26.03.1973
Neðri deild: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2782 í B-deild Alþingistíðinda. (2134)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Mig langar til að svara hæstv. viðskrh., þeirri spurningu hans til mín, hver græddi, hvað hefði orðið um þá 18% þjóðarteknaaukningu, sem ég sagði, að hefði átt sér stað á undanförnum tveim árum og er rétt. Auðvitað hefur þessi þjóðarteknaaukning komið fram annars vegar í aukinni neyzlu þjóðarinnar í heild og hins vegar í aukinni fjárfestingu. Þar eru þessi 18% þjóðarteknaaukning geymd. En það, sem ég hef verið að vekja athygli á er, að þrátt fyrir næstum fimmtungsaukningu á raunverulegum þjóðartekjum, eru atvinnuvegirnir samt sem áður reknir með tapi og það er um að ræða versnandi afkomu út á við, versnandi afkomu þjóðarbúsins gagnvart öðrum þjóðum. Það er þetta ósamræmi í efnahagsstjórninni, sem ég hef verið að benda á. Samfara bættum kjörum þjóðarinnar, aukinni framleiðslu og hækkuðu verðlagi eiga svo að segja allir íslenzkir atvinnuvegir í miklum erfiðleikum. Það er þetta, sem er það alvarlega við ástandið.

Hæstv. fjmrh. og raunar sjútvrh. líka töluðu þannig, að almenningi er ætlað að halda, að það sé góðri stjórn þeirra að þakka, að þjóðartekjurnar hafa farið vaxandi.

Svo að ég endi þessar umr. að dæmi hv. þm. Jónasar Árnasonar, sem brá á léttara hjal, er víst bezt, að mín lokaorð séu þannig, að það, sem mér hefur fundizt skringilegt við ummæli þeirra tveggja ráðh., sem talað hafa, er, að Lúðvík Jósepsson talaði eins og hann stjórni verðlagi íslenzkra sjávarafurða erlendis og Halldór E. Sigurðsson eins og hann hafi persónulega gotið loðnunni í Atlantshafið.