26.03.1973
Neðri deild: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2787 í B-deild Alþingistíðinda. (2146)

79. mál, hafnalög

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft þetta frv. til meðferðar og leggur til, að það verði samþ. með nokkrum breytingum.

Við 1. umr. málsins gerði hæstv. samgrh. grein fyrir efni frv. og þeim breytingum frá gildandi löggjöf, sem í því felast og ekki ræði ég þá hlið málsins hér. Á fundi fjh.- og viðskn. komu til viðræðu fulltrúar Hafnamálasambands sveitarfélaga og fulltrúar frá samtökum skipstjórnarmanna svo og vita- og hafnamálastjóri. Hafnamálasambandið lagði einnig fram margar till. um breyt. á frv., sumar töluvert veigamiklar.

Með þeim breyt., sem n. leggur til, að gerðar verði á frv., er að nokkru komið til móts við hugmyndir Hafnamálasambandsins, þó að öðrum sé hafnað, þ. á m. sumum þeim veigamestu.

Ég skal nú í örstuttu máli gera grein fyrir brtt. n.

1. brtt. er við 2. gr., en hún felur í raun og veru ekki í sér efnisbreytingu, heldur er þar aðeins um að ræða umorðun, ofurlítið breytt röðun á þann veg, sem n. taldi, að betur færi.

2. till. er varðandi útboð hafnarframkvæmda. Í frv. segir í 3. gr., síðustu mgr.: „Heimilt er, eftir því sem hagkvæmt þykir, að einstakar hafnarframkvæmdir eða hlutar þeirra verði unnir af verktökum samkv. tilboði á grundvelli útboðs.“ En n. leggur til, að þetta sé orðað ákveðnar, á þann veg, sem segir á þskj. 394, að bjóða skuli út, þegar það þykir hagkvæmt.

Í 3. og 4. brtt., er nánast um að ræða hagræðingu á orðalagi á þann veg, sem talið var, að betur færi.

5. brtt. er veigamest. Hún er við 10. gr. Hafnamálasambandið hafði lagt til, að Hafnamálastofnuninni yrði sett sérstök stjórnarnefnd. m. a. með beinni þátttöku Hafnamálasambandsins. Á þetta gat fjh.- og viðskn. ekki fallizt, en hins vegar telur n. eðlilegt og skynsamlegt, að Hafnamálasambandið, sem spannar yfir allt landið að heita má, fái sem slíkt beina aðild þegar gerð er heildaráætlun um hafnargerðir., á sama hátt og einstakar hafnarstjórnir eiga að hafa samkv. frv., að því er þetta varðar. Að þessu lýtur stafliður b í 5. brtt. n., að á eftir því, sem sagt er um umsögn hinna einstöku hafnarstjórna, komi ný mgr., þannig: „Hafnamálastjóri skal á sama hátt senda áætlunina í heild stjórn Hafnamálasambands sveitarfélaga til umsagnar.“

Skipstjórnarmenn, eða fulltrúar þeirra lögðu áherzlu á það fyrir sitt leyti, að samtök þeirra fengju að segja sitt orð um staðarval og gerð hafnanna, Það er raunar ekki óeðlilegt, að þeir. sem skipum stýra um hafnirnar, séu kvaddir til og álits þeirra leitað, þegar ákvarðanir eru teknar um mannvirkjagerðina. Nú má ætla að í hafnarnefndum hinna ýmsu hafnarstaða eigi jafnan sæti einn eða fleiri úr hópi skipstjórnarmanna. En n. var ásátt um, að þar að auki bæri að veita samtökum skipstjórnarmanna umsagnaraðild, eins og segir í staflið á í þessari brtt.: „Um gerð hafna og staðarval skal jafnan leita álits samtaka skipstjórnarmanna 3 byggðarlaginu, ef til eru, ella hjá landssamtökum þeirra.“

6. brtt. er svo við 16. gr., og er hún formuð sem umorðun á gr., en breytingar frá því, sem er í frv., eru þó óverulegar að öðru leyti en því, að n. leggur til, að hafnarsjóðir, sem alls ekki njóta styrks úr ríkissjóði, en þeir eru til, séu ekki háðir samþykki rn. um ráðstafanir fasteigna og lántökur á sama hátt og þeir, sem styrks njóta. Þetta er gert ótvíræðara í brtt. en það, sem er í frv.

