26.03.1973
Neðri deild: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2780 í B-deild Alþingistíðinda. (2133)

Umræður utan dagskrár

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Þetta eru nú orðnar langar og miklar umr. hér um mál utan dagskrár. Ég skal reyna að verða við tilmælum hæstv. forseta um að hafa ekki mál mitt allt of langt, en ég gat ekki stillt mig um að koma hér upp í ræðustól út af þeim umr., sem hér hafa farið fram. Mér datt satt að segja í hug undir þessum umræðum ummæli hæstv. iðnrh. í blaði hans, Þjóðviljanum, þegar hann var í stjórnarandstöðu. Þar sagði hann einu sinni, að það væru til þrenns konar ósannindi: lygi, bölvuð lygi og tölfræði. Ég ætla ekki að gera þessi orð að mínum. En mér fannst, að sú talnameðferð, aðallega hæstv. ráðh., sem viðhöfð hefur verið á hv. Alþ., minni mjög á þessi spaklegu orð, að það séu til þrenns konar ósannindi, lygi, bölvuð lygi og tölfræði. Meðferð þeirra talna, sem hefur verið dembt yfir hv. d. og þá, sem hlusta á þessar umr., hefur verið slík.

Í þessum umr., sem að verulegu leyti hafa af hálfu hæstv. ráðh. farið í að hvítþvo ríkisstj. af því, að hún beri nokkra ábyrgð á því, að landbúnaðarafurðir hafi hækkað um 40–50% í einu lagi, hefur verið reynt að sneiða gersamlega hjá kjarna málsins í þessu efni. Hæstv. ráðh. hafa komið hér upp og sagt: Kaupmáttur launa hefur farið stórkostlega vaxandi. Vera má, að þetta sé rétt. En það eru ýmsar hliðar á þessu máli. Það hefur komið hér fram, að raunverulegar þjóðartekjur hafi hækkað verulega. En það hefur aldrei komið fram, hversu miklu meira kostar að afla þeirra nú en áður. Og ég vil upplýsa hæstv. ráðh. um það, að í nýlegri skýrslu Kaupfélags Eyfirðinga kemur fram, að framleiðsluaukningin hjá þeim sé 18%, söluaukning af framleiðsluafurðum á einu ári, en kostnaðarauki við að framleiða þessar vörur 40–54%. Þar er sagt, að Hrunadans kostnaðarverðbólgu stefni þessum rekstri samvinnufélagsins á Akureyri í voða. Það er nefnilega ekki nóg að taka bara tekjurnar og segja, að þær hafi hækkað. Menn verða líka að gera sér grein fyrir, hvað kostar að afla þeirra.

Það er annað mál, sem er kannske kjarni málsins, þegar verið er að tala um svo og svo mikla aukningu kaupmáttar í þjóðfélaginu. Það er áætlað, að við munum á árunum 1971, 1972 og 1973 hafa viðskiptahalla við útlönd, sem nemur 14–15 þús. millj. kr. Hæstv. ráðh. hafa reynt að halda því fram hér á hv. Alþ. áður, að þetta stafi að verulegu leyti af innflutningi á atvinnutækjum, skipum og flugvélum. Það er rangt. Þetta kemur fram í skýrslum, m. a. valkosta nefndarinnar, sem ég vildi nú mælast til, að hæstv, ráðh. læsu kvölds og morgna. Ég held, að það væri miklu hollari lesning fyrir þá en Ólafskver. Það er mjög greinargóð skýrsla sérfræðinga um ástandið í efnahagsmálum eins og það var s. l. haust, og horfur í þeim efnum. Þar kemur greinilega fram, að skip og flugvélar verði samkv. áætlun flutt inn fyrir 2500 millj. kr. á yfirstandandi ári, og það er 66% hækkun frá árinu 1972, þannig að það er gersamlega út í loftið að segja, að viðskiptahallinn stafi af því, að við séum að kaupa atvinnutæki. Hann stafar fyrst og fremst af eyðslu. Hann stafar af því, að við eyðum um efni fram, og kaupmáttur, sem er reiknaður, þegar við eyðum um efni fram, er gersamlega falskur. Það stendur í þessari skýrslu, að við höfum safnað um 6. þús. millj. kr. skuldum erlendis á einungis tveimur árum og að þessi skuldasöfnun sé gífurleg. Þetta segja sérfræðingar hæstv. ríkisstj., að þessi skuldasöfnun sé „gífurleg.“ Þegar þannig er staðið að stjórn þjóðarbúskaparins, eru engar tölur réttar um kaupmátt launa, eins og þær hafa verið fundnar við þessar umræður. Það er ekki hægt að segja, að sá kaupmáttur, sem gildir í dag, sé réttur, vegna þess að ef við héldum áfram á sömu braut, færum við gersamlega á höfuðið sem þjóð. Við ættum ekki til þess að greiða skuldir okkar erlendis og lánstraust okkar erlendis mundi þverra. Við yrðum að gera stórfelldar ráðstafanir til þess að draga úr kaupmættinum innanlands, ef svo fer fram sem horfði, enda er þessi kaupmáttur, sent hæstv. ráðh. hafa verið að guma af í þessum umr., algerlega falskur.