26.03.1973
Neðri deild: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2776 í B-deild Alþingistíðinda. (2130)

Umræður utan dagskrár

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, vegna þess að það er verið að ræða um aukningu kaupmáttar. — Hv. 7. þm. Reykv. talaði hér um 10 loforð, sem höfðu ekki verið haldin. Þessi loforð eru áreiðanlega prentuð í Ólafskveri, þ. e. stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstj. Hæstv. forsrh. ráðlagði þm. að lesa þetta kver kvölds og morgna, vegna þess að það var erfitt að skilja sumt, sem í því stendur. En það er áreiðanlegt, að nú óskar hæstv. ríkisstj. eftir því, að þetta kver verði aldrei lesið og það finnist ekkert eintak af því, vegna þess að loforðin þar eru miklu fleiri en 10 og þar hefur ekkert loforð verið efnt. Þess vegna spyrja fleiri en hv. 7. þm. Reykv., hvort mælirinn sé ekki orðinn fullur. Þeim fjölgar nefnilega óðum, sem telja það alveg víst og sjá, að hann er orðinn fullur. Það eru ekkert síður þeir, sem hafa verið stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., sem nú hafa fengið alveg nóg af starfsemi ríkisstj.

En það er talað um, að kaupmáttur launa hafi aukizt. Það er dálítið einkennilegt, þegar hæstv. ráðh. eru að koma hér upp í ræðustólinn og fullyrða þetta. Ekki sízt er það undarlegt, þegar þeir eru að tala í áheyrn húsmæðranna. Hver skyldi vita betur en þær, hvort kaupmátturinn hefur aukizt? Hvað þýðir að vera að fullyrða um það í áheyrn hv. húsmæðra, að kaupmátturinn hafi aukizt, þegar það stangast algerlega við staðreyndirnar? Það er hægt að henda á, að kaupið hafi hækkað í krónum. En krónan er alltaf að minnka, og skattarnir eru alltaf að hækka. Húsnæðiskostnaður, rafmagn og hitaveita eru alltaf að hækka. Það er áreiðanlegt, að það er ekki reiknað með þessum útgjöldum alltaf eins og þau eru í raun og veru, þótt meðaltalið sé tekið. Og annað er það, að þegar svona miklar hækkanir skella yfir eins og 1. marz s. l., þá verða neytendur að bíða til 1. júní eftir að fá þessar hækkanir bættar. Þess vegna þýðir ekki að vera með þessar fullyrðingar. Þær stangast á við staðreyndirnar.

Það var illa gert af hæstv. ríkisstj. og í rauninni stór þáttur í því að etja saman neytendum og framleiðendum að láta mjólkina hækka í einu um 44%, þegar hún hækkaði til bænda aðeins um 11.4%. Hæstv. ríkisstj. í sínu stefnuleysi er stöðugt að hringla með niðurgreiðslurnar. Niðurgreiðslurnar voru stórauknar í des., en aftur lækkaðar í febr. Þetta hefur aldrei verið gert áður, að lækka niðurgreiðslur á sama tíma og verðlag til bænda hefur átt að hækka. Það er þetta, sem hefur e. t. v. komið húsmæðrunum af stað, og það er illa gert við bæði neytendur og framleiðendur að koma þannig fram og vera að etja þeim saman og ögra neytendum með óskynsamlegum stjórnarathöfnum, eins og nú hefur verið gert. En ég vænti þess, að þegar húsmæðurnar athuga þetta í raun, þótt þær hafi of lítið í buddunni, þá sjái þær, að það á að halda áfram að kaupa landbúnaðarvörur, vegna þess að þær eru ekki dýrari en aðrar vörur, en hafa það fram yfir aðrar vörur að vera hollari, bæði fyrir börn og fullorðna.

Kaupmáttur launa hefur oft aukizt hér á landi. Kaupmáttur launa jókst óumdeilanlega í tíð fyrrv. ríkisstj. Það má geta þess, að á tveimur árum, frá 1970–1971, hækkaði kaupmáttur launa um 27.4%. Það eru engir bráðabirgðaútreikningar einstakra þm., sem hér er vitnað til. Hér er vitnað í opinberar skýrslur. Þessir útreikningar hafa aldrei verið rengdir. Svo koma hæstv. ráðh. hér upp og fullyrða, að kaupmátturinn hafi raunverulega ekkert aukizt í tíð fyrrv. ríkisstj., þótt hann hafi aukizt á tveimur árum um 27.4% og á einu ári, ef talið er frá nóv. 1970 til miðs árs 1971, um 20%. Það er mikils virði, að þetta stendur í opinberum skýrslum, sem ekki er hægt að rengja. Þá var það einnig, að húsmæðurnar fundu, að kaupmáttaraukningin var raunhæf og miklu meira en orðin tóm.

Það er ekki ástæða til utan dagskrár að vera að lengja þessar umr. öllu meira. En ég vil segja það, að hæstv. ríkisstj. hefur yfir ákaflega litlu að státa, enda er svo komið, að hún er raunverulega hætt að stjórna. Það er þannig komið, að almenningur í landinu er hættur að ætlast til nokkurs af henni til gagns í íslenzku þjóðlífi eða íslenzku atvinnulífi. Það er svo komið, að það er taprekstur á öllum sviðum atvinnulífsins. Það er taprekstur hjá útgerðinni þótt aflabrögð séu góð og verð á fiskinum hærra en nokkru sinni áður. Það er tap í iðnaðinum. Það er tap í landbúnaðinum, vegna þess að rekstrarvörur landbúnaðarins eru að stórhækka og bændur hafa ekki fengið þessa hækkun inn í grundvöllinn, eins og nauðsynlegt væri. Og það er tap á samgöngum og öllu öðru, sem til starfsemi heyrir. Þegar svo er komið, má segja, að það sé hættuástand í þjóðfélaginu. Það er hætt við því, að atvinna dragist saman, að ofan á dýrtíðarverðbólguna komi atvinnuleysi. Þess vegna er það, að núv. ríkisstj. þarf að standa upp úr stólunum og láta fólkið dæma um hennar verk, til þess að unnt verði að koma á nýrri stjórnarstefnu og traustri ríkisstj. í landinu.