27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2805 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

305. mál, framleiðslulán til íslensks iðnaðar

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Á mörgum undanförnum þingum hafa ýmsir hv. þm. vakið athygli á því, að íslenzkur iðnaður hefur setið við allt annað borð en aðrir atvinnuvegir landsmanna hvað viðvíkur framleiðslulánum. Hann hefur búið við langtum lakari kjör. Það mun m. a. eflaust hafa orðið til þess, að lög um veðtryggingu iðnrekstrarlána voru samþykkt á síðasta þingi, 13. maí 1972 og í framhaldi af þeim lögum komu reglur frá Seðlabanka Íslands um endurkaup víxla framleiðslulána iðnaðarins. Eru reglur þessar dagsettar 8. nóv. 1972.

Ég ætla ekki að fara að lesa þetta upp, þær eru nokkuð langar, en ég vil aðeins leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hluta af einni mgr., þar segir: „Fyrst um sinn taka endurkaup þessi til iðnaðarvara, sem ætlaðar eru til útflutnings, enda uppfylli þær að öðru leyti ofangreind skilyrði. Þó geta komið til greina endurkaup vara, sem ætlaðar eru til sölu á innlendum markaði, þegar um er að ræða mikilvægar framleiðslugreinar og sérstaks fjármagns er þörf, svo sem vegna árstíðabundinnar framleiðslu og sölu, enda sé þá um að ræða lítið tollverndaða framleiðslu.“

Einnig koma fram í þessari reglugerð ýmsar reglur, sem viðskiptabönkum ber að hafa til viðmiðunar.

Nú er staðreyndin sú, að mjög hefur gengið seint að koma þessu í framkvæmd og mikið hefur verið undan þessu kvartað af íslenzkum iðnfyrirtækjum, einkum þeim, sem framleiða fyrir innanlandsmarkað. Þykir mér sem ekki sé þar farið eftir þeim vilja, sem fram kom hjá hæstv. Alþ. með samþykkt laga um veðtryggingu iðnrekstrarlána.

Ég tel sjálfsagt, að íslenzur iðnaður, sem uppfyllir þau skilyrði, sem nauðsynlegt er að setja, eigi að fá slík lán, þótt um sé að ræða iðnað, sem framleiðir fyrir innlendan markað. Sé ég þar satt að segja ekki mikinn mun á og á þeim iðnaði, sem framleiðir fyrir útflutning. Að sjálfsögðu sparar slík framleiðsla innflutning.

Ég get einnig nefnt nokkur dæmi máli mínu til stuðnings. Mér er t. d. kunnugt um það, að skóverksmiðja á Egilsstöðum, sem framleiðir seríuvörur, hefur fengið neitun um framleiðslulán. Sömuleiðis veit ég, að fataiðnaðurinn almennt, sem þó hefur verið sérstaklega styrktur og skipulagður, m. a. samhæfður að ýmsu leyti, hefur ekki fengið framleiðslulán. En þetta sýnist mér að ýmsu leyti varhugaverð stefna, ekki sízt þegar á sama tíma er lögð rík áherzla á að efla og auka íslenzkan iðnað, eins og fram hefur komið bæði í ræðu og riti hjá hæstv. ráðherrum.

Með tilvísun til þess, sem ég hef nú sagt, leyfi ég mér að leggja fram á þskj. 389 fsp. til viðskrh. um framleiðslulán til íslenzks iðnaðar. Fsp. er í þremur liðum.

Í fyrsta lagi er spurt, með leyfi hæstv. forseta: „Hvað líður veitingu framleiðslulána til íslenzks iðnaðar, sbr. lög um veðtryggingu iðnrekstrarlána frá 13. maí 1972: a) Í fyrsta lagi iðnaðar, sem framleiðir til útflutnings? b) Í öðru lagi iðnaðar, sem framleiðir fyrir innlendan markað?“

Í öðru lagi spyr ég: „Hvað veldur þeirri tregðu, sem virðist vera á framleiðslulánum til iðnaðar, sem framleiðir fyrir innlendan markað?“

Og í þriðja lagi: „Hyggst ríkisstj. beita sér fyrir auknum framleiðslulánum til iðnaðar, sem framleiðir fyrir innlendan markað?“