7. brtt. er við 19. gr. Hún er í rauninni aðeins um breytt orðalag. Í frv. segir: „Fé hafnabótasjóðs má ráðstafa“ eins og þar greinir. En n. þótti réttara, að það stæði „skal“, því að það er í raun og veru ekki um neina aðra ráðstöfun á fé sjóðsins að ræða en þá, sem felst í þeirri skilgreiningu, sem á eftir þessum orðum fer.

8. brtt. er við 20. gr., þar sem segir um árlegt framlag ríkissjóðs til hafnabótasjóðs, að það skuli aldrei vera lægra en 25 millj. kr. á ári. Við leggjum til, að þessu sé breytt og í staðinn fyrir 25 komi 30 millj. kr. Þetta er raunar aðeins leiðrétting til samræmis við breytt verðgildi peninga, frá því að frv. var samið á sínum tíma.

9. brtt. er við 26. gr. og er í þremur stafl. Stafliður a er umorðun á upptalningu án efnisbreytinga. Stafliður b lýtur að því að stytta frest til að samræma reglugerðir hafnanna, eftir að þetta frv. hefur orðið að lögum. N. telur, að þessi breyting sé raunhæf, m. a. vegna þess, að það hefur þegar verið unnið mikið starf í þá stefnu að samræma reglugerðir hinna einstöku hafna.

Stafliður c í þessari brtt. er um nýja mgr., þannig: „Gjaldskrá skal gefin út sérstaklega, sbr. 12. gr., en hún telst engu að síður hluti reglugerðarinnar.“ Þetta er til hagræðingar fyrir notendur gjaldskránna og breytir ekki efni málsins nokkurn skapaðan hlut, en Hafnamálasambandið lagði áherzlu á þetta.

10. brtt. er við 28. gr., þar sem segir, að ráðh. setji reglugerð um framkvæmd þessara l. fyrir tiltekinn tíma. Brtt. er aðeins um það að lengja frestinn til að setja þessa reglugerð, þ. e. um framkvæmd l., þar sem frv. verður síðar afgreitt en upphaflega var reiknað með.

Þá er 11. og síðasta brtt. frá n. Hún er í þremur stafl. Fyrst er þess að geta í sambandi við þessar brtt., að 1. mgr. í bráðabirgðaákvæðinu er orðuð þannig í frv.: „Gera skal sérstakar ráðstafanir til að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða af löngum lánum, sem verst eru settir, og skal þá miðað við lánin eins og þau eru, er lög þessi taka gildi.“ N. leit svo á, að það gæti verið nauðsynlegt að létta greiðslubyrði hafnarsjóða, þó að af stuttum lánum sé, og leggur til, að orðið „lögum“ verði fellt niður úr mgr. Þetta er varðandi stafl. a. Breytingin í stafl. b er aðeins afleiðing þess, að frv. var ekki afgreitt á síðasta ári. Í frv. segir, að við fjárlagagerð fyrir árið 1973 skuli samgrn. gera Alþ. sérstaka grein fyrir fjárþörf í þessu efni. En nú verður það að sjálfsögðu að breytast 1974. Þá er að lokum stafl. c í þessari brtt. Hann er um að taka upp í frv. ákvæði til bráðabirgða, rómv. II, eins og það var í frv., þegar það var upphaflega lagt fyrir Alþingi á útmánuðum 1972. Hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, hefur áður flutt brtt. um sama efni, sem liggur hér einnig fyrir. N. hefur gert hana að sinni, og hún fylgir því með í þessum brtt. nefndarinnar.

Sem sagt, fjh.- og viðskn. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem prentaðar eru á þskj. 349 og ég hef nú gert grein fyrir í sem allra fæstum orðum.