26.03.1973
Neðri deild: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2790 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

79. mál, hafnalög

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Út af fsp. hv. 2. þm. Vestf. vil ég taka það fram, að þessi mál hafa ekki enn hlotið afgreiðslu í ríkisstj. eða lánsútvegun þeirra vegna. Hins vegar skal ég geta þess, að eins og ég stóð að því, þegar þetta var sett inn í fjárl. í vetur, þá hef ég fullan hug á að koma þessu í framkvæmd. En að þessum málum er nú unnið á miklu stærri vettvangi, í sambandi við fjárútvegun sjóðanna, og mun það tengjast því. En ég get sagt hv. þm. það, að strax og tekst að útvega féð, mun ég hafa þá aðferð, að því leyti sem það kemur mér við, að vísa málinu til fjvn. til afgreiðslu, og ég vona, að það takist að leysa þetta á þann hátt, sem til er stofnað með þessum heimildum.

Ég vil svo segja það um hafnalagafrv., að ég tek undir það með hv. þm., að jafnvel þó að útgjöld ríkissjóðs séu nú aukin með því, þá er þó að minni hyggju miklu skemmtilegri og heppilegri aðferð að jafna þetta þannig á milli, að t. d. ríkisábyrgðasjóður þurfi ekki að reikna með að leggja út vegna hafnaframkvæmda, því að það er mikill munur á, hvort um er að ræða fjárveitingu eða vanskil. Ég geri þar mikinn greinarmun á. Við vitum, að hafnirnar eru undirstaðan undir afkomu útgerðarinnar í landinu að verulegu leyti, og ber því að styðja að framkvæmdum á því sviði, eins og ríkisvaldið frekast getur.