27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2799 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

203. mál, framlagning gagna við Alþjóðadómstóllinn

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Á þskj. 387 beini ég eftirfarandi fsp. til hæstv. utanrrh.:

„1. Hvaða gögn hafa verið lögð fram af hálfu utanrrn. við Alþjóðadómstólinn í Haag vegna fiskveiðideilunnar?

2. Hverjir sömdu þessi gögn?“

Menn hafa veitt því athygli, að undanfarna daga hafa orðið miklar umr. um, hvort við ættum að senda fulltrúa okkar til málflutnings við Alþjóðadómstólinn, og sýnist sitt hverjum í því efni. En það hefur ekki komið nákvæmlega fram, svo að ég viti, hvaða gögn hafa verið lögð fram við dóminn. Tel ég mjög mikilvægt að fá úr því skorið hreinlega og einnig vita um það, hvort öll rit um málið fyrr og síðar hafi verið lögð fram, þau sem gætu stuðlað að því, að hv. dómendur, sem þar sitja, sjái sögu málsins rækilega yfir allt tímabilið. Því var haldið fram í sjónvarpsumr. hér um daginn, að þeim bæri skylda til að rannsaka öll gögn í málinu og það væri því mikilvægt, að mjög rækileg gagnasöfnun lægi frammi við dóminn. Því taldi ég rétt að fá úr þessu skorið og það kæmi hér á hreint. Einnig vildi ég gjarnan vita það um leið, hver þáttur fiskifræðinga okkar væri við samningu þessara gagna, og þar fram eftir götunum, því að við erum að færa út landhelgina mjög vegna raka þeirra um, hvað fiskstofninn þoli. Þess vegna vil ég einnig fá að vita, hverjir hafi staðið að samningu þeirra gagna, sem fyrir dómnum liggja nú.