27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2795 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

299. mál, verðlagsgrundvöllur landbúnaðarvara

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Út af fsp. hv. þm. Pálma Jónssonar um áburðarverðið skal ég svara því til, að mér er ekki kunnugt um, hvað það verður. Það liggur ekki fyrir, svo að mér sé kunnugt um. Gert er ráð fyrir hækkun á því, en hvað hún kann að verða mikil, kann ég ekki skil á.

Um hitt getum við deilt, hverju sé að þakka, að afkoma bændastéttarinnar á s. l. ári er betri en áður hefur verið. Við erum þó sammála um það, að árferðið hafi þar sitt að segja og ráði þar kannske mestu um. Hins vegar vil ég þó geta, að þess hefur líka verið gætt fullkomlega, að bændastéttin fengi allar þær kjarabætur, sem aðrar stéttir í þjóðfélaginu hafa fengið, og það hygg ég, að ráði þar næst mestu um.