loforðið og á það ekki lögð minnst áherzla var að banna ekki grunnkaupshækkanir með lögum. Það vildu kempurnar í ríkisstj. svíkja, en fengu því ekki ráðið.

Og 10. og síðasta loforðið var að hanna ekki verkföll með lögum. Það loforð vildu þeir líka svíkja, en fengu því ekki heldur ráðið.

Ég gæti haldið áfram, en ég held, að þetta sé alveg nægilegt, enda er 10 ágæt og heilög tala, og það er ekki oft, sem hægt er að nefna 10 mikilvæg loforð ákveðinnar ríkisstj., sem öll hafa verið svikin. (Gripið fram í.) Ja, þeir vildu svíkja þau, en bara fengu því ekki ráðið, og það er ekki betra. Það er ekki betra að sýna sama hugarfarið, þó að það sé betra fyrir almenning, að þeir skyldu ekki hafa komizt upp með það. Þeirra hlutur er ekki betri.

Nú spyr ég að síðustu, og það er svar mitt við eldhúsdagsumræðum hæstv. viðskrh. og hæstv. landbrh.: Er ekki mælirinn orðinn fullur? Er undarlegt, þótt þolinmæði almennings sé að bresta, eins og komið hefur greinilega fram í þinghúsinu og utan þinghússins nú í dag?