27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2810 í B-deild Alþingistíðinda. (2185)

305. mál, framleiðslulán til íslensks iðnaðar

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Það virðist vera heldur erfitt að festa hendur á lánveitingum til iðnaðarins. Þær reglur, sem hér er um að ræða og settar voru samkv. þeim l., sem minnzt hefur verið á í þessum umr., voru settar með samþykki forustumanna iðnaðarins, og þeir sögðust sætta sig við þessar reglur. Síðan hefur verið unnið að framkvæmd þeirra. Ég hef m. a. setið fund með forustumönnum iðnaðarins, fulltrúum viðskiptabankanna, sem lánin verða að ganga í gegnum, og fulltrúum Seðlabankans. Á þeim fundi óskaði ég alveg sérstaklega eftir því, að fulltrúar iðnaðarins kæmu til mín með þau dæmi, þar sem þeir teldu, að við þetta væri ekki staðið, og nefndu alveg umbúðalaust, í hvaða tilfellum það væri, sem þeir fengju ekki rekstrarlán hliðstæð því, sem sjávarútvegur og landbúnaður fá í sambandi við útflutningsframleiðslu. Það hefur enginn þeirra komið til mín. Mér hefur líka verið ljóst, að mjög mörg iðnfyrirtæki, að maður segi ekki flest, höfðu um árabil búið við annað rekstrarlánafyrirkomulag í þessum efnum, þ. e. a. s. þau fyrirtæki höfðu fengið rekstrarlán frá viðskiptabönkunum, og af því eru almenn rekstrarlán frá viðskiptabönkunum til iðnaðarins í landinu miklum mun hærri en almenn rekstrarlán til sjávarútvegs og landbúnaðar. Rekstrarlánin hafa þarna verið í öðru formi, og það þarf vitanlega að færa þau yfir í hið nýja form. Það tekur nokkurn tíma og verður eðlilega að ganga í gegnum bankana eftir þeim almennu reglum, sem þar gilda.

Ég skal ekki, af því að ekki er tími til þess hér, ræða þetta mál í lengra máli. En ég vil aðeins segja það, að það er til þess ætlazt af stjórnarvöldum, að allar greinar iðnaðarins, sem vinna fyrir útflutning, njóti algerlega sambærilegra lána við það, sem landbúnaður og sjávarútvegur njóta. Þetta eru þau fyrirmæli, sem liggja fyrir gagnvart þeim aðilum, sem hafa með framkvæmdina að gera. Síðan liggur það einnig fyrir, að það er ætlazt til þess, að allar þýðingarmiklar framleiðslugreinar í iðnaði, þó að þær framleiði ýmist fyrir útflutning eða innanlandsmarkað eða eingöngu fyrir innanlandsmarkað, eigi einnig kost á þessum tegundum af rekstrarlánum, auðvitað með því móti, að viðkomandi fyrirtæki geti innt af höndum tilteknar fjármálalegar skuldbindingar. Ég held, að að þessu sé unnið. En því miður hefur meira borið á því, að sagt er með almennum orðum: Það er ekki nægilega mikið lánað til iðnaðarins, það þarf að gera betur við iðnaðinn, iðnaðurinn er sniðgenginn, iðnaðurinn fær ekki að njóta sama réttar og aðrir. — En það þarf að koma svolítið skýrar og betur fram, í hvaða tilfellum þetta er, og þeir, sem telja á sig hallað, miðað við þær yfirlýsingar, sem gefnar hafa verið, ættu að gefa sig fram, svo að hægt sé að aðstoða þá við að ná rétti sínum, ef bankakerfið er að brjóta á þeim rétt.