27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2803 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

203. mál, framlagning gagna við Alþjóðadómstóllinn

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það er augljóst af skýrslu hæstv. utanrrh., að þau gögn og þær upplýsingar, sem send hafa verið Alþjóðadómnum eru mjög mögur. Ég vil nefna hér m. a. tvennt, sem ég sakna.

Annað er það, að í júnímánuði s. l. var haldin ráðstefna alþjóðlegrar nefndar fiskifræðinga. Sú ráðstefna var haldin í Washington. Þar voru lagðar fram skýrslur eða niðurstöður rannsókna, sem staðið höfðu í nokkur ár, þar sem kom skýrt fram, að fiskistofnarnir við Ísland væru í yfirvofandi hættu og þyrfti, ef vel ætti að vera, að draga stórlega úr sókn. Það kemur ekki fram í skýrslu hæstv. ráðherra, að þessar mjög svo mikilvægu upplýsingar hafi verið lagðar fyrir dóminn, en það hefði þurft að gerast, áður en dómurinn tók til meðferðar málaleitunina í ágúst.

Í annan stað var því haldið fram í umr. á Alþ. 1961 af hálfu ríkisstj. Íslands, að samningana bæri hiklaust að skoða á þann veg, að þegar Íslendingar færu í útfærslu út fyrir 12 mílur, og ef Bretar og Þjóðverjar vildu skjóta málinu til Alþjóðadómsins, þá skyldi útfærslan standa í framkvæmd, meðan málið væri rekið fyrir dóminum. Þetta var ótvíræður skilningur íslenzkra stjórnvalda og lýst þá yfir skýrt og skorinort á Alþ., bæði af hæstv. utanrrh. og hæstv. dómsmrh. Þessi skilningur var kunnur brezkum og þýzkum stjórnvöldum, og aldrei komu nein mótmæli gegn honum. Vitanlega hefði þessi mikilvæga röksemd einnig átt að koma fram fyrir Alþjóðadóminn.

Ég er sannfærður um, að það vantar margt fleira, sem hefði þurft að koma fram fyrir dóminn. En ég er sannfærður um, að ef þetta tvennt hefði legið fyrir dóminum í ágústmánuði á s. l. sumri, hefði sú málaleitan, sem hann lét frá sér fara, orðið mjög á annan veg en hún var.