31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

40. mál, fangelsismál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég víl geta þess, að af þessum óafplánuðu fangelsisárum, sem ég gat um, kemur væntanlega aldrei til afplánunar nema u.þ.b. helmingur, vegna þess að sumir dómarnir eru orðnir það gamlir, að það væri óeðlilegt að fara að láta fullnægja þeim nú. Það kæmi óeðlilega hart við mennina, margir þeirra þá orðnir nýtir þjóðfélagsborgarar og komnir í sátt við þjóðfélagið, og þá væri engum greiði gerður með því að fara að loka þá inni í fangelsi. Það hefur dregizt að láta afplána þessa fangelsisdóma fyrst og fremst af húsnæðisskorti. Í öðru lagi geta komið til ýmsar persónulegar ástæður, t.d. veikindi eða aðrar persónulegar ástæður, þannig að það þykir ekki réttlætanlega að taka manninn fastan og setja hann í fangelsi. Ég hef kannske minni áhuga en margir aðrir á því að fara að setja menn í fangelsi, ef hægt er að komast hjá því.

Ástæðan til þess, að ekki hefur miðað betur í þá átt að láta menn afplána, — ef menn vilja harma það, — er, eins og ég sagði áðan, fyrst og fremst húsnæðisskortur. Og húsnæðisskorturinn stafar af því, að lög um fangelsi frá 1961 hafa orðið dauður bókstafur, og ákaflega hefði það verið æskilegt, að áhugi hv. fyrirspyrjanda hefði komið fram 2. öllum þeim árum, sem hann sat í ríkisstj., og hann stuðlað að því, að fé hefði verið veitt til þess að byggja fangelsi, eins og gert er ráð fyrir í lögum.

Ef það hefði verið gert, hefði ekki verið sá blettur á íslenzku þjóðfélagi, sem því miður er í dag, að þurfa að nota Hegningarhúsið við Skólavörðustig til þeirra hluta, sem það er notað, bæði sem gæzluvarðhaldsfangelsi og afplánunarfangelsi. En það eru engin mannsæmandi skilyrði í því fangelsi til þess að láta gæzluvarðhaldsfanga vera þar, og það er ósæmandi af íslenzka ríkinu, ef það bregður ekki fljótt við og framkvæmdir þær aðgerðir, sem nú er verið að undirbúa, og lætur teikna og byggja sérstakt fangelsi fyrir gæzluvarðhaldsfanga, kvennadeild og móttökufangelsi. Það er gert ráð fyrir því, að slíkt fangelsi geti fengið stað hér innan við Reykjavík eða innarlega í Reykjavík. Og það er, eins og ég sagði, verið að vinna að teikningum að því húsi.

Ég vil endurtaka, að einmitt vegna þess, hvernig húsið við Skólavörðustig er, hefur kannske, — ég segi kannske, — verið minna gert en skyldi að því, að leggja í kostnað við það. Það er öllum ljóst, sem um þessi mál fjalla, að það fangahús getur ekki verið til frambúðar. En eins og ég sagði, ætla ég á næstu dögum að leggja frv. fyrir þetta þing um fangelsismál, og þá ætla ég að láta hv. alþm. standa frammi fyrir því, að það er ekki nóg að tala fagurlega um þessi mál. heldur verða þeir að vera reiðubúnir að leggja eitthvað af mörkum til þeirra, ef þeim er nokkur alvara með því, sem þeir eru að segja um bessi málefni. Ég tel, að fangelsi verði að byggja og þessum málum verði að koma í betra horf. En það er ekki nóg að byggja fangelsi, heldur verður aðstaðan að vera þannig, að vistin þar geti a.m.k. verið á þá lund, að hún spilli ekki föngum, sé mannbætandi frekar en hitt. Eins og þessi mál eru nú, er ekki hægt að koma við neinni deildaskiptingu í fangelsum, og það er ófremdarástand.

Ég vænti, að þótt hv. fyrirspyrjandi hafi ekki séð ástæðu til þess að ýta í samráðh. sína og vekja athygli þeirra á þessu máli á undangengnum 10 árum, muni hann verða röskur við að veita lið því máli, sem ég mun flytja hér innan skamms um þessi efni.