27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2808 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

305. mál, framleiðslulán til íslensks iðnaðar

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svör hans. Ég get út af fyrir sig fallizt á það, að allir geta ekki hlotið slík lán. Þeir þurfa að uppfylla viss skilyrði, það er ljóst. Einnig get ég fallizt á það, að iðnaðarframleiðslan er a. m. k. að verulegum hluta allmjög frábrugðin framleiðslu annarra meginatvinnuvega okkar, sjávarútvegs og landbúnaðar. Hins vegar get ég ekki fallizt á þá skoðun, sem virðist koma fram hjá Seðlabankanum, að þetta mál sé erfitt í meðferð. Ég held, að ef vilji er til að leysa það mál, þá sé auðvelt að finna lausn, sem viðunandi getur verið fyrir viðskiptabankana og Seðlabankann. Mér finnst einnig allt benda til þess, að þarna ríki ákveðin tregða, ákveðin íhaldssemi, ef ég má kalla það svo, e. t. v. af því, að einblínt er um of á þær reglur, sem hafa gilt fyrir aðalatvinnuvegi okkar, en ekki leitað að öðru, sem hentar betur iðnaði og getur út af fyrir sig verið eins réttmætt og eins gott.

Það er einnig ljóst, að áherzla er lögð á að afgreiða útflutningsiðnaðinn fyrst. Ég vil vara við því að setja fyrirtæki, sem framleiða fyrir innlendan markað, í eins konar annan og lægri flokk. Þau eiga áreiðanlega ekki síður rétt á sér. Við skulum minnast þess, að slík fyrirtæki spara örugglega innflutning, og þá er orðinn lítill munur á slíkri framleiðslu og þeirri, sem fer úr landi.

Ég vil því fyrir mitt leyti leggja ríka áherzlu á, að hæstv. ráðh. haldi áfram að skoða þessi mál og fylgjast með þeim, eins og ég heyri, að hann hefur gert, og á það verði lögð áherzla, að þessu kerfi verði komið hið fyrsta í framkvæmd yfir alla línuna, eins langt og það getur náð. Ég vil vekja athygli á því, að fjármagnserfiðleikar íslenzks iðnaðar eru áreiðanlega einn stærsti Þrándur í Götu eðlilegrar þróunar þessa iðnaðar í vaxandi samkeppni. Það verður ekki mikið úr öllu tali um iðnbyltingu og þess háttar, ef þau mál, sem hér eru til umr., eru ekki jafnframt leyst.