27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2799 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

303. mál, orlof og þjónusta staðgöngumanna í landbúnaði

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði hér áðan, að till. í frv. hafa þegar verið kynntar bændasamtökunum og það er í framhaldi af því, sem stjórn samtakanna hefur tekið þá ákvörðun að leita álits kjörmannafundar á málinu. Í frv. er ákvæði um þá staðgengla, sem hv. þm. talaði um. Orlof húsmæðra hefur verið bætt verulega með löggjöfinni í fyrra, þar sem veitt var miklu meira fé til þess en áður hefur verið. En um framkvæmd málsins verður ekki frekar að ræða, fyrr en fyrir liggur álit frá kjörmannafundinum.